Sif Sigmarsdóttir, einn allra færasti pistlahöfundur landsins, sakar fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, um vitsmunalega leti í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hún segir að hugmyndafræðin á bak við ákvörðun Bjarna um að selja Íslandsbanka byggja á ættbálkaást, frekar en sannleikanum.
Sif, sem er búsett í London, byrjar þó pistil sinn allt annars staðar. Hún segir að lítið sé um að vera í stórborginni þessa daganna og því hafi hún byrjað að fylgjast með rifrildum á Twitter. Hún nefnir tvö dæmi um þessi rifrildi, í öðru þeirra á hún líklega við um rökræður Friðjóns Friðjónssonar og ýmissa Twitter-verja, líkt og Siffa G, um málefni Kúbu.
Hún bendir á að í þessum rifrildum hafi flestir séð hlutina sem algóða eða alslæma. Auk þess hafi engum tekist að sannfæra hinn hópinn um neitt.
„Það er lítið við að vera hér í London þar sem kórónaveiran veldur enn útgöngubanni. Í vikunni tók ég að fylgjast með rifrildum á Twitter mér til dægrastyttingar. Á einum stað reifst fólk um það hvort bág lífskjör á Kúbu stöfuðu af sósíalísku stjórnarfari eða viðskiptabanni Bandaríkjanna. Annars staðar reifst fólk um hvort rafmyntin bitcoin væri skemmtileg hugmynd eða óhæfileg umhverfisvá. Svarið virtist alltaf annaðhvort eða – algott eða alslæmt – og öðrum hópnum tókst aldrei að sannfæra hinn. Ég velti fyrir mér hvort blæbrigði í rökræðum rúmuðust ekki innan þeirra 280 stafabila sem Twitter hefur að bjóða. En ástæðan fyrir flokkadráttunum reyndist flóknari en svo.“
Þá bendir Sif á könnun sem sýndi fram á að þegar skorað sé á stjórnmálaskoðanir fólks, eða þær dregnar í efa eða sannað sé að þær byggist á rangfærslum, upplifi það áskoranirnar frekar sem árás á sjálfsmyndina. Fólk stæði ekki vörð um sannleikann heldur ættbálkinn.
„Rannsókn taugavísindamanna við háskóla Suður-Kaliforníu sýnir að dýrategundin homo sapiens skiptir ekki um skoðun, sérstaklega ekki ef um er að ræða stjórnmálaskoðun. Myndir voru teknar af heilum þátttakenda rannsóknarinnar í MRI-skanna. Sýndu þær að heilastöðvar, sem ákvarða sjálfsmynd, stýra tilfinningasvörun og meta hættu, verða virkar þegar stjórnmálaskoðanir einstaklings eru dregnar í efa. Jafnvel þótt þátttakendum væru sýndar sannanir þess að þeir hefðu rangt fyrir sér, þrjóskuðust þeir við. Jonas Kaplan, sem fór fyrir rannsókninni, sagði stjórnmálaskoðanir vera „hluta af sjálfsmynd okkar“ og að þær „ákvörðuðu hvaða samfélagshópi við tilheyrðum“. Það væri ekki „sannleikurinn“ sem við stæðum vörð um þegar við rökræddum stjórnmál heldur „ættbálkurinn“.“
Víkur Sif sér þá að Bjarna og sölunni á Íslandsbanka. Hún segir augljóst að Bjarni sé ákafur í að koma henni í gegn, þó að alls ekki allir séu sannfærðir um nauðsyn hennar.
„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ákvað nýverið að hefja sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Fáum dylst ákafi Bjarna þegar kemur að einkavæðingunni. Ekki eru þó allir jafnsannfærðir um nauðsyn hennar. Þykir mörgum asinn vera heldur mikill, vinnubrögðum ábótavant og hvatirnar óljósar. „Það er mjög sérkennilegt að einkavæða banka rétt fyrir kosningar, þegar allt hagkerfið er í 100 ára djúpri kreppu og óvissa um eignasöfn,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, nefndarmaður í fjárlaganefnd.“
Sif telur að Bjarni sjái flísina í auga annars en ekki bjálkann í eigin auga, þegar hann tali um að efasemdafólk sem byggi skoðanir sínar á hugmyndafræðilegum ágreining. Þetta segir hún vegna þess að sjálfur rökstyðji hann mál sitt með því að fullyrða að ríkið eigi hreinlega ekki að standa í bankarekstri.
„Bjarni afskrifaði hins vegar allar aðfinnslur sem hugmyndafræðilegan ágreining. Efasemdafólk væri „einfaldlega þeirrar skoðunar að ríkið hafi hlutverki að gegna sem leiðandi afl og megin eigandi fjármálakerfisins.“
Margur sér flísina í auga annars en ekki bjálkann í eigin auga. Í sömu andrá og Bjarni sakaði þá sem voru honum ósammála um hugmyndafræðilega rörsýni útskýrði hann fyrir þeim „bestu rökin fyrir því að selja bankann“. Þau voru orðrétt: „Ríkið á ekki að standa í bankarekstri.“
Bág lífskjör á Kúbu geta skýrst af sósíalísku stjórnarfari og viðskiptabanni Bandaríkjanna, hvort tveggja í senn. Bitcoin getur bæði verið skemmtileg hugmynd og umhverfisvá. Að láta eins og að til sé eitt sjálfkrafa svar við því hvort ríkið eigi að selja Íslandsbanka eða ekki er vitsmunaleg leti.“
Þá bendir Sif á að minna en fjórðungur landsmanna treysti Bjarna fyrir sölunni, og að talsvert stærri hluti treysti honum illa. Hún segir einnig að margir lýti svo á að þessi aðgerð Bjarna virðist fremur vera pólitísk skoðun, en ekki praktísk ákvörðun.
Að lokum minnir Sif á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002. Hún líkir þjóðinni við „foie gras“-gæs sem fær söluna á Íslandsbanka troðið upp í sig.
„Að selja banka eða ekki selja banka, þarna er efinn. Eitt er þó engum vafa undirorpið. Aðeins 23 prósent treysta Bjarna Benediktssyni til að leiða sölu Íslandsbanka. 63 prósent treysta honum illa.
Sumir virðast álíta sölu Íslandsbanka pólitíska skoðun en ekki praktíska ákvörðun. Ef marka má taugavísindamennina í Kaliforníu er ólíklegt að þeim sem er svo þenkjandi snúist hugur. Af því leiðir einnig að hætta er á því að sá hópur standi ekki vörð um „sannleikann“ heldur „ættbálkinn“.
Einkavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002 var gjarnan kölluð einkavinavæðing. Að troða sölu Íslandsbanka ofan í kokið á þjóð sem enn ber ör þess ættbálka-gjörnings rétt eins og fóðri ofan í „foie gras“-gæs er þarflaus grimmd. Kosningar eru handan hornsins. Hver sá sem sigrar þær hefur umboð til að selja – eða ekki selja – Íslandsbanka.“