fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Talið óðs manns æði að byggja á sprungusvæði

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 21. mars 2021 20:00

Gos er hafið í Geldingadal á Reykjanesi Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engu að síður var reist fjölmennt íbúðahverfi við Rauðavatn. Sprungusvæði hitamál í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1982. Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga nú gerir hættuna raunverulegri í hugum fólks.

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 12. mars.

Neyðarástand er í borginni, götur fylltust á örskömmum tíma í morgun og einstaklingar að missa stjórn á sér vegna álagsins. Verulegar truflanir eru á raforku, hús í tilteknum hverfum eru að kólna, og farið er að örla á örvæntingu meðal borgarbúa. Kjaftæðið sem kemur frá hinum og þessum útvarps- og samfélagsmiðlum ruglar almenning, og útsendingar eru slitróttar og furðulegar. Símakerfið er að hruni komið og tilviljun ræður hvort samband náist auk þess sem netið er hægvirkt.“

Þessi texti er ekki úr skáldsögu eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur heldur tekinn upp úr raunhæfu verkefni sem lagt var fyrir nemendur tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík fyrir fáeinum misserum. Þar var gert ráð fyrir að eldgos væri hafið í Henglinum – í aðeins 20 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík. Verkefnið var hluti af svokölluðum Hamfaradögum þar sem nemendum í ýmsum fögum er kennt að vinna í samstarfi að gríðarstórum viðfangsefnum. Áður hafði verið tekin fyrir sem skólaverkefni útbreiðsla sjúkdóms, sem krefðist þess að landið yrði í sóttkví – en ekki svo löngu síðar var slíkt viðfangsefni orðið heldur betur raunverulegt…

Gos í námunda við Reykjavík

Í verkefni nemendanna höfðu miklar umferðarteppur myndast um alla borg. Gosinu fylgdi fín aska eða ryk sem smeygði sér alls staðar. Íbúar á Reykjavíkursvæðinu fyndu margir fyrir öndunarerfiðleikum. Verulegar truflanir væru á raforku, hús í tilteknum hverfum farin að kólna og meðal borgarbúa örlaði á örvæntingu. Þá væri símakerfið að hruni komið og tilviljun réði því hvort samband næðist auk þess sem netið væri hægvirkt.

Þetta skólaverkefni er eðlilega orðið miklu raunverulegra nú, í ljósi jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesskaga og þess gosóróa sem þar hefur mælst. Talsverð eldsumbrot hafa orðið á skaganum á sögulegum tíma, þar á meðal í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Má þar nefna Svínahraun (eða Kristnitökuhraun) sem rann um árið 1000, Hellnahraun eða Hvaleyrarhraun í Hafnarfirði frá því um árið 950 og Kapelluhraun sem er yngst, eða frá 13. öld. Fræðimenn telja ekki ósennilegt að við blasi viðvarandi jarðskjálfta- og eldvirkni á svæðinu næstu ár og áratug.

Kristján Már Unnarsson, hamfarafréttamaður Stöðvar 2, ræddi við Harald Sigurðsson eldfjallafræðing fyrir sex árum þar sem Krýsuvíkureldstöðina bar á góma. Haraldur sagði eldgos þar geta leitt til goss í jaðri Reykjavíkur og hvatti hann til þess að gert yrði betra áhættumat fyrir Reykjavíkursvæðið.

Sprungusvæðið við Rauðavatn

Mál þessu tengd hafa líklega aldrei orðið jafnpólitísk og í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1982. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn áformaði þá íbúðabyggð við Rauðavatn á þekktu sprungusvæði. Davíð Oddsson, oddviti minnihluta sjálfstæðismanna, komst svo að orði um það mál í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í apríl 1981: „Ennfremur hefur verið á það bent af færustu jarðvísindamönnum að Rauðavatn sé á miklu sprungusvæði sem sé að verulegu leyti ókannað og óathugað. Jarðvísindamenn hafa talið það óðs manns æði að gera ráð fyrir þessum svæðum sem næstu byggingasvæðum í borginni, áður en vísindalegar athuganir á því hafa farið fram.“

Hitamál í borgarstjórnarkosningum

Þjóðviljinn, málgagn Alþýðubandalagsins, var á öndverðum meiði og benti á að sjálfstæðismenn hefðu áður byggt hverfi á sams konar sprungusvæðum í Breiðholtinu. Blaðið ræddi við Halldór Torfason jarðfræðing sem rannsakað hafði svæðið. Hann taldi húsum á sprungusvæðinu engu meiri hætta búin en byggingum á sprungulausum svæðum, ef menn gættu þess að sneiða hjá sjálfum jarðsprungunum þegar byggt væri.

Hart var deilt um fyrirhugaða byggð á sprungusvæðinu í aðdraganda kosninganna og án efa átti þessi einarða andstaða sjálfstæðismanna gegn byggð þar, sinn þátt í því að Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti meirihlutann í borgarstjórn og Davíð Oddsson varð borgarstjóri.

Eldgos í Árbæjarhverfi

Sjálfstæðismenn lögðu áform um byggð á sprungusvæðinu vitaskuld til hliðar eftir kosningarnar 1982, en svo fór þó löngu síðar, eftir að R-listinn var kominn til valda, að Norðlingaholtshverfi var byggt á sprungusvæðinu og raunar liggur ein sprunga í gegnum Árbæjarhverfi. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur þessar sprungur sennilega tengjast Krýsuvíkurkerfinu og að ekki megi útiloka eldgos í Árbæjarhverfi.

Þess má geta að staðsetningu Árbæjarlaugar var á sínum tíma breytt eftir að sprunga kom í ljós og þá hefur þurft að færa til hús í Norðlingaholti sem teiknuð höfðu verið ofan á misgengissprungum. Holræsaskurður var þó lagður eftir einni sprungunni og yfir þær liggja götur.

Sprungurnar allar á sínum stað

Um það leyti sem deilurnar um byggðina á sprungusvæðinu stóðu sem hæst mátti lesa þetta í forystugrein Morgunblaðsins: „Með Rauðavatnshugmyndunum er verið að stefna framtíð borgarinnar í óefni um langa hríð.“ En hvað sem hástemmdum yfirlýsingum af þessu tagi leið þá fór ekki einasta svo að byggt yrði íbúðahverfi á sprungusvæðinu heldur reisti Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, þar stórhýsi undir skrifstofur sínar og prentsmiðju. Jón Magnússon lögmaður spurði í aðsendri grein í Fréttablaðinu þegar verið var að reisa nýju Morgunblaðshöllina hvað hefði breyst – sprungurnar væru allar á sínum stað: „Var e.t.v. alltaf í lagi að byggja við Rauðavatn þá eins og nú? Var þetta upphlaup Davíðs gegn Rauðavatnssvæðinu bara ómerkilegur kosningaáróður sem virkaði vel en var algjörlega innihaldslaus?“

Þeirri spurningu verður ekki svarað hér, en svo fór að sjálfur Davíð varð ritstjóri Morgunblaðsins og hefur í á annan áratug setið á skrifstofu á hinu alræmda sprungusvæði við Rauðavatn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu