fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Gunnar Bragi ræðir það sem hann segir að ekki megi ræða

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 1. mars 2021 08:50

Gunnar Bragi Sveinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, skrifar pistil í Morgunblaðið í dag þar sem hann ræðir það sem ekki má ræða en verður að ræða eftir því sem hann segir. Pistillinn ber yfirskriftina „Það sem ekki má ræða en verður að ræða“.

Í upphafi pistilsins velti Gunnar þeirri spurningu upp hvort ræða megi hvað sem er og svarar henni sjálfur með: „Nei, það má ekki.“ Hann segir að svarið sé óþægilegt því við teljum okkur búa í landi þar sem lýðræði ríki, mál- og skoðanafrelsi. „En ef þú hefur ekki sömu skoðun eða talar með sama hætti og umræðustjórarnir þá er vegið að þér með ásökunum um annarlegar skoðanir. Umræðustjórarnir velja hvað er rætt og stýra umræðunni, því er hætta á að almenningur heyri bara það sem umræðustjóranum finnst „rétt“ en ekki öll sjónarmið og geti þannig lagt sjálfstætt mat á efnið,“ segir hann.

Hann víkur síðan að skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í maí 2019 sem ber heitið „Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi, áhættumatsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra“ og vitnar í hana: „Rannsóknir lögreglu leiða í ljós skipulagða misnotkun tiltekinna erlendra afbrotamanna og -hópa á opinberum þjónustukerfum á Íslandi. Líklegt er að í einhverjum tilvikum njóti hópar þessir aðstoðar íslenskra ríkisborgara og/eða erlendra manna sem búsettir eru á Íslandi. Þær upplýsingar sem lögregla miðlar til greiningardeildar ríkislögreglustjóra sýna án nokkurs vafa að brotalamir er að finna í opinberum kerfum, jafnt innan stofnana sem og í samstarfi þeirra. Lögregla þekkir dæmi þess að einstaklingar tengdir hópum þessum hafi komið til landsins undir því yfirskini að leita alþjóðlegrar verndar.“ Hann vitnar síðan áfram í þessa sömu skýrslu: „Rannsóknir lögreglu leiða í ljós að einstaklingum sem tengjast þessum þremur hópum [glæpahópum] hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grundvelli kynhneigðar. Nokkrir þessara karlmanna frá íslömsku ríki hafa verið kærðir fyrir kynferðislega áreitni gagnvart konum hér á landi.“

Gunnar vitnar síðan í aðra skýrslu ríkislögreglustjóra frá 2017 þar sem hann segir að fram komi að aðstæður hafi breyst til hins verra frá 2015, meðal annars vegna mikil fjölda flóttamanna sem hefur verið tekið á móti í Evrópu og að nú telji Evrópulögreglan (Europol, innsk. blaðamanns) að um 65% skipulagðra glæpahópa sem leggja stund á fíkniefnaviðskipti séu einnig virkir á öðrum sviðum afbrota, þar á meðal mansali og smygli á flóttafólki.

Því næst segir hann að margir hafi varað við því á undanförnum árum að glæpamenn nýti sér neyð fólks og velferðarkerfi Vesturlanda til að hagnast. „Við höfum líka varað við þeirri þróun sem verið hefur í nágrannalöndum okkar og að sú þróun muni verða á Íslandi. Á þetta hefur ekki verið hlustað og við sökuð um illan vilja í garð hælisleitenda og flóttafólks. Engu skiptir þótt bent hafi verið á hvernig við getum best hjálpað þeim sem sannarlega þurfa hjálp. Þetta hefur ekki mátt ræða en það verður að gera og læra af mistökum annarra. Lengi hefur lögreglan bent á hættuna af skipulagðri glæpastarfsemi. Nú ætlar ráðherra að gera „eitthvað“, enda stutt í kosningar,“ segir hann að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur