Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að útgjöld ráðuneyta og stofnana hafi aukist um tæplega 30% og hafi sú hækkun átt sér stað á síðustu fimm árum.
Hjá flestum ráðuneytum hafa útgjöldin aukist um tugi prósenta. Hjá forsætisráðuneytinu um 25%, 26% hjá menntamálaráðuneytinu og 37,5% hjá dómsmála- og samgönguráðuneytunum.
Það eru tvö ráðuneyti sem skera sig úr hvað varðar útgjaldaaukningu en það eru fjármálaráðuneytið þar sem útgjöldin hafa hækkað um tæplega 66% á tímabilinu en það má að stórum hluta skýra með gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga og niðurfærslu á eignarhlutum og hlutafé en það var gert 2016. Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hafa útgjöldin tæplega tvöfaldast en aukningin nemur 98,4%. Mörg verkefni hafa verið flutt til ráðuneytisins á tímabilinu, aðallega frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytunum, en hjá þeim hafa útgjöldin lækkað um 8% samtals.
Þrátt fyrir að framlög til varnarmála hafi verið aukin um 25% og 53% til þróunarsamvinnu hafa útgjöld utanríkisráðuneytisins dregist saman um 2% en sendiráðum hefur verið fækkað um fjögur.
Framlög til æðstu stjórnar ríkisins hafa hækkað um 37% og vaxtagjöld um 13%.