Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Réttarsátt var gerð í október 2018 vegna málsins og féllst ríkið á að greiða tveimur einstaklingum bætur vegna skýrslunnar. Í henni komu fram persónuupplýsingar um 75 manns hið minnsta, um stjórnmálaskoðanir þeirra, þátttöku í pólitísku starfi og þátttöku þeirra í mótmælunum.
Fjölmiðlar fengu skýrsluna afhenta í október 2014 en þá hafði verið reynt að afmá umræddar persónugreinanlegar upplýsingar úr henni. Það reyndist ekki erfitt að fjarlægja yfirstrikanir lögreglunnar og þar með voru persónuupplýsingar og ásakanir lögreglu, um fólk sem var til umfjöllunar í skýrslunni, komnar í dreifingu í samfélaginu. Persónuvernd kvað upp nokkra úrskurði vegna málsins og sagði skráningu persónuupplýsinga í þágu samantektarinnar óheimila og að miðlun þeirra samræmdist ekki lögum.