Þetta sagði Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við Fréttablaðið sem fjallar um málið í dag.
Fram kemur að vísitala íbúðaverðs hafi í janúar hækkað um 0,09 prósent á milli mánaða en þetta er minnsta hækkun vísitölunnar frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveirunnar ef apríl 2020 er undanskilinn en þá lækkaði vísitalan. „Umsvifin eru vissulega enn þá mikil en svo virðist sem farið sé að hægjast um á markaðinum eftir mikinn yfirsnúning síðasta haust,“ er haft eftir Ernu.
Velta á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 37% á milli mánaða og kaupsamningum fækkaði um 31%. Erna sagði að þrátt fyrir að tölurnar bendi til að hægja muni á húsnæðismarkaðnum þá séu forsendur fyrir áframhaldandi verðhækkunum á milli mánaða. „Áhrifa vaxtalækkana gætir enn þá, kaupmáttur er að aukast, þau heimili sem ekki verða fyrir atvinnumissi standa vel og aðdráttarafl steinsteypu verður sífellt meira í heimi lágvaxtaumhverfis,“ sagði hún.