Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að stjórnvöld séu að koma Íslandi á kortið sem áfangastað fyrir erlend glæpagengi með nýju stjórnarfrumvarpi um málefni innflytjenda. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigmundar í Morgunblaðinu.
Breytingarnar í umræddu frumvarpi snúast um að jafna stöðu þeirra sem leita til Íslands, óháð því hvaðan þeir koma. „Hvort sem þeim er boðið hingað eftir að staða þeirra hefur verið metin í samráði við flóttamannastofnanir eða mæta sjálfir til landsins, löglega eða ólöglega,“ eins og Sigmundur orðar það. Telur hann að með þessum breytingum séu Íslendingar að fara í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin. Með þessu sé verið að auglýsa Ísland sem ákjósanlegan áfangastað fyrir erlenda glæpamenn:
„Ef slíku fyrirkomulagi, með úthlutun húsnæðis og öðrum stuðningi, yrði komið á hér á sama tíma og nágrannalöndin fara í þveröfuga átt væri verið að setja stóran rauðan hring um Ísland sem áfangastað, meðal annars fyrir glæpagengi sem taka oft aleiguna af fólki með því að selja því væntingar um betra líf á nýjum stað. Eftir að breytingar voru gerðar á móttökukerfi flóttamanna í Finnlandi komu þangað fljótlega 50-60.000 flóttamenn frá tilteknu landi. Í ljós kom að straumurinn hefði áður legið til Belgíu en breytingin sem Finnarnir töldu smávægilega hafði fært hann til þeirra.
Breytingin sem íslensk stjórnvöld boða er hins vegar ekki smávægileg. Afleiðingin yrði sú að þúsund umsóknir á ári gætu margfaldast hratt. Ef ekki yrði stefnubreyting myndi umsóknum halda áfram að fjölga þangað til ekki yrði við neitt ráðið fyrir 350.000 manna þjóð. Reynsla nágrannalandanna sýnir að það er ólíklegt að gripið yrði til ráðstafana í tæka tíð. Á meðan mun kostnaðurinn við málaflokkinn margfaldast og geta okkar til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda mun líða fyrir.“
Sigmundur bendir á að hælisumsóknir séu nú hlutfallslega sexfalt fleiri á Íslandi en í Noregi og Danmörku. Þetta sé afleiðingin af því að á sama tíma og hin Norðurlöndin reyna að hamla ásókn hælisleitenda séu Íslendingar að auglýsa landið sem æskilegan griðastað:
„Ekki er langt síðan hlutfall umsókna var langlægst á Íslandi enda landið ekki fyrsti áfangastaður hælisleitenda. Það sem hefur gerst síðan þá er að hin Norðurlandaríkin hafa markvisst unnið að því að draga úr slíkum umsóknum á meðan íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir sem auglýsa Ísland sem vænlegan áfangastað.
Hlutfallslega eru umsóknir á Íslandi nú sexfalt fleiri en í Noregi og Danmörku. Það er afleiðing þeirra skilaboða sem þau lönd hafa sent frá sér og þeirra skilaboða sem berast frá Íslandi. Nýverið sagði forsætisráðherra Danmerkur að markmiðið væri að enginn sækti um hæli í Danmörku. Landið mun áfram taka við flóttafólki en það vill hafa stjórn á því hverjum er boðið þangað.“
Sigmundur segir að flestir sem leiti hælis á Íslandi hafi fengið alþjóðlega vernd í öðru landi og eigi ekki rétt á hæli hér. Afar hægt gangi að afgreiða mikinn fjölda umsókna en þar sé við stjórnvöld að sakast en ekki starfsfólk Útlendingastofnunar. Á síðasta ári hafi Miðflokkurinn lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að tekin yrði upp 48 tíma reglan hérlendis en hún felur í sér að hælisleitendur sem ekki eiga rétt á hæli fái afgreiðslu sinna mála innan 48 tíma. Norðmenn hafi beitt þessari reglu með góðum árangri.
„Evrópusambandið viðurkennir að flestir þeirra sem sækja um hæli séu í leit að betri kjörum og betra lífi fremur en eiginlegir flóttamenn. Fyrir liggur að stórhættuleg glæpagengi skipuleggi þessar ferðir að miklu leyti. Þau halda úti facebooksíðum, dreifa auglýsingum á götuhornum og leita allra leiða til að selja fólki óraunhæfar vonir um betri kjör. Upplýsingar um bestu áfangastaðina dreifast hratt á samfélagsmiðlum,“ segir Sigmundur enn fremur í grein sinni.
Í lok greinar sinnar hvetur hann Íslendinga til að læra af reynslu annarra Norðurlanda í málefnum hælisleitenda og feta þá slóð sen Danir séu að fara núna:
„Danir gera sér nú grein fyrir því að sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fari ekki saman. Við ættum að líta til reynslu Dana og ígrundaðrar stefnu danskra jafnaðarmanna. Hverfum frá þeirri yfirborðsmennsku sem einkennt hefur umræðu um þessi mál. Umræðu þar sem þeir sem sem benda á staðreyndir og leita leiða til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda eru kallaðir öllum illum nöfnum til að hindra rökræðu og viðhalda tálsýn. Fyrsta skrefið er að hætta að gera ástandið verra með frumvörpum eins og því sem ríkisstjórnin boðar nú.“