fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Hin flókna staða bóluefnamála í ESB – Hver á hvað og hver vill hvað?

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 15. mars 2021 06:49

Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að margra mati gengur hægt að bólusetja fólk í aðildarríkjum ESB þar sem framboð af bóluefnum er takmarkað. Þetta á einnig við hér á landi því Ísland er aðili að bóluefnakaupum ESB og fær bóluefni í hlutfalli við íbúafjölda eins og aðildarríki ESB. En bóluefnamálin eru snúin og teygja anga sína víða og þar á meðal út fyrir Evrópu. ESB hefur heimilað útflutning á milljónum skammta af bóluefnum á sama tíma og þörf er fyrir meira magn innan sambandsins. Bandaríkin eiga milljónir skammta af bóluefni sem ekki er verið að nota en vilja ekki lána ESB þá.

Um helgina kom fram að í Bandaríkjunum eru milljónir skammta af bóluefninu frá AstraZeneca á lager en ekki er byrjað að nota efnið þar í landi þar sem það hefur ekki enn fengið markaðsleyfi hjá bandarískum yfirvöldum og það verður varla á næstunni því fyrirtækið hefur ekki enn sótt um markaðsleyfi. Þetta varð til þess að í síðustu viku spurði AstraZeneca Joe Biden, forseta, og stjórn hans hvort fyrirtækið gæti ekki fengið þessa skammta að láni fyrir ESB sem hefur ekki fengið nærri því alla þá skammta af bóluefninu sem sambandinu hafði verið lofað. New York Times segir að svarið við þessu hafi verið stutt og laggott: „Nei.“

En í kjölfarið báðu nokkrar alríkisstofnanir ríkisstjórnina um að hugsa málið betur og taka nýja ákvörðun í þessari viku. Þær benda á að í ESB, Brasilíu og fleiri ríkjum sé mikil þörf fyrir bóluefni. „Það er skilningur okkar að önnur ríki geti snúið sér til bandarísku ríkisstjórnarinnar og beðið um skammta af bóluefninu frá AstraZeneca og við höfum farið þess á leit við bandarísku ríkisstjórnina að hún taki þessar beiðnir til alvarlegrar skoðunar,“ sagði talsmaður AstraZeneca.

Það er ekkert smá magn af bóluefni AstraZeneca sem er á lager í Bandaríkjunum. Í verksmiðju fyrirtækisins í Ohio eru nú þegar 30 milljónir skammta af tilbúnu bóluefni að sögn New York Times. Í verksmiðju BioSolution í Maryland er bóluefni AstraZeneca einnig framleitt. Þar er búið að framleiða rúmlega 10 milljónir skammta sem eru nú á lager.

Vísindamaður meðhöndlar bóluefni. Mynd:Getty

New York Times segir að mikill þrýstingur sé á Biden um að standa við loforð sitt um að búið verði að bólusetja alla fullorðna Bandaríkjamenn, sem það vilja, fyrir lok maí. Það gæti skýrt af hverju ríkisstjórn hans er hikandi við að senda bóluefni AstraZeneca úr landi.

Svo er spurning hvort tíðindin frá Evrópu í síðustu viku hafi áhrif á þetta allt saman en þá tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í nokkrum ríkjum, þar á meðal hér á landi, að hlé yrði gert á notkun bóluefnis AstraZeneca á meðan rannsakað er hvort tilfelli blóðtappa tengist bóluefninu. Nokkur slík mál hafa komið upp í Danmörku og þar lést sextug kona eftir að hafa verið bólusett með bóluefninu, blóðtappi var banamein hennar. Á laugardaginn tilkynntu norsk heilbrigðisyfirvöld að verið væri að rannsaka hvort bóluefnið hafi valdið því að þrír ungir heilbrigðisstarfsmenn fengu blóðtappa skömmu eftir bólusetningu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO og Evrópska lyfjastofnunin segja að tíðni blóðtappa sé ekki hærri hjá bólusettu fólki en almennt.

Mikill útflutningur

Þrátt fyrir að Bretland hafi bólusett miklu fleiri en aðildarríki ESB hefur ESB sent milljónir skammta af bóluefnum til Bretlands. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, vill að sambandið stöðvi nú allan útflutning bóluefna.

Bretar hafa nú notað um 24 milljónir skammta af bóluefnum en í aðildarríkjum ESB er talan 44 milljónir skammta en íbúar ESB-ríkjanna eru 6,5 sinnum fleiri en íbúar Bretlands. 34% Breta hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni en í aðildarríkjum ESB er hlutfallið 7,3%.

Bretar hafa fengið milljónir skammta frá ESB. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

 

ESB hefur ekki viljað opinbera tölur um útflutning á bóluefnum en New York Times fékk samt sem áður aðgang að tölunum. Þær sína að á sama tíma og sambandið glímir við skort á bóluefnum og forystufólk þess hefur staðið í orðaskaki við forsvarsmenn lyfjafyrirtækjanna þá hefur mikið af bóluefnum verið flutt frá ESB. Í febrúar voru til dæmis 25 milljónir skammta fluttir út frá ESB, þar af 9 milljónir til Bretlands. Þetta voru bóluefni frá Pfizer/BioNTech sem voru framleidd í verksmiðju fyrirtækisins í Puurs í Belgíu. 4 milljónir skammta voru fluttar til Kanada, 3 milljónir til Mexíkó og 1 milljón til Bandaríkjanna.

Í heildina hefur sambandið flutt út 34 milljónir skammta á sama tíma og það dreifði 55 milljónum skammta til aðildarríkjanna. Inni í þessum tölum er það magn sem hefur farið til Íslands og Noregs sem taka bæði þátt í sameiginlegum innkaupum ESB.

„Við gerum ekki annað en að flytja bóluefni út en eigum ekki nóg bóluefni fyrir okkar eigin íbúa,“ sagði Peter Liese, þýskur þingmaður á Evrópuþinginu, um stöðuna. Hann er talsmaður hóps kristilegra demókrata á Evrópuþinginu og þar með einn af áhrifamestu þingmönnunum í Brussel.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var heldur ekki ánægður með stöðuna. „Ef fyrirtæki, sem við höfum samið við, standa ekki við loforð sína og senda bóluefnin í staðinn til annarra landa þá tel ég rétt að stöðva útflutninginn. Þau verða að standa við það sem samið var um,“ sagði hann í samtali við Sænska ríkisútvarpið.

Fram að þessu hefur ESB bara stöðvað eina sendingu bóluefna en það voru 250.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca sem áttu að fara til Ástralíu.

Það er því ljóst að ákveðins tvískinnungs gætir hjá ESB varðandi bóluefnin, forystufólk sambandsins barmar sér yfir skorti á bóluefnum en heimilar samtímis útflutning á milljónum skammta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump