fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Á mannamáli: Lögbrot Lilju Alfreðsdóttur – Málareksturinn einstakur í sögulegu samhengi

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 13. mars 2021 09:00

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra MYND/ANTON BRINK

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Alfreðsdóttir ætlar að áfrýja til Landsréttar dómi um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála þess efnis að hún hafi brotið jafnréttislög standi óhaggaður. Aldrei áður hefur ráðherra farið í mál við opinberan starfsmann og er málið því einstakt sögulega.

Kona sótti um starf hjá hinu opinbera og fékk ekki. Hún taldi ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafa brotið jafnréttislög þegar ráðherrann skipaði karlkyns flokksbróður sinn í stöðuna. Kærunefnd jafnréttismála var sammála þessu. Ráðherrann ákvað þá að fara í mál við konuna sem leitaði réttar síns til að fá úrskurði kærunefndar hnekkt. Á dómsskjölum stendur að sá sem stendur í málarekstri gegn konunni sé „íslenska ríkið“. Konan hafði betur í héraðsdómi og íslenska ríkið var dæmt til að greiða málskostnað hennar. Ráðherra ákvað þá að áfrýja til Landsréttar. Ólíklegt er að dómur þar falli fyrr en eftir alþingiskosningar sem fara fram í september. Reikna má með því að ráðherrann sækist eftir endurkjöri.

Einhvern veginn svona er einfölduð útgáfa af atburðarás sem hófst í júní 2019 þegar auglýst var staða ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðherra mennta- og menningarmála var þá og er enn Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Bauð sig fram til formanns

Maðurinn sem var skipaður í starf ráðuneytisstjóra er Páll Magnússon sem hefur um langa hríð gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Hann starfaði til að mynda í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um sjö ára skeið sem aðstoðarmaður ráðherra Framsóknarflokks. Hann var varabæjarfulltrúi í Kópavogi í átta ár og varaþingmaður Framsóknarflokks í önnur átta ár. Þá bauð Páll sig fram til formanns Framsóknarflokksins 2009 en hafði ekki erindi sem erfiði og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn. Síðustu ár hefur Páll starfað sem bæjarritari Kópavogs.

Þegar tilkynnt var um skipanina heyrðust strax háværar gagnrýnisraddir þar sem Lilja var sökuð um að hafa skipað Pál í stöðuna vegna flokkshollustu hans.

Aldarfjórðungs reynsla

Konan sem kærði skipan Páls er Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Aðalmeðferð í máli íslenska ríkisins gegn Hafdísi Helgu í Héraðsdómi Reykjavíkur fór fram 27. janúar síðastliðinn. Þar kom fram að sérstök hæfisnefnd hafði skrifað um hæfni Hafdísar Helgu: „Hún starfaði við opinbera stjórnsýslu.“ Þetta hefur þótt ansi snautleg lýsing á því að Hafdís Helga hefur starfað í opinberri stjórnsýslu í 25 ár. Þar af hefur hún verið skrifstofustjóri í tveimur ráðuneytum, forstöðumaður nefndasviðs Alþingis og aðallögfræðingur bæði Alþingis og Samkeppniseftirlitsins.

Um Pál skrifaði hæfisnefndin hins vegar: „Hann hefur langa reynslu við ábyrgðarmikil stjórnsýsluverkefni.“ Páll er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu en stór hluti ferils hans er annars rekinn hér að framan.

Þá benti lögmaður Hafdísar, Áslaug Árnadóttir, á að Páll hefði enga reynslu af þremur fyrirferðarmestu málaflokkum í starfi hvers ráðuneytis; lögum um opinber fjármál og fjárveitingar, samningu lagafrumvarpa og innleiðingu EES-reglugerða.

Formaðurinn í átta nefndum fyrir Framsókn

Þrettán sóttu um embættið og mat hæfisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna því. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal, þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda. Hafdís Helga var ekki meðal þeirra fjögurra. Auk Páls voru tvær konur og einn karl í hópnum.

Í júní 2020 greindi RÚV frá því að formaður hæfisnefndarinnar, Einar Hugi Bjarnason, sat alls sem formaður í fjórum nefndum sem Lilja hafði skipað hann í og hafði verið fulltrúi Framsóknarflokksins í minnst fjórum nefndum til viðbótar. Sérstaka athygli vakti að Lilja skipaði Einar Huga sem formann fjölmiðlanefndar á svipuðum tíma og tilkynnt var um ráðningu Páls.

Síðsumars 2019, þegar skipunartími síðustu fjölmiðlanefndar var að renna út, lögðu sérfræðingar í ráðuneytinu fram minnisblað til Lilju um að Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og einn helsti sérfræðingur landsins í fjölmiðlarétti, yrði skipuð formaður. RÚV sagði frá því að Halldóru hefði í ágústmánuði verið tilkynnt um fyrirhugaða skipan hennar sem formanns.

Hún fékk þó aldrei skipunarbréf heldur símtal um að Lilja vildi frekar skipa Einar Huga sem formann fjölmiðlanefndar. Þessi ákvörðun Lilju vakti athygli, bæði vegna þess að hann hefur litla sem enga reynslu af fjölmiðlarétti sem þó er gerð krafa um í fjölmiðlalögum, auk þess sem þegar höfðu verið skipaðir tveir karlar og ein kona í nefndina og hefði skipan Halldóru því rétt kynjahallann við.

Með nýjum jafnréttislögum árið 2008 var kynjakvóti í fyrsta sinn leiddur í lög en þar segir: „Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.“ Engin viðurlög eru hins vegar við brotum á þessu ákvæði og er starfandi fjölmiðlanefnd sannarlega ekki sú eina sem uppfyllir ekki skilyrðin.

Óskaði þrisvar eftir gögnum

En aftur að broti Lilju á jafnréttislögum við skipan Páls sem ráðuneytisstjóra. Eftir að tilkynnt var um skipanina óskaði Hafdís Helga eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar og öllum gögnum málsins. Ráðuneytið hafnaði beiðni hennar um málsgögn tvisvar en lét þau af hendi við þriðju beiðni. Eftir að hún fékk gögnin í hendur ákvað Hafdís Helga að kæra ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og úrskurður þar var birtur í maí 2020.

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ýmissa annmarka hefði gætt af hálfu Lilju við mat á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Samandregið hefði Lilja vanmetið Hafdísi Helgu samanborið við Pál varðandi menntun hennar, reynslu hennar af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika hennar og hæfni hennar til að tjá sig í riti, en allt hefðu þetta verið fortakslaus skilyrði sem birtust í starfsauglýsingu kærða.

Að þessu virtu og með hliðsjón af nánari umfjöllun kærunefndarinnar um einstaka matsþætti starfsauglýsingarinnar taldist Hafdís Helga hafa leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna.

Samkvæmt því kom það í hlut Lilju að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hennar. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu Lilju og teldist hún því hafa brotið gegn jafnréttislögum.

Einstakt í sögulegu samhengi

Um mánuði eftir að úrskurður kærunefndar er birtur berast fregnir af því að Lilja ætli að höfða mál gegn Hafdísi Helgu til að ógilda úrskurðinn. Þetta er í fyrsta, og raunar líka síðasta, sinn sem ráðherra fer persónulega í mál við opinberan starfsmann.

Eina leiðin til að fá úrskurðum kærunefndar jafnréttismála hnekkt er með því að höfða dómsmál en það hefur aldrei áður verið gert þrátt fyrir að aðrir ráðherrar hafi áður gerst brotlegir við jafnréttislög samkvæmt úrskurði kærunefndarinnar. Þetta er þó líka í síðasta skipti sem það er gert vegna nýrra laga sem kveða á um að ekki verði lengur hægt að stefna einstaklingi vegna úrskurðar kærunefndarinnar heldur þarf að fara í mál gegn kærunefndinni til að reyna að fá úrskurði hennar hnekkt.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins er meðal þeirra sem hafa fordæmt ákvörðun Lilju um málssókn og sagði í ályktun sem félagið sendi frá sér: „Fyrrgreind málshöfðun getur haft það í för með sér að umsækjendur veigri sér við að sækja lögvarinn rétt sinn. Auk þess að setja félagsmanninn í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra er hætt við að stefnan muni fæla hæfa umsækjendur frá því að sækja um störf hjá ríkinu.“

Guðfræðin þýðingarmikil

Lilja hefur gefið út að hún hafi ekki viljað víkja frá mati hæfisnefndarinnar við ákvörðun um skipan ráðuneytisstjóra. Í dómi héraðsdóms segir enn fremur í kafla um málsástæður og lagarök stefnanda, það er Lilju eða íslenska ríkisins: „Eðli málsins samkvæmt hafi ráðherra farið að ráðleggingum nefndarinnar og gott betur, enda hafi hún til viðbótar lagt sjálfstætt og rökstutt mat á þá fjóra einstaklinga sem metnir voru hæfastir af nefndinni.“

Þá er því einnig haldið fram að kærunefndin geri lítið úr guðfræðimenntun Páls, en hann er með BA-gráðu í guðfræði. „…en hér verði að hafa í huga að um er að ræða ráðuneyti bæði mennta- og menningarmála. Ráðuneytið fari því m.a. með mál er varða verndun menningararfs þjóðarinnar, varðveislu menningarminja, safnamál, listir og menningu. Undirstöðuþekking í guðfræði ætti því að koma sér vel í því sambandi enda standi þjóðin óumdeilanlega á menningarlegum og sögulegum grunni kristinnar trúar og hafa verði hugfast að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja hér á landi

…Þá læri guðfræðinemar við Háskóla Íslands ýmislegt sem nýtist í stjórnunarstarfi og megi í því sambandi nefna sálgæslu, en lokaritgerð Páls hafi verið á því sviði. Í grunninn snúist sálgæslufræðin um áhrif áfalla á einstaklinga, hvernig þeir bregðist við í áföllum og hvernig best sé að styðja þá, án tillits til trúarafstöðu eða lífsskoðunar. Guðfræði sé því þýðingarmikið grunnnám sem nýtist í starfi ráðuneytisstjóra og sé ekkert sem bendi til þess að grunnnám í lögfræði sé betra í því starfi…“ en grunnnám Hafdísar Helgu var í lögfræði.

Í auglýsingu um starfið var þó aðeins fjallað sérstaklega um kröfur þegar kemur að embættis- eða meistaranámi.

Ríkið greiðir kostnaðinn

Í dómsorði héraðsdóms sem féll föstudaginn 5. mars segir: „Hafnað er kröfu stefnanda, íslenska ríkisins, um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020 frá 27. maí 2020 verði felldur úr gildi. Málskostnaður stefndu, Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Áslaugar Árnadóttur, 4.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.“

Dómnum hefur Lilja ákveðið að áfrýja til Landsréttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Helga Vala segir stórri spurningu ósvarað hvað varðar styrkjamál Flokks fólksins – „Er það ekki ögn sérstakt?“

Helga Vala segir stórri spurningu ósvarað hvað varðar styrkjamál Flokks fólksins – „Er það ekki ögn sérstakt?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“