Leiðari Morgunblaðsins gerði sér í morgun mat úr formannskosningu VR sem fram fór í síðustu viku. Kosið var á netinu og lágu niðurstöðurnar fyrir á föstudag. Ragnar Þór Ingólfsson, sitjandi formaður, bar sigur úr býtum með nokkrum glæsibrag, en hann hlaut rúm 63% atkvæða. Mótframbjóðandinn hans, Helga Guðrún Jónasdóttir, fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og upplýsingafulltrúi hlaut 34%.
Ragnar Þór var fyrst kjörinn formaður VR í mars 2017 en þá bauð hann sig fram gegn Ólafíu B. Rafnsdóttur, sitjandi formanni. Ragnar hlaut þá, rétt eins og nú, 63% atkvæða. Á kjörskrá þá voru 33.383 og greiddu um 5.700 atkvæði. Kosningaþátttakan var því um 17%. Ragnar er fyrsti formaðurinn til þess að sitja þrjú kjörtímabil í röð frá hruni.
Þátttakan í ár var umtalsvert meiri nú en árið 2017, en nú kusu um 10.400 manns. Greidd atkvæði eru þannig rétt tæplega tvöfalt fleiri en árið 2017. Samkvæmt heimildum DV var markmið Helgu Guðrúnar og stuðningsmannateymis hennar að ná 3.500 atkvæðum og var það talið duga til sigurs miðað við þátttöku í fyrri formannskosningum. Hafi heimildarmenn DV rétt fyrir sér er ljóst að Helga vanmat andstæðing sinn og stuðning hans meðal félagsmanna VR gróflega.
Eftir stendur þó, að Ragnar er nú að hefja sitt fimmta ár í formannsstól VR með stuðning 18% félagsmanna. Það er þó meiri en þegar Ragnar hóf sinn formannsferil, en þá sigldi hann af stað með stuðning 10,7% félagsmanna.
Sem fyrr segir gerði Morgunblaðið þetta að umfjöllunarefni sínu í leiðara blaðsins í morgun. Davíð Oddsson er ritstjóri Morgunblaðsins.
Leiðarahöfundur skrifar:
Formaður VR vann með nokkrum yfirburðum í formannskjöri sem lauk fyrir helgi. Þar sýndi sig enn og aftur að sitjandi formaður nýtur drjúgs forskots og að mótframbjóðandi á jafnan á brattann að sækja.
En þegar betur er að gáð ættu úrslitin að vera formanninum umhugsunarefni. Um 36 þúsund félagar eru í VR en af þeim kusu formanninn aðeins um sex þúsund.
Leiðarahöfundur segir þá þátttökuna sýna áhugaleysi félagsmanna og ekki duga Ragnari sem umboð til áframhaldandi pólitískra afskipta.
Kosningaþátttaka var tæp 29%, sem sýnir mikið áhugaleysi félagsmanna um starfsemi félagsins. Þetta er umhugsunarvert, ekki síst í ljósi þess hve ríka tilhneigingu forysta þessa verkalýðsfélags – og hið sama á raunar við um sum önnur – hefur til að blanda sér almennt inn í þjóðmálaumræðu og pólitíska baráttu.
Það umboð sem Ragnar Þór Ingólfsson fékk fyrir helgi dugar honum vissulega til að leiða VR áfram, en það getur engan veginn verið réttlæting þess að beita VR í pólitískum tilgangi, jafnvel gegn sjónarmiðum stórs hluta félagsins.