„Heilbrigðisráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar gengur sjálf gegn því, sem hún hafði áður bent á og lögfræðilegur ráðunautur hennar ítrekað, að vafasamt sé hvort gildandi lög heimili henni að grípa til jafn ákveðinna ráðstafana og að skylda alla ferðamenn, sem hingað til lands koma, til að undirgangast tvöfalda skimun gegn Covid-19-veirunni“.
Svona hefst grein sem Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra skrifar en greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. „Hvers vegna gengur ráðherra svona þvert á sína fyrri afstöðu?“ spyr Sighvatur. „Vegna þess, að hún er að verja þjóð sína. Verja þjóð sína fyrir aðsteðjandi hættu, sem gæti haft ekki ófyrirsjáanlegar heldur fyrirsjáanlegar afleiðingar til heilsutjóns fyrir þjóðina og til ólýsanlegra hörmunga fyrir ekki bara heilsufar hennar og þegna hennar heldur heilbrigðisþjónustuna sjálfa eins og horfurnar eru í mörgum nálægum löndum.“
Sighvatur veltir því fyrir sér hvers vegna Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra grípur til þess ráðs að taka ákvarðanir sem hún og ráðgjafar hennar efast um að lagalegur grundvöllur sé fyrir. „Hvers vegna hættir ráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar á, að henni gæti jafnvel verið stefnt fyrir dómstóla fyrir að hafa sniðgengið lög um heimild ráðherra til athafna? Er það vegna þess, að ráðherrann og ríkisstjórnin hafi vanrækt að sækja sér nauðsynlegar heimildir til Alþingis til þess að geta varið þjóð sína fyrir aðsteðjandi hættu? Nei,“ segir hann.
„Slíkt frumvarp var lagt fyrir Alþingi Íslendinga fyrir hart nær þremur mánuðum – en ekki hefur tekist að afgreiða það og sér ekki fyrir um hvort það muni auðnast né hvenær. Hvers vegna ekki? Hvaða öfl og/eða hvaða einstaklingar á löggjafarsamkomu þjóðarinnar bera ábyrgð á því, að sú afgreiðsla hefur dregist og dregist uns svo er komið, að ráðherrann með stuðningi ríkisstjórnarinnar þarf að grípa til aðgerða til þess að verja þjóð sína, sem vafi er talinn á um að hún hafi lagalega heimild til? Ekki er sá dráttur orsakaður af andstöðu ferðaþjónustunnar nema síður sé. Hún þvert á móti styður ákvörðun ráðherrans. Ekki stafar sá dráttur af andstöðu stjórnarandstöðunnar svo vitað sé. Að minnsta kosti hefur Samfylkingin hvatt einarðlega til afgreiðslu umræddrar lagaheimildar og enginn stjórnarandstöðuflokkanna hefur lýst sig andvígan því.“
Sighvatur spyr þá hver andstaðan sé gegn því að þjóðin fái þá vörn sem hún þarf á að halda. „Er það einhver hluti stjórnarþingmannanna sjálfra, sem tafið hefur afgreiðslu þeirra lagaákvæða í frumvarpi heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar, sem tryggja þann rétt að veita þjóðinni þá nauðvörn sem þjóðin þarfnast?“ spyr hann.
„Ég ætla ekki að geta mér þess til hvaða þingmenn eða hvaða öfl þar eru á ferðinni. En þjóðin sjálf á kröfu til þess að það sé upplýst. Eru það sömu þingmenn, sem ábyrgðina bera, og beitt hafa sér gegn flestum eða öllum þeim úrræðum, sem nýtt hafa verið að hálfu stjórnvalda til þess að verja íslensku þjóðina fyrir hættulegasta vágesti, sem hún hefur þurft að mæta í heila öld? Þeir hafa fátt viljað gera til þess að hlífa þjóð sinni. Hví er verið að hlífa þeim?“
Sighvatur segir að þjóðin eigi rétt á að vita hverjir það séu sem bera ábyrgðina á því að fullnægjandi lagastoð hafi ekki verið sett til grundvallar þeim vörnum, sem ríkisvaldið hefur sett. „Forsætisnefnd Alþingis, sem á að fylgja fram afgreiðslu á þeim málum, sem þjóðarnauðsyn er á að afgreidd séu, verður að svara því. Verður að svara því undanbragðalaust,“ segir hann.
„Þeirri einföldu spurningu: Hvaða þingmenn eru þetta? Gamall þingmaður, sem starfað hefur á og í tengslum við Alþingi í nærfellt þrjá áratugi veit fyrir víst, að svona tafir á mikilsverðri lagasetningu eru ekki einber tilviljun. Hún verður til aðeins vegna þess, að einhverjir á Alþingi Íslendinga vilja hamla afgreiðslu málsins. Hverjir eru það? Varla getur verið, að þeir hinir sömu þingmenn vilji þegja um það? Vilji ekki að þjóðin fái að vita um þeirra viðhorf og þeirra andstöðu – og hverjir þeir eru. Eða er það svo?“