Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og vísar í svar Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa velferðarsviðs borgarinnar, við fyrirspurn blaðsins. Fram kemur að reiknað sé með að margir atvinnulausir einstaklingar muni missa bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun á árinu og þurfi að leita eftir fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá borginni. Því er spáð að það fjölgi um hátt í 500 í þessum hópi á milli ára.
„Fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar hefur aukist mikið í kjölfar Covid-19 og er um 32% aukning á fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu á vegum borgarinnar á milli ára. Í júlí 2019 fengu 1.067 slíka aðstoð en í júlí í fyrra voru þeir 1.408,“ er haft eftir Hólmfríði Helgu sem benti á að rúmlega þriðjungur þeirra sem fá fjárhagsaðstoð sé atvinnulaus og án bótaréttinda.
Erlendum ríkisborgurum, sem þiggja fjárhagsaðstoð, hefur fjölgað umtalsvert og voru þeir 40% umsækjenda í árslok 2020.
„Auk þess að gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun í hópi þeirra sem eru atvinnulausir er gert ráð fyrir að margir þeirra sem missa bótarétt hjá Vinnumálastofnun muni leita eftir framfærslu í gegnum fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Spá fyrir 2021 tekur mið af þessu en í áætlun ársins er gert ráð fyrir mikilli fjölgun notenda, eða að fjöldi þeirra aukist úr 1. 375 á mánuði í 1.852 árið 2021 sem er um 35% fjölgun. Þess ber að geta að regluverk varðandi atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð er ólíkt. Þeir sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum eiga ekki allir rétt á fjárhagsaðstoð, meðal annars vegna þess að tekjur maka hafa áhrif á þann rétt,“ segir í svari Hólmfríðar að sögn Morgunblaðsins.
Samkvæmt áætlunum velferðarsviðs er gert ráð fyrir að hlutfall þeirra sem missa bótarétt á árinu fari lækkandi þegar líður á árið og verði frekar lágt í árslok. Ein af ástæðunum er að þess er vænst að það dragi úr áhrifum kórónuveirufaraldursins á hagkerfið.