Morgunblaðið fjallar um stöðu hótela hér á landi í dag og hefur eftir Friðriki Pálssyni, eiganda Hótel Rangár, að vonir um mikinn straum ferðamanna í sumar dvíni með hverjum deginum. „Hins vegar fögnum við hverjum einasta íslenska gesti sem hingað kemur. Þeir skipta okkur öllu máli í þessari stöðu,“ er haft eftir honum. Hann sagði jafnframt að ef engir erlendir ferðamenn komi í sumar verði það gríðarlegt högg fyrir ferðaþjónustuna. Fyrirtækin hafi mörg átt sjóði sem þau hafi getað gengið á og stjórnvöld hafi veitt mjög mikilvægan stuðning. Allt hafi þetta þó miðað að því að þreyja Þorrann fram á næsta sumar.
Morgunblaðið segir að miðað við það sem aðrir hóteleigendur segi þá séu flestir farnir að búa sig undir sumar þar sem innlendir ferðamenn verða í meirihluta. Haft er eftir Magneu Þ. Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair Hotels, að vel verði tekið á móti Íslendingum í sumar með spennandi tilboðum. Einnig sé reiknað með að meira verði um barnafólk en þegar erlendir ferðamenn eru annars vegar.