Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, að alþjóðasamstarf þjóðþinga fari nú allt fram í gegnum fjarfundabúnað og ekki sé vitað hvenær staðfundir alþjóðlegra þingmannasamtaka hefjist að nýju. Þróun heimsfaraldursins, framgangur bólusetninga og fleira ráði því.
Í mars á síðasta ári ákvað forsætisnefnd þingsins að fella niður vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsfólks frá og með 17. mars út vorþingið. Ferðum á þingmannafundi og ráðstefnur var í raun sjálfhætt því allt færðist þetta yfir á rafrænt form að frumkvæði skipuleggjenda.
Morgunblaðið segir að samkvæmt upplýsingum frá Rögnu hafi ferðakostnaður, ferðir og dagpeningar, þingmanna 2020 verið tæplega 10,7 milljónir en 2019 var hann tæplega 51,9 milljónir.