Morgunblaðið birti í dag pistil eftir Jón Magnússon, hæstaréttarlögmann og fyrrverandi þingmann Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann sakar heilbrigðisyfirvöld um að brjóta á einstaklingsfrelsi með öfgafullum sóttvarnaaðgerðum.
Jón skrifar:
„Á eins árs afmæli Covid-sjúkdómsins er eðlilegt að spyrja hvort hann sé versti sjúkdómurinn sem riðið hefur yfir heiminn síðustu 100 árin. Svarið er næsta örugglega nei. Lömunarveiki 1950 olli dauða og lömun milljóna barna svo dæmi sé tekið. Þá var mannfjöldi heimsins um helmingi minni en í dag. Ýmsar inflúensur hafa verið skæðar og tekið mörg mannslíf.
Andstætt því sem margir halda fram ógnar þessi sjúkdómur, þótt alvarlegur sé, ekki lífi mannsins á jörðinni og mundi ekki gera þótt ekki yrði gripið til neinna ráðstafana.”
Jón segir heilbrigðiskerfinu í raun hafa verið færð völd yfir stjórn landsins:
„Traust almennings og trú á heilbrigðiskerfið og krafan um ábyrgð ríkisins á lífi og dauða leiddi til þess að heilbrigðiskerfið tók völdin í Covid-fárinu, en lætur stjórnmálamennina bera siðferðislega ábyrgð á því sem gert er eða ekki gert. Krafan um að varðveita hvert einasta mannslíf og sú staðhæfing að mannslíf verði ekki metið til fjár er flutt fram af slíkum þunga að athugasemdir um slæm áhrif vegna sóttvarnaráðstafana m.a. á líf annarra skipta ekki máli og afgerandi þjóðfélagsleg tilraun á heilbrigðissviðinu er sett af stað og heldur áfram út í einhvern óendanleika.
Svör við spurningum um siðferðislega ábyrgð á ákvörðunum sem varða líf og dauða eru mikilvæg. Ber einstaklingurinn ábyrgð, fjölskyldan, ríkið, Guð eða einhver annar? Er í lagi að einstaklingurinn fari sér að voða en beri aldrei ábyrgð? Viljum við að ríkisvaldið setji ákveðnar reglur um líf og lífsstíl fólksins?“
Í kreppunni og sóttvarnatakmörkunum sem faraldrinum fylgir hafa umsvif ríkisins stóraukist. Jón veltir fyrir sér hve mikið vald yfir lífi einstaklingsins við ætlum að færa ríkisvaldinu:
„Ef ríkisvaldið borgar allt, hefur það þá ekki líka rétt til að taka allar ákvarðanir m.a. um atriði eins og hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað eigi að gera til að koma í veg fyrir að fólk deyi? Viljum við fela ríkisvaldinu svona víðtækt vald? Var það einhvern tíma ákveðið að ríkið hefði alfarið með líf og dauða fólks að gera?“
„Sagt er að Morgan skipstjóri, mikilvirkasti sjóræningi Karabíska hafsins, hafi spurt áhöfn sína þegar hann tók við sem foringi sjóræningjanna hvort þeir vildu stutt líf og skemmtilegt eða langt líf og leiðinlegt í hlekkjum. Áhöfnin valdi frekar stutt líf og skemmtilegt,” skrifar Jón en ætla má að hann vilji frekar stutt líf á skemmtilega sjóræningjaskipinu sem Ísland er frekar en langt og leiðinlegt líf í hlekkjum sóttvarnaraðgerða.
Jón segir það vera fordæmalaust að atvinnustarfsemi skuli opna og loka eftir geðþótta stjórnvalda:
„Í þeim faraldri sem nú ríður yfir hefur ríkisvaldið ítrekað tekið ákvörðun um og talið sér heimilt að frysta efnahagsstarfsemina og borga fólki laun fyrir störf sem það vinnur ekki og eru jafnvel ekki lengur til. Á ríkisvaldið að hafa svo víðtækar heimildir? Hvenær var það samþykkt, að ríkisvaldið hefði svona víðtæk völd yfir atvinnustarfseminni? Yfirvofandi efnahagskreppa er vegna pólitískra ákvarðana. Vafalaust verður reynt að viðhalda trylltum hrunadansi efnahagskerfisins fram yfir kosningar ef þess gefst nokkur kostur, en hvað svo? “
Jón vitnar síðan í Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseta:
„Helsta skylda ríkisins er að vernda borgarana en ekki stjórna lífi þeirra.“ og endar greinina á stórri spurningu: „Er ekki kominn tími til að treysta heilbrigðum einstaklingnum betur og láta hann gera sína réttu hluti og/eða vitleysur á eigin ábyrgð en ekki á ábyrgð skattgreiðenda?“