Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, sem er kominn yfir sjötugt, fór í bólusetningu niður í Laugardalshöll á föstudaginn. Miðað við þær upplýsingar er ljóst að höfundur skrifanna er Davíð Oddsson, annar ritstjóri blaðsins.
Davíð lýkur miklu lofsorði á skipulag og framkvæmd bólusetningar og segir að kátt hafi verið í höllinni og mjög fjölmennt þegar hann fékk bólusetninguna.
Davíð segir að eftir bólusetningarklúður ríkisstjórnarinnar verði þjóðin seint fullbólusett. Stjórnvöld hafi gert stór mistök með því að binda sig við bóluefnaáætlun Evrópusambandsins. Hann segir jafnframt að ESB hafi komið óorði á AstraZeneca bóluefnið í hefndarskyni vegna þess að ríki utan sambandsins náðu forskoti í bólusetningum. Ber Davíð fyrir sig leyniþjónustumanninn og metsölurithöfundinn Fredeick Forsyth í þeim efnum:
„Forsyth sagði á þá leið í vikunni að það væri hefndarþorstinn sem stýrði nú afstöðunni til Breta hjá gagnslitlu spírunum sem stjórna ESB og sumum aðildarlöndum þess. En hefndarþorstinn sá sé nú í bland við hrópandi skömm yfir getuleysi þeirra sjálfra. Þetta verði allt skiljanlegra sé rétt litið um öxl. Það mátti hafa verið öllum ljóst sl. vor, að mati Forsyth, að einungis eitt bjargráð gæti ráðið úrslitum í þessum heljarslag. Það snerist um að ná í tæka tíð að framleiða virkt bóluefni gegn kórónuveirunni, sem væri öflugt og án alvarlegra aukaverkana.“
Það var breskt fyrirtæki sem þróaði AstraZeneca og segir Davíð að Boris Johnson forsætisráðherra hafi tekið áhættu sem hafi borgað sig þegar hann ákvað að taka efnið í notkun. Hugrekki sé nauðsynlegt á þessum tímum og jafnvel að taka áhættu með ekki fullreynt bóluefni:
„Breska ríkisstjórnin hefði gert það sem ríkisstjórnir gera svo sjaldan. Hún stökk á hugmyndina, þótt ófullburða væri, og tók með því mikla áhættu. Og lukkan féll í þetta sinn fyrir hugrekkinu eins og stundum áður. Stóra dæmið sem allt hékk á gekk upp. American Pfizer varð vissulega hálfum mánuði fyrra til. En framleiðslan þurfti fleiri en einn í baráttuna. Bæði fyrirtækin stóðust öryggiskröfur. Og Bretar virkjuðu nú þá samninga sem þeir höfðu áður gert til bráðabrigða. Allt var sett á fulla ferð. Tekið var til við að afgreiða pantanir af krafti og bólusetning hófst.“
Á sama tíma hafi ESB setið aðgerðalaust:
„En ríkisstjórnir ESB, hvað gerðu þær? Héldu sitjendum sínum volgum á meðan. Loksins tóku þó einhverjir að vakna af svefni sínum og sleni. Þá tóku þau, skelfingu lostin, loks að kalla eftir bóluefnum. Kröfðust þess loks í örvæntingu sinni að samningum yrði rift við þá sem sýnt höfðu djörfung og dug á meðan ESB svaf.
En eðli málsins samkvæmt hlutu þeir að hafa forgang sem höfðu samið um slíkt og greitt á meðan aðrir sváfu. Forsprakkar ESB fengu ekki undirtektir við kröfum um að rifta annarra manna samningum. Og það kynti undir hefndarþorstanum svo um munaði.“
Davíð hefur jafnframt eftir Forsyth að tilvik blóðtappa sem gætu hugsanlega tengst AstraZeneca bóluefninu séu ótrúlega fá. Jafnframt séu leiðtogar í Evrópu í sömu andránni að hallmæla bóluefninu og heimta meira af því:
„Forsyth bendir á „að í París hrópaði Macron forseti að okkar bóluefni stæðust ekki kröfur og krafðist svo þess í beinu framhaldi að fá miklu meira af því! Því næst var blóðtöppum (thrombosis) slegið upp sem hættumerkjum sem réttlættu að hafna efninu!“ Hvað um að fá fram fáeinar staðreyndir, spyr rithöfundurinn. Tilvik fyrrnefndra blóðtappa, segja sérfræðingar, munu vera 66 þúsund á ári hverju að meðaltali eða 1.270 á viku. Þeir sem hrópuðu aðvörunarorðin vegna blóðtappa, sem ekki væri hægt að fullyrða að tengdust ekki AZ-bóluefninu, nefndu á bilinu 8-12 atvik í heild! „Er ekki rétt að senda þessum fírum reiknistokk?“ spyr Forsyth. „Þeir eru illa ryðgaðir í reikniverkinu. En hástigi nær þó heimskan þegar reynt er að trampa trúverðugleika AZ niður og heimta í sömu andrá að fá úthlutaða miklu fleiri skammta af efninu til sín. Ekki er hægt að ímynda sér annað en að framganga af þessu tagi verði til þess að fækka enn í sísmækkandi hópi þeirra sem enn trúa því að Bretar hafi átt að halda áfram að láta þennan mannskap fara með úrslitaráð yfir breskum hagsmunum,“ segir höfundur spennusagnanna og MI6-foringinn að lokum.“
Davíð segir að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að leggja hagsmuni sína í hendur þeirra sem hafa engan áhuga á þeim. Á hann þar við þá ákvörðun Íslendinga að fylgja bóluefnaáætlun ESB í einu og öllu og ekki freista þess að sækja bóluefni framhjá henni. Fyrir þetta fá íslenskir ráðamenn einkunnina „aular“ hjá Davíð:
„Ætla mætti að sama gilti ekki síður um fyrirbærin hér, hjá nágrönnunum í norðri, sem telja að það sé enn allra meina bót að afsala íslenskum hagsmunum til þeirra sem ekkert þekkja til þeirra og hafa minni en engan áhuga á þeim.
Og eru nú að auki alsannaðir aular.“