Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Guðmundi að jarðhræringar á Reykjanesskaga gætu ógnað afhendingaröryggi raforku á suðvesturhorninu. „Ef eitthvað skyldi gerast í þeim efnum og raforkuöryggi höfuðborgarsvæðisins yrði ógnað, væri ágætt að geta fengið orku að norðan eða austan inn á suðvesturhornið svo heimili og fyrirtæki verði ekki fyrir orkuskerðingu,“ er haft eftir honum.
Hann sagði jafnframt að ef eitthvað myndi koma upp á, til dæmis á Hengilssvæðinu þá myndi heita vatnið jafnvel líka detta út á höfuðborgarsvæðinu. Ef sú staða kæmi upp þá sé rafmagn eina leiðin til hitunar.
„Við höfum horft til þess að Evrópuþjóðir líta á það sem þjóðaröryggismál að hafa um 15 prósenta flutningsgetu á milli landa. Við erum með um 5 prósenta flutningsgetu innan landshluta. Ef það er horft á þetta sem þjóðaröryggismál þá geta flutningar raforku milli landshluta skipt sköpum,“ er haft eftir Guðmundi.