„Það er þess vegna þjóðþrifamál að beina þeim mikla sparnaði sem hefur safnast upp í hagkerfinu inn í arðbær og fjölbreyttari fjárfestingaverkefni sem efla samfélagið. Á Íslandi eru neikvæðir raunvextir og því verða að vera til langtímafjárfestingakostir fyrir fólkið sem það hefur trú á,“ er haft eftir Lilju um þetta.
Hún sagði jafnframt að það væri eitt af stóru verkefnum næstu ára að beina sparnaði landsmanna í auknum mæli inn á verðbréfamarkaðinn þannig að almenningur komi beint að kaupum á hlutabréfum og skuldabréfum.
Lilja situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og sagði hún að fólk eigi í meiri mæli að taka sjálft ákvarðanir um sparnað sinn og á þann hátt taka þátt í fjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífinu. Hún sagðist ekki vera í neinum vafa um að það yrði til bóta að almenningur fengi meira frjálsræði um hvert hann beinir séreignarsparnaði sínum.