Útfærsla sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra var ekki bara rangstæð gagnvart mannréttindum, stjórnarskrá og lagaheimildum, heldur var hún hvorki vel undirbúin né úthugsuð. Þetta skrifar Árni Helgason í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Greinin ber nafnið „Illa útfærð innilokun.“
„Ekki virtist gert ráð fyrir að hótelgestirnir fengju að komast út undir bert loft. Upplýsingar til hópsins voru af skornum skammti og dæmi um að fólk vissi ekki hvað til stæði fyrr en það var á leiðinni í einangrunina,“ skrifar Árni. „Og það sérkennilegasta var að gestir hótelsins gátu hvað sem öllu leið farið ef þeir vildu. Þeir sem það gerðu voru vissulega tilkynntir til lögreglu og gátu þá fengið sekt en sóttvarnarökin fyrir því að einangra alla hina urðu afar óljós fyrir vikið.“
Árni vekur þá athygli á samanburðinum á aðstæðum ferðamanna og þeirra sem komast í návígi við smitaðan einstakling hér innanlands. Lögmenn kærenda í málinu vöktu einmitt athygli á þessu ætlaða broti á jafnræðisreglu, en dómari tók ekki afstöðu til þess í málinu. Árni skrifar:
Samanburðurinn er líka áhugaverður. Þeir sem þurfa að fara í hefðbundna sóttkví eftir að hafa umgengist smitaðan einstakling hér innanlands gátu tekið þá sóttkví heima hjá sér eða uppi í bústað, án einangrunar eða eftirlits. Á sama tíma voru þeir, sem komu til landsins og höfðu þá þegar framvísað neikvæðu PCR-prófi og farið í skimun á landamærum, skikkaðir í fimm daga einangrunarvist. Þessi mikli munur á úrræðum stenst illa skoðun.
Árni segir alla dauðþreytta á ástandinu en vekur athygli á því að einmitt þá er mikilvægast að standa vörð um réttindi borgaranna gagnvart hinu opinbera.
Við erum öll orðin dauðþreytt á þessu ástandi. Á tímum þegar það er aðsteðjandi ógn og stöðugur ótti er freistandi að taka upp ný og „beittari“ úrræði án tafar og ekki tefja málin um of með umræðum eða vangaveltum. Þá er einmitt hættan á að stjórnvöld fari of geyst og fram úr sér.