Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. „Það yrði mjög, mjög jákvætt, fyrir lífeyrissjóðina og hagkerfið í heild sinni, ef sjóðirnir geta aukið hlutfall erlendra eigna í eignasafni sínu,“ er haft eftir honum.
Ásgeir benti á að í lögum sé litið á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna sem áhættuþátt en hann telji hins vegar að þær gegni því hlutverki að stuðla að áhættudreifingu fyrir einstaka sjóði og kerfið í heild sinni. Þess vegna telji hann eðlilegt að lögbundna hámarkið verði hækkað. Hann sagðist ekki geta svarið hversu mikið hann vilji að þakið hækki en benti á að það sé mismunandi á milli sjóða hversu mikil fjárfestingaþörf þeirra sé. „Þegar heimurinn verður aftur eðlilegur, þar sem ferðaþjónustan verður búin ná vopnum sínum og viðskiptaafgangur verður meiri, þá er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir verða að nýta sér það svigrúm sem þá skapast til að auka fjárfestingar sínar erlendis. Við skulum líka hafa það hugfast að viðskiptaafgangurinn stafar einnig að hluta til af því að almenningur er að fresta neyslu sinni í dag með því að ráðstafa sparnaði sínum til lífeyrissjóðanna,“ er haft eftir honum.
Aðspurður sagði hann ekkert formlegt samtal hafi farið fram á milli Seðlabankans og lífeyrissjóðanna um breytingar á þessu. „En ég hef lýst þessari skoðun minni við forsvarsmenn þeirra, meðal annars í fyrra þegar sjóðirnir samþykktu að gera tímabundið hlé á gjaldeyriskaupum til að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði,“ er haft eftir honum.