Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Katrínu að Ísland sé ekki á leið út úr bóluefnasamstarfi ESB en um leið sé rétt að hafa í huga að ríkin megi afla sér annarra bóluefna en samið hefur verið um. „Það er ekkert sem hindrar okkur í að ræða við aðra framleiðendur,“ sagði hún.
„Ég ítreka það að ég tel það hafa verið skynsamlegt að ráðast í [öflun bóluefnis] í samstarfi við aðrar evrópskar þjóðir. Það er hins vegar morgunljóst að það eru komnar upp væringar innan Evrópusambandsins vegna gagnrýni um að þetta hafi ekki gengið nægilega vel og hratt fyrir sig, ekki verið skilvirkt ferli. Þetta mál er ESB mikill trúverðugleikavandi, en við munum halda áfram okkar striki,“ er haft eftir henni.
Hún sagði einnig að ríkin geti keypt bóluefni frá öðrum framleiðendum en ESB hefur samið við og það séu ESB-ríki nú þegar að gera. „Við höldum áfram í samstarfinu eins og raunar flest önnur ríki eru að gera, en það er ekkert sem hindrar okkur í að ræða við aðra framleiðendur,“ sagði hún einnig.
Hún vildi ekki svara hvort slíkar viðræður hafi átt sér stað eða eigi sér stað núna.