Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Lilju að um mjög brýnt mál sé að ræða. „Við erum að leita leiða til að flýta þessari vinnu. Þetta hefur tafist hjá samstarfsaðilum okkar,“ er haft eftir henni.
Verkefnið hefur verið á borði fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hafa ráðuneytin kannað hvernig hægt sé að vinna hraðar í málunum. „Við sjáum hvernig fjárhæðir streyma út og við viljum jafna leikinn. Við erum að tala um þessar stóru efnisveitur þar sem auðvitað verið er að auglýsa, auglýsendur eru þar sem fólkið er. Við viljum að það sé jafnræði milli þess að auglýsa innanlands og hjá þessum erlendu streymisveitum,“ sagði Lilja.
Hún sagði að auglýsingatekjur streymi úr landi og ekki séu greiddir sömu skattar og skyldur af þeim eins og gert er þegar auglýst er innanlands. „Þarna viljum við jafna leikinn,“ sagði hún.
Hún sagði jafnframt að unnið hafi verið að málinu frá upphafi kjörtímabilsins og það þurfi að hraða þeirri vinnu og sagðist gera ráð fyrir að verkinu ljúki fyrir lok kjörtímabilsins og að fullur hugur sé í báðum um ráðuneytum um að ljúka verkefninu. „Við viljum bara flýta þessu. Þetta tekur of langan tíma og á meðan minnka tekjurnar, auglýsingatekjurnar til innlendu fjölmiðlanna. Það verður að fara í þetta,“ sagði hún.
Uppfært kl. 10:10 á vef Fréttablaðsins
Í upphaflegu fréttinni var sagt að Netflix greiddi ekki skatta hér á landi sem er ekki rétt. Samkvæmt Millu Ósk Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra greiðir streymisveitan skatta hér á landi og fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu streymisveita og samfélagsmiðla hefur ekki áhrif á verðlag á áskriftum að Netflix hérlendis.