Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birtir í dag ritdóm upp á heila opnu í Morgunblaðinu um bókina Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kaupsýslumanns, en bókina skráði Einar Kárason rithöfundur. Greinin er að miklu leyti andsvör við söguskýringum Jóns Ásgeirs í bókinni. Hannes segir Jón teiknaðan upp sem píslarsvöld stjórnvalda en það sé fjarri lagi. Hannes telur Jón Ásgeir hins vegar vera afreksmann og fer fögrum orðum um það framtak þeirra fegða, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar föður hans, að stofna lágvöruverðsverslunina Bónus, en það hafi gerst í skjóli nýrra tíma viðskiptafrelsis sem ríkisstjórnir undir stjórn Davíðs Oddssonar innleiddu:
„Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi flesta þá mannkosti til að bera, sem vinir hans og samstarfsmenn vitna um. Sjálfur kann ég vel við hann og hef átt ánægjuleg samtöl við hann, eins og hann minnist á, og er allt rétt, sem þeir Einar segja um mig. Í fyrsta hluta bókarinnar greinir frá því afreki Jóns Ásgeirs og föður hans, Jóhannesar Jónssonar í Bónus, að hefja verslunarrekstur árið 1989 með tvær hendur tómar, leggja áherslu á lítinn tilkostnað og lágt vöruverð almenningi til hagsbóta. Er sú saga hin ævintýralegasta og besti hluti bókarinnar. Undir forystu Davíðs Oddssonar var að renna upp á Íslandi ný öld, þar sem lánsfé var ekki skammtað eftir flokksskírteinum, heldur mati fjármálastofnana á endurgreiðslugetu lántakenda (og vonum þeirra um þóknanir). Jafnframt voru fjármagnshöft í erlendum viðskiptum afnumin. Þeir feðgar nutu útsjónarsemi sinnar og dugnaðar og urðu brátt ríkir á íslenskan mælikvarða. Ég var einn þeirra, sem dáðist að þeim. En mikið vill meira. Þegar ríkið seldi helminginn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins árið 1999, hóf Jón Ásgeir samstarf um kaup á honum við hinn umdeilda fjármálamann Jón Ólafsson, sem Davíð hafði litlar mætur á, ekki síst eftir að hann studdi R-listann fjárhagslega í Reykjavík 1994 og reyndi að fá vinstri flokkana til að mynda stjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar 1999. Davíð er eins og dýrið í söngleiknum franska. Það er ægilega grimmt: það ver sig, ef á það er ráðist.“
Hannes segir síðan að feðgarnir hafi í trausti auðæfa sinna og lánstrausts sölsað undir sig hvert fyrirtækið af öðru. Jón Ásgeir hafi hins vegar tekið illa andstöðu Davíðs Oddssonar árið 1999 við að hann keypti banka. Þá segir hann að Jón Ásgeir hafi velt upp þeim möguleika að bera fé á Davíð:
„Jón Ásgeir hafði tekið illa andstöðu Davíðs árið 1999 við kaup þeirra Jóns Ólafssonar á banka. Jón Ásgeir tók enn verr varnaðarorðum Davíðs á þingi árið 2002 um fákeppni og hringamyndun. Davíð fékk síðan fregnir af því, að Jón Ásgeir hefði velt því fyrir sér, hvort ekki mætti bera fé á sig. Sjálfur sagði Jón Ásgeir mér í spjalli okkar 23. mars 2003, að mútumálið væri mjög orðum aukið. Hann hefði setið eitt kvöldið með tveimur samstarfsmönnum sínum, sem hann nafngreindi. Talið hefði borist að andstöðu Davíðs við Baug. Þá hefði þetta verið orðað í gamni í sambandi við orðróm um, að Decode hefði mútað Davíð. Ég sagði Jóni Ásgeiri, að sumt ætti ekki einu sinni að nefna í gamni, og forsætisráðherra hefði tekið þetta óstinnt upp. Allir, sem þekktu Davíð, vissu, hversu fáránlegt þetta væri.“
Hannes rekur síðan önnur gömul og alþekkt mál, þá helst Baugsmálið, en Jón Ásgeir var þar sakaður um fjárdrátt. Hann lætur að því liggja að Jón Ásgeir leiki sakleysingja í bókinni en standi ekki undir því:
Ég held, að Jón Ásgeir sé þrátt fyrir marga góða kosti ekki sá sakleysingi, sem Einar Kárason vill vera láta í þessari bók. Það er frekar Einar sjálfur, sem er sakleysinginn. Sumt í frásögn hans gengur ekki upp. Hann skráir til dæmis samviskusamlega eftir lögfræðingi Jóns Ásgeirs (bls. 270), að lán Glitnis til Baugs hafi snarhækkað, eftir að Jón Ásgeir tók stjórnina í bankanum vorið 2007, af því að gengi krónunnar hafi fallið, og við það hafi allar upphæðir hækkað. En hefðu lán til annarra aðila þá ekki átt að hækka að sama skapi? Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom einmitt fram, að hlutfall lána Glitnis til Baugs af heildarútlánum jókst verulega, eftir að Jón Ásgeir náði yfirhöndinni í bankanum. Af einhverjum ástæðum birti rannsóknarnefndin ekki neitt samanburðarlínurit um þróun lána bankanna til stærstu viðskiptahópanna. Ég gerði hins vegar slíkt línurit eftir tölum nefndarinnar, og af því sést, að sú niðurstaða hennar er rétt, að Jón Ásgeir var í sérflokki um skuldasöfnun við bankana. Einar gengur eins og rannsóknarnefnd Alþingis fram hjá mikilvægri spurningu: Hvernig í ósköpunum gat einn aðili safnað skuldum upp á mörg hundruð milljarða króna í íslensku bönkunum? Raunar skín í tilgang Jóns Ásgeirs með bankakaupum, þegar hann segir um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (bls. 45): „Menn sáu að ef þessi banki lenti inni í gömlu klíkunum yrði lítið fé að hafa til framkvæmda fyrir aðra.“
Það þarf ekki að koma á óvart að þar sem Jón Ásgeir ber Davíð Oddson sökum hefur Hannes tilhneigingu til að taka málstað Davíðs. Hann sakar þá Jón Ásgeir og Einar jafnframt um trúnaðarbrot gagnvart heimildarmönnum sínum, því birtar séu upplýsingar út trúnaðarsamtölum:
„Sumt af því, sem þeir Jón Ásgeir og Einar segja í bókinni, virðist fela í sér trúnaðarbrot heimildarmanna þeirra. Einn þeirra er Ólafur R. Grímsson forseti, sem kveður Davíð hafa sagt honum undir fjögur augu vorið 2004, að forsvarsmenn Baugs ættu eftir að enda í fangelsi (bls. 237). Reglulegir fundir þeirra Ólafs og Davíðs, forseta og forsætisráðherra, voru bundnir ströngum trúnaði, og hefur Davíð aldrei sagt mér neitt um það, sem þeim fór í milli. Mér datt þess vegna ekki í hug að leita til hans um þetta. Annar heimildarmaður þeirra Einars er Jóhann R. Benediktsson, sem var um skeið sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Hann segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra hafa tilkynnt Davíð að sér viðstöddum í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum snemma sumars 2002, að nú ætti að láta til skarar skríða gegn Baugi (bls. 173). Davíð hafi fyrst við og „sussað“ á Harald. Ég spurði Davíð um þetta, og tók hann því víðs fjarri. Þetta væri fullkominn uppspuni. Hófið á Þingvöllum var haldið til að þakka lögreglunni fyrir hennar þátt í að vernda forseta Kína, sem kom við nokkurt andóf í opinbera heimsókn til Íslands í júní 2002. Var samkvæmið fjörugt og fjölmennt og hefði lítt hentað til launmála.“
Hannes segist ekki efast um að Jón Ásgeir hafi talið sig ofsóttan af Davíð Oddssyni. En Jón Ásgeir neiti að horfast í augu við að kvennamál hans og föður hans hafi komið þeim í vandræði auk þess sem eiturtungur úr fjölmiðlaheiminum hafi villt honum sýn, hafi Gunnar Smári farið þar fremstur í flokki. Óhætt er að segja að Hannes fer ekki fögrum orðum um Gunnar Smára:
„Menn skynja heiminn á ólíka vegu. Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi talið sig ofsóttan. Sannfæring hans um sök Davíðs í því efni virðist vera eins bjargföst og Jóns þumlungs forðum um galdra þeirra Jóns Jónssonar og tveggja barna hans. Það er eins og Jón Ásgeir geti ekki horfst í augu við þá staðreynd, að kvennamál þeirra feðga höfðu aflað þeim skæðra andstæðinga, sem lögðu nótt við dag í baráttunni við þá og töldu sig hafa engu að tapa. Eftir húsleitina í Baugi þyrptust að Jóni Ásgeiri eiturtungur, sem eygðu fjárvon með því að hvísla óhróðri í eyru hans, en æpa uppspuna eftir pöntun út í bæ. Þar var fyrirferðarmestur Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, sem átti að baki langa þrotasögu. Gerðist hann eins konar áróðursstjóri Jóns Ásgeirs, sem keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana, sjónvarpsstöð, dagblöð og tímarit. Brátt varð Ísland of lítið líka fyrir Gunnar Smára, og vorið 2006 hófu þeir Jón Ásgeir útgáfu dansks auglýsingablaðs, Nyhedsavisen. Ég hef orðið þess áþreifanlega var, að það fyrirtæki hleypti illu blóði í ráðamenn í dönsku viðskiptalífi og jók tortryggni í garð íslensku bankanna, enda gaf Danske Bank út skýrslu skömmu seinna um, að þeir væru sennilega ekki sjálfbærir. Sleit bankinn öllum viðskiptatengslum við íslensku bankana og tók stöður gegn þeim á alþjóðlegum mörkuðum. Einar hefði haft gott af því að lesa bók eftir tvo danska blaðamenn um þetta ævintýri, sem Jón Ásgeir tapaði að minnsta kosti sjö milljörðum króna á, Alt går efter planen. Sýndi Jón Ásgeir þar ótrúlegt dómgreindarleysi. Menn, sem afhenda Gunnari Smára ávísanahefti, eiga skilið að tapa fé.“
Hannes fer um víðan völl í greininni og rekur mörg mál sem tengjast Jóni Ásgeiri og hafa verið í fjölmiðlum árum saman. Í lok greinarinnar segir hann Jón Ásgeir hafa blindast af velgengni sinni, hann hafi gerst sekur um hroka en sé enginn píslarvottur. Einar Kárason skili hins vegar góðu verki við ritun bókarinnar:
„Jón Ásgeir viðurkennir í bókinni, að hann og aðrir útrásarvíkingar hafi farið of geyst. Mér finnst saga hans ekki vera píslarsaga og því síður helgisaga, heldur um ofmetnað, sem Grikkir kölluðu hybris. Þessi geðslegi og prúði maður kunni ekki að setja sér mörk. Hann fór fram úr sjálfum sér. Hann blindaðist af velgengni sinni. Þegar hann kvartar undan ofsóknum gegn sér, er rétt að hafa í huga, að hann var um skeið einn auðugasti maður Íslands. Fórnarlömb þeysa venjulega ekki um í einkaþotum og lystisnekkjum. Og Jón Ásgeir hefur haft efni á að ráða sér bestu lögfræðinga og skrásetjara, sem völ er á. Einar leysir verkefni sitt af prýði, þótt hann vinni það sér til hægðarauka að taka alloft upp beina kafla úr ritum annarra. Hann leynir því ekki heldur, að þetta er ræða verjanda (eða eftir atvikum ákæranda) og ekki ígrundaður dómur, þar sem reynt er að komast að rökstuddri niðurstöðu með því að skoða öll málsgögn.“