Frétt RÚV í vikunni, þess efnis að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði haft samband við lögreglustjóra á aðfangadag og spurt út í upplýsingamiðlun lögreglu til fjölmiðla, hefur vakið töluverða athygli. Tilefnið var að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var staddur í óformlegu samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þangað sem lögregla var kölluð til vegna mögulegra sóttvarnabrota. Í dagbók lögreglu um málið var tekið fram að „hæstvirtur ráðherra“ hefði verið á meðal gesta. Er þetta óvenjulegt því upplýsingar um störf lögreglu í dagbók lögreglunnar eru vanalega framsettar með ópersónugreinanlegum hætti.
Margir hafa gagnrýnt símtal Áslaugar og talið það flokkast undir óeðlileg afskipti af störfum lögreglu. Í leiðara Morgunblaðsins í dag er ekki tekið undir þetta og þingmenn sem hafa sett málið á dagskrá eru sakaðir um lýðskrum. Í leiðaranum segir:
„Eftir því sem kosningar nálgast aukast líkur á kosningaskjálftum. Þeir eru mun fyrirsjáanlegri en frændur þeirra í iðrum jarðar. Lýðskrumið á Alþingi fer þess vegna vaxandi um þessar mundir og var þó af nógu að taka fyrr á kjörtímabilinu. Nú hefur utanflokkaþingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson til dæmis fengið píratann Jón Þór Ólafsson, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, til að kalla dómsmálaráðherra á fund til að ræða símtal ráðherrans við lögreglustjóra. Upplýst hefur verið að ráðherrann hafi óskað eftir upplýsingum um verklagsreglur lögreglunnar um upplýsingagjöf til fjölmiðla, og skyldi engan undra miðað við hvernig upplýsingagjöfinni hafði verið háttað og miðað við það að ráðherranum höfðu borist fyrirspurnir um málið. Lögreglustjórinn og ráðherrann hafa staðfest að þetta hafi verið umræðuefnið og ekkert sem bendir til að samtöl hafi verið óeðlileg, en þegar kosningar nálgast og þingmenn fara að óttast um þingsæti sín þarf ekki endilega efnislegar ástæður til að þyrla upp moldviðri.“
Leiðarahöfundur telur nákvæmlega ekkert hafa verið athugavert við símtalið en augljóslega sé kosningaskjálfti í þingmönnum:
„Lýðskrumararnir á Alþingi treysta því líklega að landsmenn sjái ekki í gegnum skrumið. Það er ólíklegt. Niðurstaðan af ómálefnalegum árásum af því tagi sem hér eru nefndar er miklu fremur að grafa undan tiltrú fólks á þeim stjórnmálamönnum og þeim stjórnmálaflokkum sem slíka pólitík stunda. Það er alls óvíst að þeim verði þökkuð þessi framkoma þegar kjósendur fá færi á þeim í kjörklefunum í haust.“