fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Jón Steinar segir að sér séu gerðar upp skoðanir – „Ég hef mikla skömm á kynferðisbrotum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. mars 2021 19:49

Jón Steinar Gunnlaugsson. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að gera samning við Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann og fyrrverandi hæstaréttardómara, um ráðgjöf varðandi endurbætur á réttarkerfinu, hefur vakið mjög harða gagnrýni.

Í ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Stígamóta um þetta segir:

„Í gær buðu 13 kvenna- og jafnréttissamtök til fundar þar sem vakin var athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu og lagðar fram tillögur til úrbóta. Eitt af því sem samtökin vöktu sérstaka athygli á var að málsmeðferðartími í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum í réttarkerfinu sé allt of langur, sem hefur slæm áhrif bæði á gæði rannsóknanna og líðan brotaþola í ferlinu.

Ljóst er að grípa þarf til viðamikilla aðgerða og umbóta til að tryggja réttindi þolenda kynferðisbrota og ofbeldis í nánum samböndum í réttarkerfinu. Það hefði því átt að vera sérstakt fagnaðarefni að strax daginn eftir að femíníska hreyfingin vekur athygli á óréttlæti réttarkerfisins berast fregnir af því að dómsmálaráðherra sé að vinna í því að stytta málsmeðferðartímann. Við teljum þó að dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sendi konum kaldar kveðjur með því að hafa falið Jóni Steinari Gunnlaugssyni það verkefni að vinna að nauðsynlegum umbótum í réttarkerfinu.

Jón Steinar hefur haldið því fram í greinarskrifum að íslenskir dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum, að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir og að málsmeðferð dómstóla geri fólki kleift að „ná sér niðri á öðrum með því að bera fram rangar sakargiftir á hendur þeim“. Jón Steinar hefur einnig fullyrt að þolendum kynferðisbrota „myndi líða miklu betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu“.

Traust þolenda kynbundins ofbeldis til réttarkerfisins er nú þegar laskað vegna þess hvernig mál þeirra hafa verið meðhöndluð. Að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni það starf að vinna að nauðsynlegum umbótum er alls ekki til þess fallið að auka traust þeirra á kerfinu.

Við þurfum betra réttarkerfi, en við skipulagningu umbóta er nauðsynlegt að greina núverandi brotalamir út frá sem flestum sjónarhornum. Kvenréttindafélag Íslands og Stígamót leggja áherslu á að mikilvægt sé að þessi vinna sé unnin af fólki sem hefur hagsmuni þolenda ofbeldis að leiðarljósi.

Bætum réttarkerfið svo að réttlætið ráði för.“

Fjölmargir hafa gagnrýnt þessa ráðningu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þessi ákvörðun sé köld tuska framan í almenning, en hún kemst svo að orði í Facebook-færslu um málið:

„Það er aldeilis köld tuska sem dómsmálaráðherra hendir framan í almenning að fá Jón Steinar Gunnlaugsson, sem hefur í störfum sínum sem hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, tekið afstöðu í langflestum tilvika með gerendum í kynferðisafbrotamálum en ekki þolendum.
Tuskan er sérstaklega köld daginn eftir að 9 íslenskar konur leggja fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar íslenska réttarkerfisins þar sem þær kærðu nauðganir og önnur kynferðisafbrot en málin felld niður.
Að fá Jón Steinar Gunnlaugsson til að skoða úrbætur í málsmeðferð réttarkerfisins er satt að segja alls ekki til þess fallinn að vekja trú á að það komi raunverulegar úrbætur á málsmeðferðartíma réttarkerfisins í kynferðisafbrotum.
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík getur ekki og má ekki hafa áhrif á svo mikilvægan þátt réttarkerfisins.“

Skilaði sératkvæði og vildi milda dóm yfir barnaníðingi

Í fréttaskýringu í DV árið 2009 segir Ingi F. Vilhjálmssson að kynferðisbrotamenn njóti vafans hjá Jóni Steinari. Ingi rifjar upp að Jón Steinar skilaði sératkvæði sem hæstaréttardómari í máli erlends manns sem fundinn var sekur um nauðgun á kvennaklósetti Hótel Sögu árið 2007. Ólíkt meðdómurum hefði Jón talið að sekt mannsins hefði ekki verið sönnuð í málinu og orð hans stæðu gegn orði stúlkunnar.

Þá rifjar Ingi upp að í broti manns sem var sakfelldur árið 2009 fyrir að brjótast inn í hús í Reykjavík og sleikja kynfæri 5 ára stúlku sem lá sofandi við hlið ömmu sinnar, þá vildi Jón milda refsingu mannsins þar sem ekki væri fullsannað að hann hefði sleikt kynfæri stúlkunnar þar sem ekki fannst munnvatn á kynfærum hennar við rannsókn á Barnaspítalanum.

„Það er ýmislegt haft eftir manni sem maður hefur aldrei sagt“

„Það er ýmislegt haft eftir manni sem maður hefur aldrei sagt,“ segir Jón Steinar í samtali við blaðamann DV og neitar því sem hermt er upp á hann að hann telji að slakað hafi verið á í sönnunarfærslum í kynferðisbrotamálum. Hann bendir á að verkefnið sem hann hafi verið ráðinn til hafi ekkert meira með kynferðisbrot að gera en önnur sakamál:

„Þetta kemur kynferðisbrotum ekki meira við en en öðrum brotum. Það er rétt að taka það fram að ég hef mikla skömm á kynferðisbrotum og hef alltaf haft. Mín orðræða hefur snúist um að það þarf að sanna sök í öllum afbrotamálum og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða þessa tegund brota eða aðra tegund. Það þarf auðvitað að sanna sökina. Eða vilja þau sem tala svona núna að mönnum sé refsað fyrir kynferðisbrot án þess að þau hafi sannast? Svari þau því. Vilja þau það? Ef þau vilja að mönnum sé refsað fyrir þessi brot án þess að þau hafi sannast á þá, þá er ég á öndverðum meiði. Vegna þess að það það gildir sú regla, hún er meira að segja í stjórnarskránni og hún er í mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að, að mönnum skuli ekki refsað ef skynsamlegur vafi er á sök þeirra. Þessi regla gildir um kynferðisbrot eins og öll önnur brot. Það er alveg sama þó að maður hafi mikla skömm á brotunum eins og ég hef, þá skrifa ég ekki upp á það að það megi refsa fyrir þau brot ef þau eru ósönnuð. Fólk verður bara að svara því fyrir sig.“

Aðspurður hvort það sé óskynsamlegt af ráðherra að ráða jafnumdeildan mann og hann í svona verkefni segir Jón: „Ég held að ég sé fyrst og fremst umdeildur vegna skoðana sem mér hafa verið gerðar upp. Það er eins og fólk sé í einhverjum erindagerðum og skrökvar á mig einhverjum skoðunum sem ég hef ekki, og þar með verður maður umdeildur. Þetta er eins og einhver farsi.“

Málsmeðferðartími of langur

„Ég geri ráð fyrir því að dómsmálaráðherrra hafi leitað til mín vegna þess að ég hef starfað áratugum saman í réttarkerfinu sem verjandi og dómari. Hún telur greinilega að ég geti aflað gagna um hvað þarf til að stytta meðferðartíma í afbrotamálum,“ segir Jón og bendir á að langur málsmeðferðartími sé mikið böl í réttarkerfinu:

„Það er til dæmis algengt að dregið sé úr refsingum vegna þess að málsmeðferðartíminn hafi verið of langur. Það er mannréttindamál fyrir sakborna menn að meðferðartíminn sé ekki lengri en nauðsynlegt er. Þeir sem taka út refsingar eiga kröfu á því að mál þeirra séu rekin á skaplegum hraða,“ segir Jón og bendir á að sakborningar í bankahrunsmálum séu ennþá fyrir dómi 13 árum eftir að hin meintu brot áttu að vera framin.

„Þetta er auðvitað ekki boðlegt og það er ánægjulegt að dómsmálaráðherra hugi að úrbótum í þessum málum,“ segir Jón.

Áslaug hafnar gagnrýninni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur tjáð sig um þessa ákvörðun sína og gagnrýni á hana í pistli á Facebook. Hún segir að allt tal um að hún sé að senda konum kalda kveðju með þessu verkefni sé innantómt og bendir hún á þær umbætur sem hún hafi unnið að í kynferðisbrotamálum og málum er varða ofbeldi gegn konum:

„Á þessu þingi hef ég fengið samþykkt frumvörp um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, komið að mikilvægum umbótaverkefnum eins og opnun Kvennaathvarfs á Norðurlandi og styrkingu Kvennaathvarfsins hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta þingmannamálið mitt sem var samþykkt fól í sér breytingar á lögum um nálgunarbann sem styrkja vernd úrræðisins. Þá fól ég réttarfarsnefnd að semja lagafrumvarp í því skyni að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð kynferðismála. Það frumvarp kemur í samráðsgátt á næstu dögum.“

Áslaug bendir á fleiri umbætur í kynferðisbrotamálum sem verið sé að hrinda í framkvæmd og víkur síðan að þeirri ákvörðun að ráða Jón Steinar í þetta ráðgjafarverkefni:

„Ég bað Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann og fv. hæstaréttardómara, um að vinna að úttekt á öðrum þáttum er snúa að réttarkerfinu, m.a. hvort við getum lært af löngum málsmeðferðartíma í efnahagsbrotum og hvar séu möguleikar til að stytta hann til hagsbóta fyrir alla aðila, bæði rannsóknaraðila og sakborninga. Við skulum aldrei gleyma því að sakborningar eiga líka sinn rétt. Þannig viljum við hafa það í réttarríki. Við hljótum að geta lært af úrvinnslu slíkra mála síðasta áratuginn og nýtt þann lærdóm til að bæta kerfin okkar. Það er rétt að taka fram að ekki er unnið að heildarendurskoðun né gerð frumvarps og þessi vinna felur ekki í sér sérstaka úttekt á rannsóknum kynferðisafbrota eins og haldið hefur verið fram.“

https://www.facebook.com/aslaugarna/posts/1759393810898100

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Stefnir í „taktískar“ kosningar eins og í forsetakosningunum í sumar?

Orðið á götunni: Stefnir í „taktískar“ kosningar eins og í forsetakosningunum í sumar?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kosningaþáttur Eyjunnar: Milljarðar í snobbpartí og lúxus fyrir ráðuneyti og Seðlabankann en fólk hefur ekki þak yfir höfuðið

Kosningaþáttur Eyjunnar: Milljarðar í snobbpartí og lúxus fyrir ráðuneyti og Seðlabankann en fólk hefur ekki þak yfir höfuðið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jóhannes Loftsson skrifar: Segjum frá!

Jóhannes Loftsson skrifar: Segjum frá!