Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, lýsir ótta sínum gagnvart þróun fjölmiðla í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hans upplifun er á þann veg að oftar og oftar sé aðferð útilokunar beitt í stað umræðu og rökræðna. Í pistli sínum fjallar Björn um tvö dæmi máli sínu til stuðnings, annars vegar að Keilir ætli sér ekki lengur að auglýsa í miðlum Sýnar vegna niðrandi ummæla í útvarpsþættinum Zúúber, sem var tekin af dagskrá í kjölfarið, og hins vegar vegna viðbragða RÚV við umdeildum myndböndum Samherja.
„Markaðssvið Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, hefur ákveðið að veita auglýsingafé sínu í aðra átt en að miðlum Sýnar næstu misserin, segir í frétt á mbl.is föstudaginn 19. febrúar. Þetta sé gert „í ljósi nýbirtra upplýsinga er varða líkamssmánun og skeytingarleysi starfsmanna gagnvart umræðunni“. Ástæðan fyrir ákvörðuninni eru niðrandi ummæli í útvarpsþætti í stöð Sýnar. Í yfirlýsingu vísinda- og fræðamiðstöðvarinnar segir: „Siðareglur Keilis kveða á um að við komum í veg fyrir að í starfi okkar viðgangist hvers kyns óréttlæti.“
Daginn áður, fimmtudaginn 18. febrúar, var sagt frá því á mbl.is að ríkisútvarpið (RÚV) hefði farið fram á við útgerðarfélagið Samherja að taka niður myndskeið á Facebook með gagnrýni á fréttastofu RÚV. Þá bað fréttastofan ritstjórn Facebook að fjarlægja myndband Samherja af samfélagsveitu sinni. Var það gert í nafni höfundarréttar enda hefði Samherji „ekki aflað samþykkis frá safnadeild Ríkisútvarpsins fyrir notkun á hljóð- og myndefni áður en félagið setti myndbandið í birtingu“. Samherji hafði tilkynnt safnadeildinni notkun sína á 15 sekúndum úr fréttum RÚV og óskað eftir reikningi segir á mbl.is. Á vef RÚV segir að hægt sé að panta hljóð- og myndefni hjá RÚV-safni til einkanota eða opinberrar birtingar.“
Björn segir að tilgangur aðgerða Keilis og viðbrögð RÚV hafi í raun og veru það markmið að banna umræður, frekar en að ræða málin. Hann segir að oft séu hneykslunarefni talsvert veigaminni en útlit sé fyrir. Þá segir hann það vera orðið þekkt úti í heimi að háskólar og fjölmiðlar hreinlega banni orðræðu sem sé á viðkvæmum stað.
„Þessi tvö dæmi, annars vegar um vísinda- og fræðamiðstöð sem telur eigin siðareglur banna auglýsingu hjá fyrirtæki vegna ummæla eins af þáttargerðarmönnum þess og hins vegar um ríkisfréttastofu sem telur eðlilegt að hún stjórni því hverjir fái að greiða fyrir og birta efni úr RÚV-safninu eru „ný vinnubrögð“ eins og varafréttastjóri RÚV segir. Tilgangur þeirra er að banna umræður í stað þess að ræða mál.
Margt af því sem hent er á loft í umræðum líðandi stundar og verður að hneykslunarefni er miklu veigaminna en það sem hér um ræðir. Miklar umræður eru víða erlendis um þá áráttu háskólamanna og fjölmiðlamanna að grípa frekar til útilokunar en rökræðna.
Frjálsar og opnar umræður um mál sem teljast viðkvæm og kunna að særa einhverja eru einfaldlega bannaðar. Gripið er til hótana til að halda fyrirlesurum frá háskólasvæðum. Ritstjórar eru flæmdir frá störfum, ekki endilega vegna þess sem þeir skrifa heldur þess sem þeir birta.“
Í lok pistils síns spyr Björn hvort að fólk vilji að þetta verð framtíð fjölmiðlunar á Íslandi, að siðareglur og ritskoðun komi í veg fyrir umræðu.
„Vill einhver í raun að þróunin í fjölmiðlun verði á þennan hátt hér á landi? Að siðareglur fræðamiðstöðvar standi í vegi fyrir eðlilegum samskiptum hennar við fjölmiðlafyrirtæki? Að allar eðlilegar samskiptareglur við RÚV verði að víkja fyrir sérhagsmunum fréttastofu sem hefur komið sér í slíkan vanda að aðeins ritskoðun sé til bjargar?“