fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Ungir fréttamenn á ferð og flugi: „Hann talaði við okkur eins og við værum átta ára og vissum ekkert um kosningarnar“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 20. febrúar 2021 19:20

Meðlimir Fréttastofu áhugamanna um pólitík (FÁUP), þeir Arnmundur Sighvatsson, Úlfur Marinósson, Snorri Sindrason, Magnús Sigurður Jónasson, og Matthías Atlason. Á myndina vantar Atla Hjálmar Björnsson. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttastofa áhugamanna um pólitík er skipuð fimm tólf ára drengjum úr Háteigsskóla. Þeir ætla að fjalla um komandi alþingiskosningar í þáttum á Youtube og hafa þegar tekið viðtöl við alla helstu ráðamenn þjóðarinnar.

Það er hrein tilviljun að meðlimir Fréttastofu áhugamanna um pólitík koma í viðtal einmitt á öskudag, en því eru þrír þeirra enn í búningi þegar þeir mæla sér mót við blaðamann.

Matthías er klæddur sem Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður, Arnmundur er í gervi Randvers Þorlákssonar, fyrrverandi meðlims Spaugstofunnar, og Magnús í gervi Björns Leifssonar, eiganda World Class. Þrátt fyrir að það blasi kannski ekki við í fyrstu var upphaflegt þema drengjanna fyrir öskudag „menn sem hafa tekið slæmar ákvarðanir“.

Þórhallur er þeirra á meðal „því hann rak Randver úr Spaugstofunni og fyrir að setja fréttir Stöðvar 2 í læsta dagskrá“, og Bjössi í World Class því hann vildi halda líkamsræktarstöðvum sem mest opnum þrátt fyrir COVID-19.

Magnús: Ég vona bara að þeir sem við nefnum hér lesi ekki þessa frétt en Bjössa fannst mikilvægara að fólk færi í ræktina en að gamla fólkið gæti lifað lífi sínu.

Þá stóð til að Úlfur myndi klæða sig upp sem sjálfur Davíð Oddsson en tímaskortur kom í veg fyrir að það yrði að veruleika. „Ég er líka eiginlega með fóbíu fyrir hárkollum,“ segir Úlfur sem óneitanlega hefði þurft að skarta hárkollu með krullum til að ljá hlutverkinu trúverðugleika.

Matthías: Davíð var auðvitað umdeildur. Hann vildi rífa Grjótaþorpið og lét rífa Fjalaköttinn.

Snorri var hins vegar í risaeðlubúningi þennan daginn sem hann hafði pakkað niður í tösku fyrir heimsókn til DV og Matthías segist mjög feginn að hann hafi ekki mætt í risaeðlubúningnum í viðtalið.

Þeir brugðu á leik í stóra fundarherberginu hjá Torgi ehf sem rekur DV, Fréttablaðið og Hringbraut. Frá vinstri: Snorri, Úlfur, Matthías, Magnús og Arnmundur. Mynd: Valli

Heimboð frá forsetanum

Fréttastofa áhugamanna um pólitík var stofnuð í maí 2018. Stofnmeðlimir voru þeir Magnús, Matthías og Arnmundur. Fimm dögum seinna bættist Úlfur við en það var nokkru seinna sem Snorri gekk til liðs við FÁUP, eins og þeir kalla fréttastofuna í daglegu tali.

Þeir eru með rás á YouTube þar sem þeir hafa birt fjölmörg innslög. Fyrsti þátturinn þeirra fjallaði um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 2018 og kallaðist Borgarsýn Reykjavíkur. Síðan hafa þeir tekið viðtöl við ógrynni stjórnmálafólks.

Í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra, þegar Guðmundur Franklín bauð sig fram gegn sitjandi forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessyni, tóku þeir viðtöl við báða frambjóðendur.

Úlfur: Mér finnst svo fyndið að við hringjum í einhvern stjórnmálamann eða forsetann og það bara virkar. Þeir eru alveg til í þetta. Það kom mér á óvart að við gætum hringt í forsetann og nokkrum dögum seinna erum við mættir á Bessastaði að taka viðtal við Guðna Th.

Hvernig var að hitta Guðna?

Matthías: Það var gaman.

Úlfur: Ég hafði hitt hann áður.

Snorri: Við fengum pönnukökur.

Magnús: Það var síðan svolítið fyndið þegar við tókum viðtal við Guðmund Franklín. Hann lét eins og við værum átta ára og vissum ekkert um kosningarnar.

Matthías: Hann talaði líka við okkur um málskotsréttinn. Ég myndi giska á að hann hafi verið nýbúinn að gera myndband fyrir þá sem vissu lítið um kosningarnar og hann var að tala þannig.

Hvað finnst ykkur mest spennandi við pólitík?

Úlfur: Ég fylgist ekki mikið með pólitík almennt. Mér finnst skemmtilegast að hitta stjórnmálamennina og tala við þá.

Snorri: Ég er sammála því.

Magnús: Mér finnst gaman að fylgjast með fólki rífast. Það er eiginlega alltaf fyndið. Mér finnst líka skemmtilegt að rökræða og finnst gaman að taka viðtöl þegar ég fæ að rökræða við fólk. Þegar ég tók viðtal við Guðmund Franklín rökræddi ég við hann.

Matthías: Við reynum að vera hlutlausir og sýna öll sjónarhorn. Mér finnst áhugavert hvernig stjórnmálamenn takast á við vandamál. Maður þarf að geta séð inn í framtíðina til að vera góður stjórnmálamaður.

Arnmundur: Mér finnst allt spennandi við þetta; fólkið, lögin og umræðurnar.

Úlfur: Ég verð að fá að segja eitt. Ég var mjög kvíðinn þegar ég vildi fá selfie með Bjarna Ben. Þó ég vissi ekki mikið um hann vissi ég að hann væri frægur stjórnmálamaður og að foreldrar mínir vissu alveg hver hann væri. Ég vildi sýna þeim að ég hefði tekið selfie með honum.

Þættir í bígerð

Næst á dagskrá hjá FÁUP er að gera nýja þætti sem að öllum líkindum kallast Leiðtogarnir þar sem rætt verður við ýmsa fyrrverandi leiðtoga, svo sem fyrrverandi forseta, fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra. Síðan liggur auðvitað beinast við að gera þætti um komandi alþingiskosningar.

Hvernig líst ykkur á kosningarnar?

Magnús: Ég er spenntur að sjá hvað Guðmundur Franklín gerir í þessum kosningum. Ég er kannski búinn að nefna hann oft í þessu viðtali en mér er sama.

Matthías: Ég hef mestan áhuga á því hvað aðrir eru að hugsa varðandi kosningarnar, ekki hvað við erum að hugsa. Ég held að bæði kosningabaráttan og næsta ríkisstjórn verði öðruvísi en hefur verið.

Magnús: Við erum með smá spá. Við teljum að í næstu ríkisstjórn verði Píratar, Samfylkingin og Viðreisn. Kannski Vinstri græn og kannski Framsókn.

Matthías: Þetta er það sem við höldum. Við erum ekki vissir.

Þeir segjast vera nokkuð sammála um þessa spá, óháð eigin stjórnmálaskoðunum, en þó séu líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórn þar sem hann fái yfirleitt mikið fylgi.

Á hverju byggið þið spána ykkar?

Magnús: Það er langt síðan það var vinstri stjórn.

Matthías: Það hefur verið talað um að Vinstri græn séu komin lengra til hægri eftir ríkisstjórnarsamstarfið. Margir hafa farið úr VG og yfir í Pírata eða Samfylkinguna. Mér finnst því líklegt að fólk vilji kjósa Pírata eða Samfylkinguna.

Arnmundur: Ríkisstjórnin er svolítið umdeild. Ég held að Vinstri græn muni missa svolítið mikið fylgi. Þau hafa kannski ekki verið að fara nógu mikið eftir stefnumálum flokksins og frekar verið að passa upp á stjórnarsamstarfið.

Magnús: Það er auðvitað val sem stjórnmálamenn hafa. Mér finnst ríkisstjórnarsamstarfið hafa dregið þessa flokka alla nær miðjunni.

Stúdíó Hringbrautar heillaði í skoðunarferð um húsakynni Torgs. Frá vinstri: Snorri, Arnmundur, Matthías, Úlfur og Magnús. Símamynd/Erla

Framtíðarplönin

Langar ykkur að fara út í pólitík þegar þið verðið fullorðnir?

Matthías: Ég myndi kannski bjóða mig fram í borgarstjórn. Ég held að ég myndi samt ekki sitja nema eitt eða tvö kjörtímabil. Ég er oft ósammála áherslum í borgarskipulagi. Ég hef mikinn áhuga á arkitektúr og mér finnst að það megi gera betur. Á Hverfisgötunni er núna verið að troða inn litlum blokkum í staðinn fyrir að byggja stærri blokkir á betri stað. Það er líka örugglega ódýrara.

Úlfur: Nei, ég er með önnur og stærri áhugamál. Ég ætla að verða kartúnisti – skopmyndateiknari – eða leikari.

Snorri: Mig langar að verða teiknimyndasöguhöfundur. Mér finnst skemmtilegt að teikna og búa til sögur.

Arnmundur: Mig langar svolítið að verða leikstjóri en ég ætla ekki að útiloka að ég setjist einhvern tímann á þing.

Matthías: Arnmundur er leikstjórinn í hópnum og ég held að hann fái að starfa við það sem hann vill.

Hlutleysið mikilvægt

Eigið þið einhverja uppáhalds stjórnmálamenn?

Magnús: Guðmundur Franklín var pínu fyndinn.

Matthías: Ég vil ekki svara þessu út frá stefnumálum heldur út frá því hvernig fólkið sjálft er. Það er mikilvægt að við séum hlutlausir. Það var gaman að taka viðtal við Katrínu Jakobsdóttur í Stjórnarráðinu. Mér fannst líka gaman að koma þangað inn út af þessum gamla arkitektúr.

Úlfur: Mér finnst margir stjórnmálamenn vera frekar næs. Ég veit ekki hver er í uppáhaldi hjá mér.

Matthías: Stundum heldur maður að einhver sé kannski leiðinlegur og ekki fyndinn, en síðan er fólk allt öðruvísi en maður hélt.

Úlfur: Við erum líka bara tólf ára og vorum níu ára þegar við byrjuðum. Þau eru auðvitað aðeins skemmtilegri við okkur en þau eru venjulega í stjórnmálum.

Arnmundur: Allir hafa verið mjög almennilegir við okkur.

Stálust í snúð

Hvern hefur verið skemmtilegast að hitta?

Snorri: Ég man ekki alveg hvern við vorum að taka viðtal við en ég man að það voru kleinuhringir.

Úlfur: Það var Þórdís Kolbrún…

Magnús: … Reykfjörð Gylfadóttir.

Úlfur: Arnmundur minnir mig oft á þessa sögu. Ég og Snorri vorum þá á bak við tjöldin að fá okkur sætindi þegar það var verið að taka upp viðtalið. Arnmundur var að taka upp og hann var alltaf að kíkja til okkar því við vorum laumulega að reyna að ná í snúð.

Magnús: Það væri hægt að gera skemmtilega þætti um hvað Úlfur og Snorri eru að gera á bak við tjöldin þegar við erum að taka upp.

Úlfur: Þegar við tókum viðtal við Steingrím J. heyrðist í okkur smjatta á súkkulaði.

Strákarnir springa allir úr hlátri.

Matthías: Og einu sinni þegar við vorum að bíða eftir utanríkisráðherra var okkur boðið upp á nammi og við kláruðum það allt.

Fylgdust þið með forsetakosningunum í Bandaríkjunum?

Matthías: Ég fylgdist frekar vel með. Ég var sérstaklega stressaður út af síðustu tveimur sætunum í öldungadeildinni. Ég er ánægður með að demókratar fengu þau.

Magnús: Ég hélt fyrst að þú værir að fara að tala um Nevada og Wisconsin.

Eigið þið einhverja uppáhalds fréttamenn?

Allir í kór: Bogi Ágústsson!

Arnmundur: Helga Arnardóttir sem var einu sinni á Stöð 2 er mjög góð fréttakona.

Magnús: Já, mér finnst Birta Björnsdóttir líka mjög góð.

Munið þið eftir því þegar það kom í fréttum að sex ára stelpa hafi fengið afmælisköku með mynd af Boga Ágústssyni?

Úlfur: Var það ekki bara eitthvað grín?

Magnús: Ég veit núna hvaða mynd ég ætla að fá mér á kökuna næst þegar ég á afmæli!

Matthías: Ég ætla að fá mynd af Guðjóni Samúelssyni.

Úlfur: Hann er sjúkur í Guðjón Samúelsson og minnir okkur á það svona hundrað sinnum á dag að hann hafi teiknað Hallgrímskirkju. En núna langar mig mjög mikið að fara í RÚV-húsið, fá leyfi til að leika fréttamann í smá stund og svo kemur Bogi Ágústsson og rekur mig í burtu.

 

Nálgast má YouTube-rás FÁUP með því að smella hér. 

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV sem kom út 19. febrúar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum