fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Þetta er ástæðan fyrir því að Kristján Þór er að hætta – „Ástæðan er einföld“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 13. mars 2021 09:54

Kristján Þór Júlíusson. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Árið 1986 markaði tímamót í mínu lífi. Þá ákvað nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalagsins á Dalvík að ráða mig í starf bæjarstjóra. Ég 29 ára, kennari og sjómaður, var kominn í starf sem mér fannst mikil forréttindi að fá að gegna; að stýra heimabyggðinni.“

Svona hefst löng og ítarleg Facebook-færsla Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en greint var frá því í dag að Kristján ætli ekki að gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Kristján greinir í færslunni frá ástæðunni fyrir því að hann er að hætta á þingi. Kristján fer þó fyrst yfir stjórnmálaferilinn sinn en hann hefur verið í stjórnmálunum í yfir þrjá áratugi. Átta árum eftir að hann varð bæjarstjóri Dalvíkur varð hann bæjarstjóri Ísafjarðarkaupstaðar. „Í hönd fóru ógleymanlegir tímar fyrir vestan en líka erfiðir. Maður verður aldrei samur eftir að hafa upplifað náttúruhamfarir á við snjóflóðin sem áttu sér stað bæði í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Það sem stendur upp úr er samtakamáttur og magnaður styrkur Vestfirðinga sem þurftu að takast á við þessa miklu lífsraun,“ segir Kristján.

„Eftir fjögur krefjandi og lærdómsrík ár fyrir vestan lá leiðin aftur heim í Eyjafjörð, enn á ný í starf bæjarstjóra en nú á Akureyri. Þar fór í hönd kraftmikil uppbygging leikskóla, grunnskóla og íþróttamannvirkja auk þess sem samið var við ríkið um byggingu menningarhússins Hofs,“ segir Ágúst en hann tók fyrst sæti á Alþingi árið 2007. „Á þingi sat ég í fjárlaganefnd á árunum 2007 til 2013 sem voru eins og við þekkjum öll miklir ólgutímar í íslensku þjóðfélagi. Það var gagnlegt og lærdómsríkt að hefja þingferilinn í fjárlaganefnd á þessum tímum,“ segir hann.

„Þjónustan varð betri“

Árið 2013 var Kristján gerður að ráðherra í fyrsta skipti, þá var hann heilbrigðisráðherra. „Tímarnir voru krefjandi en líklega þeir lærdómsríkustu á mínum þingferli. Baráttan fyrir blönduðu kerfi opinberra aðila og einkaaðila var hörð og umræðan oft tilfinningarík, sem mér þótti alla tíð skiljanlegt því vitanlega höfum við öll skoðun á skipulagi og þjónustu heilbrigðiskerfisins, sem skiptir miklu um lífsgæði allra,“ segir hann og fer svo yfir þau mál sem hann er ánægður með að hafa bætt í heilbrigðisþjónustunni.

„Fyrst nefni ég samræmt greiðsluþátttökukerfi þar sem þak var sett á kostnað sjúklinga. Með því eru þeir sem eru í viðkvæmustu stöðunni varðir betur en áður. Með breytingunum samræmdum við fjölda kerfa í eitt sem var grundvallarbreyting til hins betra á kerfinu í heild sinni. Strax í upphafi lagði ég ríka áherslu á að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Við breyttum fjármögnunarmódelinu þannig að fé fylgir nú hverjum sjúklingi. Við buðum út nýjar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu. Þessi stóru skref held ég að hafi í grundvallaratriðum breytt kerfinu til hins betra. Þjónustan varð betri. Í tíð minni í heilbrigðisráðuneytinu var í fyrsta skipti mótuð heildstæð áætlun í geðheilbrigðisþjónustu, frelsi í auglýsingum lausasölulyfja var innleitt, uppbygging nýs Landspítala tryggð og þannig mætti lengi telja.“

„Sérstök forréttindi“

Kristján fer svo yfir sitt síðasta embætti á þingferlinum. „Á þessum tíma hefur okkur tekist að stíga fjölmörg framfaraskref, meðal annars við einföldun regluverks þar sem felldar hafa verið úr gildi ríflega 1.200 reglugerðir og tvö lagafrumvörp samþykkt, þar sem meðal annars fimm stjórnsýslunefndir voru lagðar niður,“ segir hann.

„Einnig vil ég nefna stofnun Matvælasjóðs, styrkingu á lagaumgjörð fiskeldis með tilheyrandi uppbyggingu á vísindalegum grunni og breytingar á álagningu veiðigjalds þannig að þau taka nú tillit til afkomu fyrirtækjanna. Lokið var við endurskoðun allra búvörusamninganna, m.a. um að viðhalda framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu, stórsókn íslenskrar garðyrkju og gerð búvörumerkis. Með samningunum voru gerðar umfangsmiklar breytingar á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra. Ég fullyrði að bæði landbúnaður og sjávarútvegur standa sterkar að vígi í lok þessa kjörtímabils en í upphafi þess.“

Kristján segir það vera mikil forréttindi að hafa fengið að vera sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Fyrir sveitastrák að norðan, sem alinn er upp á sjónum, eru það sérstök forréttindi að hafa fengið að gegna embætti ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar. En verkefninu er hvergi nærri lokið; á næstu vikum og mánuðum gefst tækifæri til að ljúka fjölmörgum málum sem ég hef lagt áherslu á á þessu kjörtímabili. Meðal annars átak til að ýta undir möguleika bænda til heimaframleiðslu beint frá býli, mælaborð fiskeldis, mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland ásamt frekari styrkingu starfsstöðvar stofnana ráðuneytisins á landsbyggðinni,“ segir hann.

„Ástæðan er einföld“

Í 14 ár hefur Kristján verið á Alþingi en hann segir árin hafa fyrst og fremst verið skemmtileg og lærdómsrík. „Það er ótrúlega gefandi að fá tækifæri til að sinna þessu starfi og hitta allt það fólk sem brennur fyrir málefnunum; eldhugana um allt land sem keyra verkefni áfram, oft á ástríðunni einni saman. Að vera fulltrúi sjálfstæðisfólks í Norðausturkjördæmi sem vill fyrst og fremst fá að sinna sínum störfum án of mikilla afskipta og hindrana frá ríkinu. Í kjördæminu bíða tækifærin við hvert fótmál. Það er og verður bjart yfir,“ segir hann.

Þá fer Kristján yfir ástæðuna fyrir því að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í kosningunum í haust. „En allt hefur sinn tíma. Ég hef því, að vandlega íhuguðu máli, ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri á Alþingi í kosningunum nú í haust. Ástæðan er einföld. Ég hef starfað við stjórnmál í 35 ár eða rúmlega hálfa ævi mína. Nú er einfaldlega komið að næsta kafla,“ segir hann.

„Í lokin vil ég þakka af auðmýkt það traust, trúnað og vináttu sem mér hefur verið sýnd í gegnum súrt og sætt. Ég veit að félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum um allt land munu tefla fram öflugum frambjóðendum með fjölbreyttan bakgrunn í komandi kosningum. Ég óska þeim öllum góðs gengis og mun hér eftir sem hingað til munstra mig í áhöfnina af heilum hug.·“

https://www.facebook.com/KristjanThorJuliusson/posts/3965091580220464

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar