Málsvörn Jóns Ásgeirs vekur upp áleitnar spurningar um réttarríkið. Ákæruvaldið reiddi hátt til höggs í Baugsmálinu en eftirtekjur voru rýrar. Mannréttindi brotin á sakborningum málsins.
Þegar síðustu ákærunni á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni var vísað frá í árslok 2018 hafði hann haft stöðu sakbornings eða verið undir ákæru í 5.992 daga samfleytt og það þrátt fyrir að hafa aldrei fengið neinn dóm svo orð væri á gerandi. Hvernig getur annað eins átt sér stað í réttarríki? Einar Kárason rithöfundur færist nær svarinu við þeirri spurningu í Málsvörn Jóns Ásgeirs sem út kom á dögunum. Bókin er í senn lífleg frásögn af miklum viðskiptaafrekum en um leið gríðarlegu mótlæti þar sem rannsakendur og handhafar ákæruvalds fóru offari – alveg frá upphafi.
Hátt reitt til höggs
Athyglisvert er að skoða húsleit lögreglu og haldlagningu gagna í höfuðstöðvum Baugs 2002 frá sjónarhóli reglna um meðalhóf. Lögreglu hefði verið í lófa lagið að óska eftir þeim reikningum sem hún taldi sig þurfa.
En lögregla lét ekki þar við sitja heldur fór þess á leit við lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli að Jón Ásgeir yrði handtekinn við komuna til landsins – en Jón hafði afráðið að hraða sér heim frá Lundúnum þar sem hann var staddur þegar laganna verðir réðust inn á skrifstofu Baugs.
Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, neitaði að verða við beiðni um handtöku enda væri Jón Ásgeir á leið til landsins sjálfviljugur. Ég átti viðtal við Jóhann um þessi mál fyrir nokkrum árum og greindi frá í bók minni Í liði forsætisráðherrans sem út kom 2017, en Jóhann segir þar að þetta mál hafi komið illa við sig. Hann hefði ósjálfrátt leitt hugann til Hafskipsmálsins þegar sakborningar voru leiddir fyrir sakadómara frammi fyrir linsum kvikmyndatökumanna Ríkissjónvarpsins með öllum þeim miska sem því fylgdi.
Í bók Einars Kárasonar er dreginn upp athyglisverður samanburður á þessum tveimur málum, Hafskipsmálinu og Baugsmálinu.
Rændur bestu árum lífsins
Embætti ríkislögreglustjóra gerði alvarleg mistök við rannsókn málsins en eins og svo oft bæði fyrr og síðar var rannsakendum fyrirmunað að játa nokkur mistök. Áfram var höggvið í sama knérunn.
Í bókinni segir á bls. 73: „Menn breytast við svona áföll. „Moodið“ breytist. Það er góð uppskrift að því að kála mönnum að láta þá vera í málaferlum við ofjarla í sextán til sautján ár.“ Jón Ásgeir var þrjátíu og fjögurra ára þegar hann var ákærður og kominn yfir fimmtugt þegar hann var loks laus allra mála.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, kemst svo að orði í bókinni: „Mörgum finnst eins og svona uppskerutími í lífi manna fari að hefjast í kringum þrjátíu og fimm ára aldurinn, eftir að menn hafa verið að búa sig undir lífið og ævistarfið. Þessi tími var að miklu leyti tekinn frá Jóni Ásgeiri. Maður sem er undir alvarlegri ákæru lifir ekki lífinu eins og aðrir. Þessir menn sofa ekki á nóttunni, og ef þeir gera það þá vakna þeir með martraðir.“
Mannréttindabrot
Hinu eiginlega Baugsmáli lauk í Hæstarétti 2008 með nánast algjörum ósigri ákæruvaldsins en í kjölfarið var skattamál Baugs endurvakið en það hafði áður verið til lykta leitt fyrir yfirskattanefnd. Jón Ásgeir hlaut loks þriggja mánaða skilorðsbund inn dóm og sekt í Hæstarétti vegna þess máls árið 2013.
Málinu var vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu sem kvað upp dóm þess efnis 2017 að Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hefðu verið ákærðir og dæmdir vegna atvika sem þeir hefðu fengið refsingu fyrir á sínum tíma hjá yfirskattanefnd og mannréttindi þeirra því brotin.
Gestur Jónsson segir í bókinni að það sé ljótur blettur á íslenska réttarríkinu að mál þeirra Jóns Ásgeirs og Tryggva hafi ekki enn verið endurupptekið fyrir íslenskum dómstólum – enda hafi Ísland skuldbundið sig til að hlíta niðurstöðum Mannréttindadómstólsins.
Réttarríkið
Einar Kárason veltir upp áleitnum spurningum í bókinni og segir meðal annars: „Í rauninni er óskiljanlegt að einhver tiltekinn þjóðfélagsþegn skuli búa árum og áratugum saman við yfirlýst og ódulið hatur og fjandskap valdamestu ráðamanna í samfélaginu. Og það í réttarríki, lýðræðisþjóðfélagi.“
Flestir gera sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt inngrip það er í líf fólks að vera tekinn höndum svo dæmi sé tekið. Jafnvel það eitt að sæta yfirheyrslu er sumum þungbær reynsla. Í réttarríki á enginn sakborningur að þurfa að sæta því að mál hans sé til rannsóknar árum saman, hvað þá að upplýsingum frá rannsóknaraðilum sé lekið á fjölmiðla – að ekki sé minnst á að rannsakandinn haldi undan gögnum sem leitt geta til sýknu sakbornings. Um þetta eru því miður allt of mörg dæmi hérlendis og fjöldi manns sem aldrei mun bíða þess bætur að hafa setið á sakamannabekk – að ósekju.
Málsvörn Jóns Ásgeirs verður vonandi til þess að augu fleiri opnist fyrir mikilvægi þess að vanda betur meðferð opinbers valds og afstýra misnotkun þess. Misbeiting valds á að vera áhyggjuefni alls almennings því meðan hún þrífst veit enginn hvenær spjótin geta beinst að þeim sjálfum.