Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að fyrir hækkun hafi laun Bjarna verið 2.502.343 krónur en séu nú 2.872.669 krónur. Hækkunin er sögð komin til eftir mat á frammistöðu Bjarna í starfi. Hún nemur 14,8%.
Að auki fær Bjarni eingreiðslu upp á þrjár milljónir „vegna þess að launakjör hans hafa ekki verið uppfærð í tvö ár,“ segir í samþykkt stjórnarinnar.
Hækkunin, að eingreiðslunni undanskilinni, er næstum í takt við hækkun launavísitölunnar síðustu tvö árin.
OR fékk endurskoðunarfyrirtækið PWC til að gera könnun á launum forstjóra og aðalframkvæmdastjóra í stóriðju og veitustarfsemi annars vegar og hjá fyrirtækjum með yfir 40 milljarða króna veltu hins vegar. Þessi könnun náði til 24 fyrirtækja. Niðurstaða hennar er að heildarmánaðarlaun þessa hóps voru að meðaltali 4.159.000 krónur á mánuði í fyrra.