„Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis,“ segir Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins í morgun og vísar til stöðu bólusetninga hér á landi. Hörður fer ekki í grafgötur með málin frekar en fyrri daginn og segir að Íslandi hafi allt til brunns að bera til þess að klára bólusetningar hratt og örugglega, en mistekist það engu að síður.
Ísland er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga innviði, þar sem vilji til bólusetningar er ríkur. Þjóðin ætti, við venjulegar kringumstæður, að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vestræn ríki sem standa utan Evrópusambandsins, á borð við Bretland og Bandaríkin. Í Bretlandi stendur öllum sem komnir eru yfir fimmtugt nú til boða bólusetning og í Bandaríkjunum stendur til að nægt bóluefni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsisdaga í dagatalið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður aflétt.
Joe Biden Bandaríkjaforseti horfir nú til þjóðhátíðardags Bandaríkjanna, 4. júlí, sem umrædds „frelsisdags.“ „Á meðan,“ skrifar Hörður, „höfum við horft upp á tafir og meiriháttar klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda, sem var af óskiljanlegum ástæðum útvistað til ESB,“ skrifar hann jafnframt.
Enn er ekki einu sinni búið að bólusetja alla eldri borgara hér á landi og fyrirætlanir um bólusetningar hafa nú tafist um heilan mánuð, og ráðamenn yppa bara öxlum við þeim tíðindum. „Þetta er grautfúlt, en svona er þetta og svona er þessi veira,“ voru viðbrögð forsætisráðherra við því þegar fréttir bárust um að AztraZeneca-bóluefnið, stór liður í bóluefnisöflun landsins, hefði tímabundið verið sett til hliðar. Fáir leggja traust sitt á að áætlun stjórnvalda um að búið verði að bólusetja alla Íslendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí muni ganga eftir.
Hörður segir hvern dag sem líður án þess að bólusetning á þjóðinni er kláruð vera óheyrilega dýr og kemur ferðaþjónustunni til varna. Síðan Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sem jafnframt fer með málefni landamæra Íslands, tilkynnti að bólusetningarvottorð frá ríkjum utan Schengen yrðu tekin gild og fólki þaðan með slík vottorð hleypt inn í landi hindrunarlaust hafa margir gagnrýnt umrædda ákvörðun. „Ríkisstjórn SAF og Icelandair,“ hefur heyrst, og aðrir sagt að þjóðin ætti að einbeita sér að því að skapa ný störf.
Hörður skrifar:
Ferðaþjónustan er mikilvægari fyrir okkur en flestar nágrannaþjóðir, ríkissjóður tapar milljörðum ofan á milljarða og safnar skuldum á hverjum degi – en hreinar skuldir ríkisins hafa aukist um nærri 300 milljarða á síðustu tólf mánuðum. Þá er tæpast hægt að setja verðmiða á tjónið sem skorður á athafnafrelsi, ferðafrelsi og almennum mannréttindum kosta; glötuð tækifæri, skortur á annarri heilbrigðisþjónustu, versnandi andleg heilsa og einfaldlega glötuð lífsgæði, því líf sem lifað er undir þrúgandi boðum og bönnum til lengdar getur vart talist líf. Því miður hefur faraldurinn hins vegar fest í sessi þann hugsunarhátt hjá stórum hópi að ávallt sé réttlætanlegt að hefta frelsi fólks ef einhver hætta kann að vera á ferðinni.
Hörður segir enn fremur að dræm staða bólusetningar hér á landi sé forystuleysi að kenna. Hægt hefði verið að bólusetja þjóðina fyrr, opna landið og afnema kostnaðarsamar takmarkanir með öflugri forystu. „Baráttan um bóluefnin er enginn leikur heldur alvöru slagur,“ segir Hörður og bendir á að kalt stríð ríki nú á milli Bretlands og Evrópusambandsins í bóluefnamálum. „Stjórnvöld hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu, en af einhverjum ástæðum virðist þeim ráðherrum sem fóru með málið hafa skort þar vilja eða getu, eða hvoru tveggja.“
Hörður skrifar að lokum: