fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Eyjan

Segja Þórarin slá skjaldborg um óheiðarleika á vinnumarkaði – „Mætti íhuga betur hvaða málstað hann velur sér“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 14:33

Þórarinn Ævarsson Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Efling hefur svarað grein Þórarins H. Ævarssonar, eiganda pítsustaðarins Spaðans, sem ásakaði stéttarfélagið um „talnaleikfimi“ þegar kemur að launaþjófnaði. Þórarinn hélt því fram að Efling væri að gera mikið úr málinu og léti eins og það færi vaxandi. Hann reiknaði til að mynda út að launaþjófnaðurinn sem Efling ræddi um væri einungis 0.15% af heildarlaunum félagsmanna Eflingar. Þá hélt hann því fram að ástandið væri í raun mjög gott og finnst að Efling ætti frekar að fjalla um það.

Þórarinn gagnrýnir talnaleikfimi Eflingar og segir hana villandi og eitraða

Í svari Eflingar kemur fram að það sem Þórarinn heldur fram sé ekki stutt efnislega í henni. Í yfirlýsingunni kemur fram að í launaþjófnaðarmálum taki gjarnan marga mánuði eða ár að fá laun greidd og þá sé dómskerfið ekki alltaf mjög hjálpsamt. Þá bendir Efling á að launaþjófnaður hafi færst í aukanna seinustu ár. Árið 2015 hafi launakröfur Eflingar verið 100 miljónir, en árið 2019 verið 350 miljónir.

Efling ítrekar að launaþjófnaður sé raunverulegt vandamál. Félaginu þykir sérstakt að Þórarinn skuli stíga á ritvöllinn og réttlæta vandan og finnst sérstakt að hann skuli „slá skjaldborg“ um óheiðarlega atvinnurekendur á vinnumarkaði. Efling hvetur hann til að íhuga málstað sinn betur.

Yfirlýsingu Eflingar má lesa hér að neðan:

„Í dag 28. janúar birtist í Morgunblaðinu grein eftir Þórarinn H. Ævarsson, eiganda pítsustaðarins Spaðans. Þar gerir Þórarinn launaþjófnað á íslenskum vinnumarkaði að umtalsefni og sakar hann Eflingu – stéttarfélag um „talnaleikfimi“ sem hann segir, í fyrirsögn pistilsins, vera „villandi og eitraða“.

Stóryrðin í grein Þórarins eru ekki studd af því sem efnislega kemur fram í henni. Allar tölur sem Efling hefur birt og sett í samhengi við umfang launaþjófnaðar á íslenskum vinnumarkaði eru rauntölur fengnar úr útsendum launakröfum félagsins. Slíkar launakröfur eru gerðar með vísun í þá kjarasamninga sem atvinnurekendur hafa undirgengist og eru aldrei settar fram nema til staðar séu skrifleg gögn á borð við ráðningarsamning, launaseðla, kvittanir fyrir greiðslu launa og tímaskriftir. Dæmigerð launakrafa vegna vangoldinna launa hjá Eflingu er 380 til 490 þúsund. 

Yfirleitt eru engin áhöld um réttmæti þessara krafna og greiðast þær oftast að endingu, en því miður oft ekki fyrr en að mánuðum og jafnvel árum liðnum með aðkomu dómstóla eða, í tilviki gjaldþrota, skiptastjóra. Dómskerfið hefur því miður reynst bitlaust gagnvart þessum vanda og því löngu tímabært að innleiddar verði sektir sem skapi nauðsynlegan fælingarmátt, þó þannig að atvinnurekendur geti skotið málefnalegum ágreiningi fyrir dómara líkt og nú er. Fyrir slíku fyrirkomulagi eru bæði innlendar og erlendar fyrirmyndir.

Launaþjófnaður er því raunverulegt vandamál sem felur í sér gróft óréttlæti gagnvart launafólki sem fyrir honum verður og er auk þess mikil vanvirðing við alla aðila að kjarasamningagerð. Undarlegt er að umsvifamikill atvinnurekandi á borð við Þórarinn stígi fram á ritvöllinn til að bera blak af þessari háttsemi og réttlæta hana með því sem verður best kallað, með orðum hans sjálfs, talnaleikfimi.

Þær launakröfur sem Efling gerði á árabilinu 2015 til loka árs 2019 eru 2.349 talsins og er heildarupphæð þeirra yfir milljarður króna. Upphæðin hefur vaxið ár frá ári, úr tæplega 100 milljónum árið 2015 og upp í tæpar 350 milljónir árið 2019. Miðað við fjölda félagsmanna Eflingar og fjölda launakrafna má giska á að líkur á því að hafa orðið fyrir launaþjófnaði á almennum vinnumarkaði á fimm ára tímabili séu um 1 á móti 10.

Launakröfur stéttarfélaganna ná þó auðvitað ekki utan um heildarumfang launaþjófnaðar, ekki frekar en magn upptækra fíkniefna hjá lögreglu nær utan um heildarmagn fíkniefna í dreifingu. Ómældur fjöldi verkafólks á Íslandi gerir af ýmsum ástæðum aldrei kröfu vegna vangoldinna launa. Hins vegar gefur sívaxandi fjöldi og heildarupphæð skýra vísbendingu um ört vaxandi vandamál.

Launaþjófaður er ekki bara vandi launafólksins sem fyrir honum verður, heldur einnig vandi atvinnurekenda. Því miður lenda kröfurnar oft á Ábyrgðarsjóði launa en hann er fjármagnaður af öllum atvinnurekendum, líka þeim stunda heiðarlegan atvinnurekstur.

Launaþjófar spara sér launakostnað og geta þannig undirboðið heiðarlega samkeppnisaðila í útboðum og í verðlagningu á vörum og þjónustu. Efling hefur móttekið margar ábendingar frá atvinnurekendum sem eru reiðir vegna þessa ástands sem hefur því miður orðið landlægt í ákveðnum atvinnugreinum.

Leitt er að Þórarinn kjósi að standa ekki með hagsmunum þeirra atvinnurekenda sem virða gerða samninga, heldur taki þátt í að slá skjaldborg utan um hegðun sem grefur undan heiðarleika á vinnumarkaði. Hann mætti íhuga betur hvaða málstað hann velur sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Stöðvið bruðlið, segir þjóðin

Orðið á götunni: Stöðvið bruðlið, segir þjóðin