Eftirfarandi er viðtal sem birtist í helgarblaði DV þann 19. febrúar
Andrés hefur þægilega nærveru og líklega gæti hann átt gjöfulan feril við lestur hljóðbóka ef hann fær nóg af þingmennskunni, því hann er með réttu röddina í það starf. Hann er óspar á brosin sem ná alla leið til augnanna og húmorinn gustar af honum.
„Ég er alinn upp í sveit. Í Ölfusi á ferðaþjónustubæ og fékk því að upplifa frekar óhefðbundin sumur allt frá því að ég var lítill pjakkur. Ég gekk þar í nauðsynleg verk, græjaði morgunmat og þreif herbergi og gegndi svo hefðbundnari sveitastörfum inn á milli. Ég bjó fyrir austan allt þar til ég kláraði Fjölbrautaskóla Suðurlands og flyt í bæinn í háskólanám.“
Andrés er giftur Rúnu Vigdísi Guðmarsdóttur og saman eiga þau tvö börn. Hin klassíska íslenska kjarnafjölskylda. Sem ungur maður safnaði hann frímerkjum en í dag safnar hann Pókémon fyrirbærum í símaleiknum Pókémon Go. En aðaláhugamálin eru fjölskyldan og þingstörf.
Föndra fyrirspurnir
„Eitt af því sem við höfum reynt að passa vel, ég og Rúna, er að þegar ég kemst heim úr vinnunni fyrir kvöldmat, þá er vinnan skilin eftir utan heimilisins svo við getum átt fjölskyldutíma yfir matnum og fram að háttatíma. Ég held að það skipti miklu máli fyrir fólk svo það nái bara að halda fókus í starfinu að það geti líka haldið fókus á fjölskyldu og vini, því annars brennur það bara upp.
Á föstudagskvöldi fáum við okkur eitthvað gott að borða, horfum á mynd og höfum það kósí.“
Hið klassíska íslenska föstudagskvöld hjá hinni klassísku íslensku fjölskyldu.
Andrés tekur þó fram að þingmennskan gagntaki mann svolítið og því sé þetta starf sem andlega fylgi manni frá vöku til svefns.
„Þegar við liggjum uppi í sófa og erum að horfa á sjónvarpið, Rúna að prjóna, þá er ég oft að föndra fyrirspurnir í tölvunni. Þetta starf gleypir mann pínu.“
Hugsjónir og byltingin
Í háskóla nam Andrés Ingi heimspeki og hélt svo út í nám þar sem hann reyndi fyrir sér í framhaldsnámi í heimspeki í Þýskalandi og síðar tók hann meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Sussex.
Þegar efnahagshrunið varð árið 2008 starfaði Andrés sem blaðamaður á fjölmiðlinum 24 stundum. „24 stundir voru með því fyrsta sem var látið gossa þegar hrunið varð. Þá vorum við mörg orðin atvinnulaus og ég fór á Austurvöll, tók þátt í mótmælunum og fylgdist með því hvernig samfélagið var að þróast, líkt og aðrir í Búsáhaldabyltingunni. Þetta var erfiður tími og ég hugsa að við höfum flest upplifað valdleysi. Þá var þægilegt að geta einbeitt sér að einhverju uppbyggilegu, einhverju sem gæti hjálpað samfélaginu.
Þarna er ég kominn með ákveðna hugsjón. Ég vildi hjálpa til við að endurbyggja þetta kerfi sem þarna var orðið ljóst að væri brotið. Þá varð úr að ég gekk í stjórnmálaflokk til að koma þessum hugsjónum í framkvæmd. Á þessum tíma fannst mér Vinstri græn vera ákjósanlegur farvegur. Þarna var mikil nýliðun og mikil umbótastemning í hópnum. Það var því eðlilegt fyrir mig sem og mörg önnur úr Búsáhaldabyltingunni að leita í Vinstri græn.“
Sofnaði úti en vaknaði inni
Andrés lét strax til sín taka í VG. Árið 2009 tók hann þátt í sínu fyrsta prófkjöri og hlaut 13. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og sama ár varð hann fyrsti karlmaðurinn til að taka sæti í stjórn Kvenréttindafélags Íslands, en þar sat hann sem fulltrúi VG.
Árið 2010 leysti Andrés af sem upplýsingafulltrúi í bæði heilbrigðis- og umhverfisráðuneytinu áður en hann tók við sem aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra. Árið 2011 varð hann svo aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur sem þá var umhverfisráðherra og gegndi hann því starfi til ársins 2013.
„Svo bara gerðist það að ég er kominn á þing. Ég datt fyrst inn sem varamaður árið 2015 og þá bara í viku. Mér fannst það eiginlega eins skemmtilegt og ég hefði getað ímyndað mér. Ég var vel undirbúinn, sérstaklega í gegnum reynslu mína í ráðuneytinu og fannst ég vel búinn undir þetta verkefni. Ég hafði fylgst nógu mikið með útsendingum í þingsal til að vita hvernig maður ætti að nálgast þetta svið sem þar er.
Ég hugsa að ég hafi komið sæmilega út úr þessari viku. Það var til þess að ég hækkaði á lista fyrir kosningarnar 2016 og þar kom ég inn sem uppbótarmaður. Mig minnir að það hafi ekki verið nema 27 atkvæði sem skildu að.
Það varð svolítið þema hjá mér. Ég er alltaf úti þegar ég fer að sofa, en vakna svo inni. Konan mín skilur ekki hvernig ég hef taugar í þetta, en ég er bara það kvöldsvæfur að ég nenni ekki að standa í þessu. Maður breytir ekki tölunni þegar það er búið að loka öllum kössunum. Það að vera að eltast við einhverja uppbótarmanna-hringekju alveg fram á rauða nótt er ekki fyrir mig. Þá er bara betra að vakna og fá þá endanlegar tölur.“
Studdi aldrei samstarfið
Þetta kjörtímabil varð þó örlagaríkt hjá Andrési og segir hann að eftir á að hyggja hafi það líklega verið ljóst frá upphafi, þegar Vinstri græn mynduðu meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Framsókn, að leiðir myndu skilja.
„Þegar maður horfir aftur til baka frá deginum í dag þá er þetta mjög rökrétt framvinda. Allt sem gerðist lítur út fyrir að hafa ekki getað orðið öðruvísi. Það er náttúrulega þessi stóri vandi þegar meirihluti flokksforystunnar ákveður að fara í stjórnarsamstarf sem hluti af okkur, ekki bara við Rósa, heldur líka fólkið í grasrótinni og flokksráði kjósa gegn.
Þarna upplifum við að flokkurinn sé að fara í átt sem rímar ekki við það sem hann á að standa fyrir.“
Hvorki Andrés né Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem sagði sig úr Vinstri grænum í september á síðasta ári, studdu stjórnarsáttmálann.
„Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega er bara á það öndverðum meiði við Vinstri græn að það er eiginlega ómögulegt að sjá hvernig flokkarnir eiga að geta náð saman. Nefni ég þá loftslagsmál og útlendingamál sem gott dæmi,“ segir Andrés en hann segir báða málaflokkana hafa staðnað á kjörtímabilinu.
„Síðan eru það hin málin sem eru ekki negld niður í stjórnarsáttmála heldur þurfa að byggja á trausti á samstarfið, því að flokkarnir geti náð saman ásættanlegri niðurstöðu. Það held ég að hafi oft verið erfiðustu málin og leitt til þessarar kyrrstöðu í til dæmis loftslagsmálum. Við erum með metnaðarfyllri áætlun í loftslagsmálum en nokkru sinni áður en hún hefur ekkert þróast á kjörtímanum.“
Sagði skilið við VG
Það var svo í nóvember 2019 sem Andrés Ingi ákvað að segja skilið við þingflokk VG og starfa frekar sem þingmaður utan flokka. Á þeim tíma skýrði Andrés ákvörðun sína sem svo að hann hafi frá upphafi haft efasemdir um samstarfið við Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Síðar hafi áhyggjur hans raungerst í því að stjórnarsamstarfið hafi leitt til þess að VG fjarlægðist þær áherslur sem flokkurinn ætti að standa fyrir.
Í dag segir Andrés enga eina sérstaka ástæðu hafa leitt til þess að hann kvaddi félaga sína í VG.
„Það var ekki einn atburður. Það er ekki hægt að grípa eitthvað ákveðið og benda á það sem ástæðuna. Það var bara þessi tilfinning að okkur hafi rekið í sundur og það byrjaði eiginlega strax og er ákveðið að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Í þeim viðræðum lagði ég áherslu á að það mætti ekki hefja slíkt samstarf fyrr en það væru komin skýr flögg sem hægt væri að halda á lofti og segja: „Sjáið! Hér eru ákveðin atriði sem við náum í gegn í þessu samstarfi sem annars hefðu ekki náðst.“ Þau flögg voru aldrei lögð fram í því ferli og allt í einu þótti það í lagi því það væri eitthvað í þessu samtali sem væri gott í sjálfu sér – en ég tengdi aldrei við það.
Frá þeim punkti fannst mér ég alltaf standa á sama staðnum og fyrir sömu hugsjónirnar og áður, en ég upplifði að félagarnir væru farnir að gera auknar tilslakanir í þágu samstarfsins frekar en að stefna VG og gildin væru efst á baugi.“
Kusu gegn vantrausti
Andrés segir eitt skýrasta dæmið um þetta hafi verið þegar þingið kaus um vantrauststillögu sem var lögð fram gegn Sigríði Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, í kjölfar hins alræmda Landsréttarmáls.
„Þar hafði flokkurinn verið í mjög harðri baráttu í því máli þegar við vorum í stjórnarandstöðunni. En síðan í meirihlutanum þá kemur fólk úr Vinstri grænum og gerir grein fyrir atkvæðum sínum og segir: Jú það sem hún gerði var rangt, en vegna þess að ég er í þessari ríkisstjórn þá greiði ég atkvæði gegn vantrausti.“
Þarna upplifði ég að það væri rof á milli hugmyndafræðinnar og praktíkinnar. Praktíkin var farin að trompa hugmyndafræðina óþarflega mikið. Svo voru samskiptin í þingflokknum bara misgóð. Við vorum að takast á um ýmis konar mál og ég upplifði á köflum að það væri kannski ekkert hlustað þegar ég kom með sjónarmið í málum sem jafnvel síðar reyndust vera rétt.
Þarna finnst mér að vegna þess að hlutirnir koma frá mér, þá fái þeir minna vægi. Og að vera í þannig stöðu að þurfa alltaf að vera brynjaður fyrir átök – innan þingflokksins – það er ekki skemmtilegt fyrir neinn.
Þegar þingflokkurinn er hættur að taka mark á mér í þeim málum sem ég hélt að ég væri að koma með að borðinu og gæti komið til framkvæmda í gegn um þennan flokk – þá er líklega betra að velja sér annan farveg til að vinna að þeim málum.“
Þingmaður utan flokka
Að vera þingmaður utan flokka hljómar kannski ágætlega í eyrum sumra. Að vera frjáls og engum háður. Andrés segir bæði kosti og galla fylgja þeirri stöðu.
„Það er dálítið skrítið en alveg skemmtilegt líka. Það gerir meiri kröfu til manns sem starfskrafts að hafa ekki þingflokk til að leita í til að fá ólík sjónarmið. Og það er einnig erfiðara að frétta hvað er í gangi í þingnefndum, sem ég sit ekki í.
Vegna þessa hef ég þurft að hafa meira fyrir hlutunum. Ég hef þurft að leita mikið meira eftir upplýsingum, bæði varðandi það sem er að gerast á þingi og líka til að tengja við fólk úti í samfélaginu varðandi mál sem eru til umfjöllunar.
En þetta er á sama tíma mjög gagnlegt. Ég ræktaði fyrir vikið tengsl við sérfræðinga í ýmsu sem ég hefði kannski annars trassað að gera ef ég væri alltaf bara að tala við þingflokkinn minn.
Þetta kallar líka á breiðari fókus. Ég þurfti að setja mig inn í eiginlega öll mál sem fara í gegnum þingsalinn, frekar en að gera eins og oft vill verða, að sérhæfa mig í ákveðnum málaflokki.“
Þingstörf eru þó ekki bara deilur milli ólíkra stjórnmálaskoðana heldur byggist mikið á samstarfi. Þingmenn þurfa að starfa saman þó þeir komi úr ólíkum flokkum, leggja fram mál saman og starfa saman í nefndum, svo dæmi séu tekin.
Upp á það að gera er þetta kannski ekki það svakalega mikil breyting. Ef vel á að vera þá eigum við alltaf að vera í einhvers konar samtali við alls konar þingfólk og ég neyddist til að gera það verandi utan þingflokka, sem er það sem við eigum að gera finnst mér, hvort eð er.“
Andrés Pírati
Nú er Andrés genginn til liðs við Pírata. Sem vakti undrun sumra, en öðrum þótti eðlileg tilfærsla.
„Ég fór í rauninni bara að spá í þetta núna í vetur upp á það að finna hvaða farvegur væri bestur fyrir þær hugsjónir sem ég vil standa fyrir og hvernig ég gæti best lagt mitt að mörkum.
Eftir á að hyggja er þessi lending rökrétt. Hugmyndafræðilega höfum ég og Píratar alltaf staðið mjög nálægt hvert öðru. Við höfum flutt saman mörg mál og unnið vel saman í nefndum. Þegar ég var í stjórnarandstöðunni með VG árin 2016-2017 var ég í allsherjar- og menntamálanefnd með Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, og við vorum þar yfirleitt eins og einn hugur.
Síðan eru Píratar hreyfing sem kann að vinna. Þau kalla eftir ólíkum sjónarmiðum og leggja mikla áherslu á að taka upplýstar ákvarðanir á grundvelli gagna. Það er alls ekki sjálfgefið.
Eins og við sjáum til dæmis varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem eru mjög tæknilegs eðlis – þá er bara slumpað einhvern veginn.
Eða eins og í vinnumarkaðsaðgerðum vegna COVIDfaraldursins, en þær voru oft byggðar á mjög takmörkuðum greiningum. Það vantar dálítið upp á að stjórnvöld séu að taka mið af bestu fáanlegum gögnum.
En síðan skiptir líka miklu máli að ég finn og hef alltaf fundið að ég og fólkið í Pírötum náum og vinnum mjög vel saman.“
Tekið opnum örmum
Píratar hafa tekið Andrési opnum örmum, en Andrés segir það ekki sjálfgefið.
„Ég er ekki búinn að vera þarna lengi en mér hefur verið mjög vel tekið, bæði af þingflokknum sjálfum og allri þeirri grasrót sem ég hef náð að tala við síðan. Mér finnst fólk einmitt sýna því skilning hvaðan ég er að koma og það er alls ekki sjálfsagt að einhverjum nýliða sé tekið opnum örmum.“
Hugur Andrésar er enn á þingi, en þar telur hann sig enn eiga erindi og mun því gefa kost á sér í komandi prófkjöri Pírata og vonast eftir góðum árangri.
„Ég geri mér vonir um að fólk treysti mér til að vera áfram á þingi og held að það væri líka gott fyrir hreyfinguna að fá mig. Ég kem með ákveðna hluti að borðinu sem þau hafa kannski ekki fengið jafn mikið færi og ég til að einbeita sér að fram að þessu, þrátt fyrir ríkan vilja. Ég hef setið á þingi í fimm ár og það er rosaleg reynsla sem fylgir því og ég finn bara eftir því sem á líður að það eru ákveðnir hlutir sem verða auðveldari með þessari reynslu og sé fyrir mér að ég gæti gert mjög margt á næsta kjörtímabili.“
Að hafa marga flokka sem hugmyndafræðilega standa hver öðrum nærri getur, að mati Andrésar, verið vandasamt á þingi.
„Það hefur verið svolítið vandasamt á þessu kjörtímabili að vera með flokka sem standa hver öðrum svona nærri, sitt hvorum megin við línuna – í stjórn og í stjórnarandstöðu. Ég held að það hafi ekki alltaf verið mjög gott. Þetta er svona hliðarafurð af þessu stjórnarsamstarfi sem er ekki til bóta.
Það að Samfylking, Píratar og Vinstri græn gangi ekki hönd í hönd í ákveðnum málum er bara næstum því ónáttúrulegt.“
Skemmtilegast og leiðinlegast
Það þekkja það flestir úr störfum sínum að sumar hliðar starfsins eru skemmtilegri en aðrar og að sama skapi sumar leiðinlegri en aðrar. Aðspurður um það leiðinlegasta við þingstörfin segir Andrés það vera tilviljanakennt skipulag á þingstörfunum.
„Við getum ekki sagt við fólk sem hefur áhuga á tilteknu þingmáli að stilla á Alþingisrásina eftir tvær vikur klukkan þrjú. Dagskráin er birt deginum áður og þá er málið kannski tilgreint á dagskrá en óvíst hvort hægt sé að komast í að ræða það.
Þessi ófyrirsjáanleiki hefur líka áhrif á okkur persónulega. Það er mjög erfitt að skipuleggja kvöld með fjölskyldunni ef við þurfum svo að vera í þingsal að vakta eitthvert mál.“
Á móti segir Andrés að margt sé skemmtilegt við þingstörfin.
„Mér finnst mjög gaman að þurfa að setja mig inn í ólík mál og hafa skoðanir á þeim – sem er grundvallaratriði.
Barnahjónabönd
Líka það að upplifa að við getum haft einhver góð áhrif. Við lendum kannski ekki oft í því sem stjórnarandstöðuþingmenn en í einstaka litlum málum þá fáum við það og það er mjög gefandi. Dæmi um þetta birtist nýlega. Fyrir þremur árum lagði ég fram fyrirspurn um barnahjónabönd á Íslandi, en það er glufa í hjúskaparlögum sem veitir undanþágu frá aldursskilyrði fyrir hjúskap og þessari undanþáguheimild hefur verið beitt svona minnst einu sinni á ári. Svo leið tíminn en ekkert gerðist. Ég lagði þá fram aðra fyrirspurn. Síðan lagði ég málið bara fram sjálfur.
Síðan í þessari viku sá ég á Samráðsgáttinni frumvarp um breytingu á hjúskaparlögum sem dómsmálaráðherra er að leggja fram. Þannig nú er þetta að gerast eftir að ég sparkaði í rassinn á þessu máli öll þessi ár. Það á að taka fyrir þessa glufu og banna alveg barnahjónabönd.“
Ekki lengur fyrir elítu
Það sem gæti komið lesendum mest á óvart við þingstörfin er, að mati Andrésar, það að starfið henti í raun hverjum sem er. Þingstörf séu ekki lengur fyrir afmarkaða elítu.
„Ég held að fólk mikli starfið stundum fyrir sér, fólk sem ekki hefur reynslu heldur stundum að þetta sé ekki fyrir hvern sem er. Þetta er jú krefjandi starf en fyrir fólk sem kann að setja sig inn í mál, mynda sér skoðanir og vinna undir smá álagi þá er þetta starf sem hentar hverjum sem er. Þetta er eitthvað sem mér hefur þótt breytast undanfarin ár, en þetta má alveg breytast meira.“
Lækkun kosningaaldurs
Á þingferli sínum er Andrés hvað stoltastur af baráttu sinni fyrir lækkun kosningaaldurs.
„Það hafa margir borið þessa baráttu uppi. Fyrst kom þetta fram árið 2007, löngu fyrir minn tíma, og þá hafði eitt land tekið þetta skref. En nú eru þau nær tuttugu.
Ég held að fólk sé bæði að vanmeta ungt fólk sem mögulega kjósendur og vanmeta getu 16-17 ára einstaklinga til að mynda sér skoðun og vera góðir kjósendur. Svo held ég að fólk sé líka að vanmeta jákvæðu áhrifin sem það myndi hafa á þingið.
Ég held að það myndi þrýsta á stjórnmálaflokkana til að taka raunverulegri afstöðu í málefnum ungs fólks heldur en er gert í dag. Og jafnvel að raða því þannig á lista að við lendum ekki aftur í því að að við erum ekki með neinn undir þrítugu á þingi eins og er núna.“
Andrés telur mikilvægt að hafa ungt fólk á þingi.
„Það væri kannski minna vandamál ef þinginu gengi betur að taka tillit til þessara sjónarmiða án þess að vera með ungt fólk á staðnum. En eins og Stúdentaráð hefur fengið að upplifa núna, bara síðasta árið, varðandi rétt til atvinnuleysisbóta, hækkun grunnframfærslu og alls konar í tengslum við COVID og ekki í tengslum við COVID. Það er eitthvað sambandsleysi þarna á milli.“
Hjartaþræðing fyrir fertugt
Andrés Ingi hefur lagt fram þingsályktunartillögu um skipulagt hjartaeftirlit ungs fólks. Málaflokkurinn er honum mikilvægur vegna eigin reynslu.
„Ættingi minn fékk hjartaáfall ungur og í framhaldinu af því fórum við nokkrir frændurnir í skoðun og þar kom í ljós að ég var með svaka mikla þrengingu í æðum og var settur á lyf. Þarna var ég um þrítugt.
Fólk sem fær hjartaáfall fyrir fimmtugt eða fertugt, það er líklegt að þar séu arfgengar ástæður að baki. Þess vegna getur verið skynsamlegt að senda fólk í kringum þá sem greinast með svona arfgengar ástæður í tékk. Því svona er oft hægt að halda auðveldlega niðri með lyfjum svo fólk lendi ekki í hjartaáfalli.
Ég var á lyfjum í tíu ár áður en það varð vesen. En ég fékk ekki hjartaáfall heldur tók læknirinn eftir þessu í línuriti, þrengda æðin hafði lokast alveg en af því að ég var á lyfjum þá hafði hjartað náð að vinna fram hjá þrengingunni.“
Svo fyrirbyggjandi meðferðin sem Andrés var á, bjargaði honum mögulega frá hjartaáfalli.
Heimavinnandi húsfaðir
Glöggir lesendur tóku kannski eftir því að tvö ár liðu frá því að Andrés lauk störfum sem aðstoðarmaður umhverfisráðherra þar til hann tók sæti á þingi.
Eftir að Andrés kynntist Rúnu, konu sinni, fluttu þau til útlanda.
„Fluttum til Berlínar, Brighton og bjuggum svo í Brussel í nokkur ár. B-borgir eru svona þema hjá okkur. Svo fluttum við til Íslands þegar ég var kosinn.“
Þegar þau fluttu út árið 2013 var dóttir þeirra fimm mánaða og þá fékk Andrés tækifærið til að verða heimavinnandi húsfaðir um hríð.
„Ég gat verið með henni þar til hún varð eins og hálfs árs og komst í leikskóla. Það var ótrúlega gott að eiga þennan tíma með börnunum. Þau kláruðu skólann snemma og við áttum gæða tíma. Dóttir mín var samt alveg tilbúin að losna við mig þarna í lokin.“
Aðspurður segist Andrés alveg vera rómantískur maður. Hann og kona hans hafi þó ekki haldið upp á Valentínusardaginn síðustu helgi. „
Jú, við fórum í afmælisveislu til bróður míns sem á afmæli 14. febrúar.“ Andrés vill þó ekkert gefa upp um áformin fyrir konudaginn sem er núna á sunnudaginn. Aðspurður hvort hann ætli að koma konunni á óvart svarar hann sposkur: „Kannski.“
En það er líklega erfitt að koma einhverjum á óvart á sunnudegi ef maður opinberar það fyrst í helgarviðtali sem birtist á föstudegi.
Metnaður í stað kyrrstöðu
Andrés segir næsta kjörtímabil geta skipt miklu máli. Það sé kominn tími fyrir metnaðarfulla ríkisstjórn í staðinn fyrir ríkisstjórn sem stendur fyrir kyrrstöðu og lægsta samnefnara.
„Það þarf að fá almennilega ríkisstjórn sem er laus við Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að það sé lykilatriði til að ná fram ákveðnum grundvallarbreytingum í þágu loftslagsmála og ýmissa aukinna mannréttinda.
Við erum til dæmis búin að upplifa núna algjöra kyrrstöðu í úrbótum á útlendingamálum allt kjörtímabilið og það er eitthvað sem við þurfum að laga og verða betri í og það skiptir mjög miklu máli.
Það verður að vera metnaðarfull ríkisstjórn með alvöru aðgerðir eftir kosningar en ekki einhver ríkisstjórn um lægsta samnefnara. Það væri alveg rosalega glötuð staða.“