Björn Jón Bragason, fastur pistlahöfundur í DV, veltir því upp í pistli í nýjasta eintaki blaðsins hvers vegna hér á landi sé ekki starfandi neinn Græningjaflokkur en flokkar frá öllum löndum Mið- og Vestur-Evrópu eiga aðild að Evrópusamtökum Græningja.
Björn Jón nefnir í pistli sínum að stóraukinn áhugi og skilningur almennings hér á landi á dýra- og náttúruverndarmálum endurspeglist ekki í stjórnmálunum. Hagsmunir einstakra atvinnugreina séu látnir vega þyngra en velferð dýra og náttúru.
Björn Jón gerir líka sjókvíaeldi á laxi að umtalsefni:
„Annað stórt umhverfisverndarmál tengist uppbyggingu sjókvíaeldis á laxi hér við land en Norks institutt for naturforskning hefur sýnt fram á mjög mikla erfðablöndun eldislax við villta laxastofna en aðeins þriðjungur villtra laxa í Noregi mun vera án erfðamengunar frá eldislaxi. Auk erfðablöndunar stafar villtum íslenskum laxi hætta af sníkjudýrum og sjúkdómum sem kunna að berast með eldislaxi. Gagnrýnendur laxeldis benda á þetta og að sjókvíaeldi kunni jafnvel að hafa í för með sér útrýmingu villtra laxastofna hér við land. Hér er ótalin sú mengun sem eldinu fylgir.“