fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Útskýrt á mannamáli: Sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka

Heimir Hannesson
Laugardaginn 27. febrúar 2021 11:30

mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir hefur legið í lengri tíma að ríkið ætli sér að draga úr eign sinni í íslenska bankakerfinu. Tekist hefur verið á um útfærslu á sölu hlutanna og ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir. Nú virðist niðurstaðan liggja fyrir og baráttan um söluna er hafin. DV útskýrir hér hvernig selja á bankann, á mannamáli.

Íslandsbanki eins og við þekkjum hann í dag varð til með svokölluðum neyðarlögum haustið 2008. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn höfðu þá fallið hver á fætur öðrum og íslenska fjármálakerfið í heild sinni með.

Á grunni Kaupþings var Arion banki reistur. Landsbankinn hélt sínu nafni og úr ösku Glitnis reis Íslandsbanki.

Utan um eignarhlut ríkisins í þessum bönkum var ári síðar stofnuð Bankasýsla ríkisins, sérstök ríkisstofnun sem hefur það eina hlutverk að halda utan um bankaeignir hins opinbera. Stjórn bankasýslunnar er sjálfstæð en heyrir undir fjármálaráðuneytið.

Bankasýslan fer í dag með 100% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, 98,2% eignarhlut í Landsbankanum og 49,5% hlut í Sparisjóði Austurlands. Eitt meginhlutverk Bankasýslunnar hefur verið að tryggja að samkeppni ríki á milli banka þrátt fyrir að eigendur tveggja af þremur stóru viðskiptabönkunum sé sami aðili. Það er gert með því að skipa ekki sömu aðila í stjórn bankanna og mynda nokkurs konar „múr“ á milli bankanna innan Bankasýslunnar. Þó hefur það legið fyrir lengi að ríkið hyggst ekki eiga Íslandsbanka til frambúðar.

Lengi langað en lítið gengið

Raunar hefur það verið stefna ríkisstjórnarinnar síðan 2015 að losa um eignarhlut sinn í bönkunum. Í lögum um Bankasýslu ríkisins er fjármálaráðherra veitt heimild til þess að selja hluti ríkisins í bönkunum að fengnu áliti Bankasýslunnar auk fleiri aðila og að fenginni heimild í fjárlögum. Þegar ríkisstjórnin sem nú situr var mynduð var samið um það í stjórnarsáttmálanum að draga úr eignarhlut ríkisins í bankakerfinu.

Farið var af stað í söluferli bankans seint á árinu 2019 og í febrúar 2020 sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að söluferlið myndi hefjast innan nokkurra vikna. Næstu vikurnar áttu auðvitað eftir að leiða allt annað í ljós. Fregnir um veirufaraldur frá borginni Wuhan í Kína mögnuðust og í lok febrúar greindist fyrsta COVID-19 tilfellið hér heima. Strax var ljóst í hvað stefndi hvað efnahaginn varðaði og reyndist verkefni bankasölu sjálfdautt. Hugmyndin þá var reyndar að selja meirihluta hlutafjár í Landsbankanum og allt í Íslandsbanka, en það átti eftir að breytast.

COVID kom á óvart

Seint á síðasta ári lagði Bankasýslan aftur til að hluti Íslandsbanka yrði seldur. Í desember féllst Bjarni fjármálaráðherra á þær tillögur og í janúar lá fyrir að farið yrði af stað með söluna „á vormánuðum“. Ekkert lát hafði orðið á kórónaveirufaraldrinum og því ekki nema von að margir spyrðu sig hvað hefði breyst. Í minnisblaðið Bankasýslu ríkisins til fjármálaráðherra mátti lesa að áhrif faraldursins hefðu ekki verið jafn alvarleg og fyrst var talið og kannski bara þveröfug við fyrstu spár. Hlutabréfavísitölur höfðu hækkað og hlutafjárútboð Icelandair heppnast með eindæmum vel. Umframeftirspurn eftir hlutabréfum í flugfélagi í alvarlegustu ferðaþjónustukreppu frá seinni heimsstyrjöld var vissulega eitthvað sem fáir hefðu getað séð fyrir.

Í minnisblaðinu sagði líka að eignarhald ríkisins í fjármálakerfinu væri með því hærra sem gerðist í heiminum. Lýsti raunar formaður efnahagsog viðskiptanefndar Alþingis, Óli Björn Kárason, ástandinu svona: „Það er aðeins í Rússlandi, Norður-Kóreu, nokkrum ríkjum Norður-Afríku og Suður-Ameríku sem fyrirferð ríkisins á fjármálamarkaði er jafn mikil eða meiri en hér á Íslandi.“

Grænar tölur á hlutabréfamarkaði hérna heima og velgengni útboðs hlutabréfa í Icelandair virðist einnig hafa orðið til þess að hætt var við að setja hlutina á markað erlendis samhliða skráningu á markað á Íslandi. Nú er stefnan aðeins sú að selja hlutina á markaði á Íslandi.

mynd/Stjórnarráð Íslands

Fern rök fyrir sölu

Helstu rök fjármálaráðherra og Bankasýslu ríkisins fyrir sölu á eignum í bankakerfinu virðist vera að bankarekstur sé mikill áhætturekstur, að í dag sé góður tími til þess að selja, það er, búast má við hærra verði fyrir sama hlut en áður, að bankabransinn í heild sé í svo mikilli þróun að hætt sé við að ríkisbankar verði undir í þeirri hröðu samkeppni, og að það samrýmist illa stefnu ríkisstjórnarinnar að eiga bankana áfram.

Um síðasta atriðið er ekki deilt, enda skoðun hægri flokksins á þingi. Ekki eru allir á eitt sáttir um hin rökin. Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, benti til dæmis á í Facebook-færslu þar sem hann vísaði í meðal annars skrif Gylfa Zoega hagfræðings, að bankar væru ekki eins og önnur fyrirtæki hvað áhættu varðaði. Oftar en ekki, eins og sannaðist einna helst árið 2008, lendir tjón af taprekstri og/eða gjaldþroti banka á almenningi. Með því að selja banka án þess að hnýta fyrir þann möguleika að framtíðarerfiðarleikar í rekstri lendi eftir sem áður á skattgreiðendum sé einfaldlega verið að einkavæða hagnaðarvonina, en áhættan situr enn á herðum almennings.

Þá hafa meðlimir stjórnarandstöðunnar bent á að þótt hlutabréfamarkaðir séu í grænu og staða efnahagskerfisins góð, séu þó blikur á lofti. Atvinnuleysi er áfram hátt, ríkissjóður rekinn með miklum hallarekstri og mikil óvissa í framtíðarspám. Grænar tölur úr kauphöllinni endurspegli ekki endilega góða stöðu hagkerfisins í heild. Það sé því hreinlega rangt að tala um „heppilegan tíma“ til þess að losa um eignir.

Erfið saga einkavæðingar flækir málin

Aðrir benda á að ekki verði hjá því komist að rifja upp sögu einkavæðingar í bankakerfinu hér á landi. Ekki eru nema tveir áratugir liðnir síðan bankakerfið var einkavætt í heild sinni og reyndist þar ekki allt með felldu. Við tóku mikil ævintýraár í íslenskri efnahagssögu sem lyktaði svo með ósköpum árið 2008. Auðvitað er málið ekki svo einfalt, og veruleikinn í dag allt annar en hann var á fyrstu árum þessarar aldar. Á þetta hefur til dæmis Bjarni Benediktsson bent í ræðum sínum á Alþingi um málið og er það óumdeilt að regluverk í kringum banka hefur verið hert til muna og þjóðfélagsandinn er með þeim hætti að hegðun banka og bankamanna sambærileg því sem tíðkaðist 2007 og á árunum þar á undan yrði aldrei liðin.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að almenningur stígur varlega til jarðar í þessum málum og hefur sínar efasemdir. Það blasti til dæmis við í könnun Gallup um málið frá því fyrr á þessu ári. Kom þá á daginn að aðeins fjórðungur landsmanna styður söluna, og meirihluti þeirra eru Sjálfstæðismenn.

Áhersla lögð á dreifða eignaraðild

Hluti af söluferlinu hefur verið að óska eftir umsögnum bæði Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins. Báðar voru þær jákvæðar en þó vöktu orð Samkeppniseftirlitsins sérstaka athygli. Sagði þar í minnisblaðinu að huga þyrfti að dreifðri eignaraðild að bankanum til þess að tryggja raunverulega samkeppni á markaði.

Þessar ábendingar virðast hafa fangað athygli þingsins, því í nefndaráliti bæði fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar var niðurstaðan sú að heimila sölu á 25-35% hlut í bankanum. Það þýðir að seljist minna en 25% hlutur verður ekkert af sölunni, og ekki verður leyft að selja meira en 35%. Þá er það jafnframt lagt til að hámarka ætti hlut hvers einstaks kaupanda við 2,5 til 3,0%. Enn fremur er það lagt til að komi til skerðingar á hlutum vegna umframeftirspurnar, eins og gerðist hjá Icelandair þegar eftir fleiri hlutum var óskað en til sölu voru, komi aðeins til skerðingar hjá þeim sem gerðu stór tilboð.

Fyrir liggur að þetta er fjarri því sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi fyrst gera og ljóst að hann vildi ganga lengra í sölu hluta ríkisins í bankakerfinu en hann komst upp með í stjórnarsamstarfi með Vinstri grænum.

Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka nema Viðreisnar í þingnefndunum tveimur lögðust gegn sölunni. Fulltrúi Viðreisnar sagðist þó vera sammála tillögunni, en vildi útfæra hana öðruvísi.

Ferðalagið er hafið

Í dag stendur til að framkvæma söluna í byrjun sumars og hafa mánaðamótin maí/júní verið nefnd sem líklegur tími. Í þarsíðustu viku lá fyrir að 24 fjármálafyrirtæki gerðu tilboð í að veita Bankasýslu ríkisins fjármála- og söluráðgjöf í tengslum við söluna. Þar af eru 14 erlend fyrirtæki.

Næsta skref í söluferlinu er því að Bankasýslan velji sér ráðgjafa sem mun aðstoða við skrefin þar á eftir. Eitt meginverkefni hans verður meðal annars að framkvæma verðmat og veita ráðgjöf um verðlagningu hluta sem boðnir verða út.

Ef allt fer sem horfir má búast við því að fjárfestum og almenningi öllum standi til boða að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka af ríkinu á allra næstu mánuðum. Má búast við því að fjármálaráðherra tilkynni hvernig staðið verði að sölunni á næstu vikum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Stefnir í „taktískar“ kosningar eins og í forsetakosningunum í sumar?

Orðið á götunni: Stefnir í „taktískar“ kosningar eins og í forsetakosningunum í sumar?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kosningaþáttur Eyjunnar: Milljarðar í snobbpartí og lúxus fyrir ráðuneyti og Seðlabankann en fólk hefur ekki þak yfir höfuðið

Kosningaþáttur Eyjunnar: Milljarðar í snobbpartí og lúxus fyrir ráðuneyti og Seðlabankann en fólk hefur ekki þak yfir höfuðið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jóhannes Loftsson skrifar: Segjum frá!

Jóhannes Loftsson skrifar: Segjum frá!