„Ég er ekki viss um að lýsingin standist skoðun á því sem kölluð er fjórða bylgja. Það er alltaf eins og við séum á undan öllum heiminum í bylgjum. Við þurfum að hemja orðræðuna. Það er engin bylgja í gangi í dag,“ sagði Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Silfrinu á RÚV í dag. Hún sagði að margir hefðu gerst sekir um hræðluáróður undanfarið, jafnvel þeir sem hafi það hlutverk að veita okkur upplýsingar um gang mála.
Þá lýsti Sigríður yfir efasemdum um réttmæti þess að grípa til svo harkalegra aðgerða sem gert var í vikunni, er samkomutakmörk voru færð niður í 10 manns og margskonar starfsemi lokað, í kjölfar þess að þrjú smit hafi greinst utan sóttkvíar. Sigríður minnti á að fyrr á árinu hafi sóttvarnalög verið uppfærð til að skapa lagastoð fyrir þeim aðgerðum sem gripið er til. Þá hafi verið áréttað í lögum að gæta skuli meðalhófs í aðgerðum.
Sigríði þykir einnig vafasamar þær reglur sem eiga að taka gildi 1. apríl, um að allir sem koma til landsins verði settir í farsóttarhús. Hún sagði slíkt jafngilda gæsluvarðhaldi. Í sóttvarnalögum sé kveðið á um að farsóttarhús séu til reiðu til að gæta réttinda þeirra sem þar þurfa að dveljast vegna þess að þeir hafi ekki í önnur hús að venda. Ekki sé þar kveðið á um að hægt sé að neyða fólk til að vera þar.
Grímur Atlason framkvæmdastjóri hafði annað sjónarhorn á þessi mál en Sigríður. Hann var sammála henni um að aðgerðirnar væru harðar og sagði að þær kæmu mjög niður á nemendum og mörgum öðrum, t.d. hefði fermingum verið aflýst og félagmiðstöðvum aldraðra lokað. Hann var einnig sammála Sigríði um að lagaheimildir fyrir heftandi aðgerðum þyrftu að vera skýrar.
Á hinn bóginn mælti Grímur með því, öfugt við Sigríði, að aðgerðir yrðu hertar á landamærum tímabundið svo við kæmumst hjá því að þurfa aftur og aftur að búa við svo miklar hömlur á eðlilegu lífi sem raun ber vitni. Vísaði hann þar til aðgerða á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu þar sem leiðin inn í landið hefur verið nánast lokuð, smit mjög fá og lífið gengi sinn vanagang innanland, t.d. tónleikahald leyft.
Sigríður sagði: „Hvorki hér né á Nýja-Sjálandi né í Ástralíu hefur lífið verið eðlilegt.“ Telur hún að langtímaafleiðingar af öllum þeim höftum sem hefur verið beitt í þessum löndum í baráttunni gegn faraldrinum eigi eftir að koma fram.
Þórlindur Kjartansson, ráðgjafi og pistlahöfundur, sagði að þegar litið væri á stóru myndina hefði okkur gengið mjög vel í baráttunni gegn faraldrinum miðað við flest önnur lönd. Ef sjúkdómurinn fái að ganga óheftur breytist staðan í heilbrigðiskerfinu til hins verra mjög hratt. „Við erum mjög lánsöm,“ segir Þórlindur.
Sigríður er einnig gagnrýnin á fastheldni Íslands við bóluefnaáætlun ESB. Hún segir að við hefðum átt að leita allra leiða til að tryggja bóluefni fyrir viðkvæma hópa: Fólk yfir 60 ára, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og framlínustarfsmenn. Þessi hópar alls telji um 90.000 manns. Með þennan hluta þjóðarinnar bólusettan værum við í allt annarri stöðu og gætum notað þá orku sem fer í að herða landamæraeftirlit og hanna litakóðunarkerfi í það að gera heilbrigðiskerfið betur í stakk búið til að takast á við þennan sjúkdóm og aðra.
Þórlindur benti að Ísland væri þrátt fyrir allt í fremstu röð í bólusetningum. Samanburður við Ísrael þar sem væri mikil lyfjaþekking, eða Bandaríkin og Bretland, sem væru framleiðslulönd bóluefna, væri ekki raunhæfur. „Þetta er mikilvægasta og eftirsóttasta vara í sögu mannkynsins,“ sagði Þórlindur og telur að allra mikilvægast sé að samningar haldi. Því sé Íslandi best borgið innan bóluefnaáætlunar ESB, því þar haldi samningar, sem sé ekki sjálfgefið varðandi svona mikilvæga og eftirsótta vöru. Segir hann þessa ákvörðun, að vera í samfloti með ESB, hafa verið farsæla.