fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Valdið sem felst í bjöllunni – Brennivínsréttindin þóttu eftirsóknarverð

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 3. apríl 2021 15:00

Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn forseti Alþingis í desember 2017. Hann hættir á þingi eftir kosningar. MYND/ERNIR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau sem gegna embætti forseta Alþingis eru jafnan virðulegir þingmenn sem eru framarlega í sínum flokki en hlutu ekki ráðherrastól. Dagskrárvald á Alþingi er formlega hjá forseta þingsins en í praxís hjá ríkisstjórninni sjálfri.

Í hugum margra er forseti Alþingis sá sem kynnir næsta ræðumann og hringir bjöllunni þegar ræðutíminn er búinn. Hlutverk forseta Alþingis er hins vegar mun veigameira og er það í raun valdamesta hlutverkið þegar kemur að störfum þingsins.

„Dagskrárvaldið á Alþingi er hjá forseta þingsins. Þeir sem veljast í þetta embætti eru venjulega gamalreyndir stjórnmálamenn sem kunna vel á hefðir þingsins og eru vel í stakk búnir til að stjórna starfi þess. Þeir sem hafa orðið forsetar Alþingis á síðustu áratugum hafa oftast verið fyrrverandi ráðherrar og oftast úr flokki forsætisráðherra. Þannig er dagskrárvaldið því í raun í höndum ríkisstjórnarinnar sjálfrar, sér í lagi foringja ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn forseti Alþingis eftir að sitjandi ríkisstjórn tók við, í desember 2017. Hann hefur verið þingmaður síðan 1983, í tæpa fjóra áratugi. Hann er fyrrverandi formaður Vinstri grænna, flokks forsætisráðherra, hefur verið ráðherra fjölda ráðuneyta og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir þingflokk sinn. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem Steingrímur gegnir embættinu en hann var stuttlega forseti Alþingis frá 2016-2017.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands

Viðeigandi endir á ferlinum

Ólafur segir að lengi vel hafi embættið verið meiri virðingarstaða en valdastaða. Það hafi hins vegar breyst með aukinni áherslu á sjálfstæði þingsins.

„Þegar ríkisstjórnir eru myndaðar hefur það verið keppikefli flestra frammámanna í flokkunum sem fara saman í ríkisstjórn að fá ráðherraembætti. Þar á eftir hefur komið embætti forseta þingsins. Stundum hefur það einmitt verið þannig að þegar hefur farið að síga á seinni hlutann á ferli reyndra stjórnmálamanna sem hafa lengi verið í fremstu röð, en flokkarnir vilja koma yngra fólki í ráðherrastólana, þá er virðulegur eldri þingmaður gerður að forseta Alþingis.

Stundum er staða þingforseta talin jafngilda ráðherrastóli þó flestir stjórnmálamenn séu á þeirri skoðun að mun meiri völd fylgi ráðherratitlinum. „Fyrir mann eins og Steingrím J. Sigfússon er það í raun mjög viðeigandi endir á löngum ferli að kveðja sem forseti þingsins,“ segir Ólafur en Steingrímur hefur gefið út að hann hætti á þingi eftir næsti alþingiskosningar.

Ráðherrann á RÚV

Í þáttunum Ráðherrann sem sýndir voru á RÚV, þar sem Ólafur Darri Ólafsson fór með hlutverk Benedikts forsætisráðherra, var ákveðið að gera hinn unga varaformann, sem Þorvaldur Davíð Kristjánsson lék, að forseta Alþingis. Þarna var því um að ræða undantekningu frá reglunni en auðvitað líka um sjónvarpsþáttaseríu að ræða en ekki raunveruleika. „Það kom líka fram að öllu jöfnu hefði hann orðið ráðherra en í þeim söguþræði þurfti formaðurinn, vegna innanflokksátaka, að setja annan í ráðherrasætið. Það var því þrautalending að gera unga varaformanninn að forseta þingsins,“ segir Ólafur.

Þá bendir hann á að ýmislegt hafi verið gert til að gera embætti forseta þingsins eftirsóknarverðara. Ein tilraun til þess var árið 1995 þegar ákveðið var að forseti Alþingis nyti sömu launa og starfskjara og ráðherrar. Þingfararkaup óbreyttra þingmanna er nú rúmlega 1,2 milljónir króna en ráðherrar og forseti þingsins fá 2 milljónir. Ofan á þetta geta síðan bæst ýmis hlunnindi.

Ákveðin jafnvægislist

Þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu á fyrsta fundi hvers kjörtímabils skal kosinn forseti og sex varaforsetar og skipa þeir forsætisnefnd. Þar sem átta flokkar eru nú á þingi eiga ekki allir þeirra fulltrúa í nefndinni.

Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið, hefur umsjón með alþjóðasamstarfi, fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu.

Ólafur bendir á að forseti þingsins sé í raun í dálítilli klemmu. „Hann er yfirleitt fulltrúi ríkisstjórnarflokkanna og á að sjá um að ríkisstjórnin komi sínum málum í gegn. Hann er samt forseti allra þingmanna og fulltrúi þeirra í þingstörfunum. Þetta er því ákveðin jafnvægislist.“

Þá tekur Ólafur fram að síðustu fjórir þingforsetar hafi lagt verulega áherslu á að styrkja stöðu þingsins, til að mynda með því að bæta starfsaðstöðuna þar. Þetta eru þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir úr Samfylkingu, Einar K. Guðfinnsson og Unnur Brá Konráðsdóttir úr Sjálfstæðisflokki, og svo Steingrímur J.

„Starfsaðstaða þingmanna hefur gjörbreyst. Lengi vel höfðu þeir ekki einu sinni sér skrifstofu. Þá hefur starfsmönnum bæði þingsins og þingflokkanna fjölgað og sérfræðiaðstoð aukist mjög mikið. Forsetar þingsins hafa átt mikinn þátt í að gera Alþingi að faglegri vinnustað og aðstöðu íslenskra þingmanna líkari því sem gerist í nágrannalöndunum.“

Brennivínsréttindin

Ólafur segir lítið hægt að spá fyrir um hver verði næsti forseti Alþingis þar sem það liggur ekki einu sinni fyrir hvaða flokkar verða í næstu ríkisstjórn, hvað þá að allir framboðslistar séu komnir á hreint. „Það er nokkuð öruggt að þingforseti komi úr einhverjum þeirra flokka sem mynda næstu ríkisstjórn. Í augnablikinu vitum við hins vegar ekki annað en að það verði reyndur þingmaður sem fær ekki ráðherrasæti en er framarlega í sínum flokki.“

Þá rifjar Ólafur upp gamla gamansögu af Andrew Gilchrist, sendiherra Breta á Íslandi, þegar þorskastríðin stóðu sem hæst. Gilchrist þótti nokkuð skrautlegur sendiherra og skrifaði hann meðal annars bókina „Cod wars and how to lose them“. Sagan segir að Gilchrist hafi alls ekkert skilið í því af hverju það væri eftirsóknarvert að vera forseti Alþingis.

„Þegar hann var kominn betur inn í íslensk stjórnmál rann þó upp fyrir honum ljós. Embættið væri svona eftirsóknarvert því þá hefðu menn svo góðan aðgang að ódýru brennivíni, og ekki væru brennivínsréttindin endilega eftirsóknarverð til að menn gætu sjálfur drukkið heldur til að þeir gætu keypt mikið magn af brennivíni og veitt væntanlegum kjósendum vel. Þetta er nú bara svona skemmtileg anekdóta,“ segir Ólafur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni