„Uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur það hlutverk að setja saman framboðslista fyrir Alþingiskosningarnar 2021. Ég hef starfað í uppstillingarnefnd undanfarið en hef nú sagt mig frá því starfi.“
Svona hefst yfirlýsing sem Birgir Dýrfjörð, meðlimur í flokksstjórn Samfylkingarinnar, sendi á fjölmiðla í dag. Ástæðan fyrir því að Birgir sagði sig úr uppstillingarnefndinni er sú að honum finnst ekki í lagi hvernig nefndin fór með Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar. Fyrir um tveimur árum síðan gekkst Ágúst við ásökunum um kynferðislega áreitni og fór í meðferð fljótlega síðar. Nú þykir mörgum líklegt að Ágúst verði ekki ofarlega á lista Samfylkingarinnar í næstu kosningum.
„Í upphafi undirrituðum við í nefndinni þagnarheit um það; hverjir ræddu og hvernig rætt var um það fólk, sem til álita kom sem frambjóðendur. Slíkt heit er forsenda þess að hver og einn geti sagt hug sinn um þau, sem vildu vera í framboði. Þetta þagnarheit vil ég ekki rjúfa. Mér er því aðeins fært að ræða mínar persónulegu ástæður fyrir brottför minni úr nefndinni,“ segir hann í tilkynningunni.
Birgir, sem sjálfur er óvirkur alkahólisti, byrjar á að segja frá sinni reynslu af alkahólismanum. „Ég hef oft lent í því að drekka mig úr karakter, og ausa svívirðingum og tilhæfulausum ásökunum yfir fólk. Á komandi sumri eru liðin 40 ár frá því ég viðurkenndi fyrir sjálfum mér vanmátt minn gagnvart áfengi. Ég hringdi þá á Silungapoll og óskaði eftir, og fékk aðstoð,“ segir hann.
„Þar var ég í afeitrun í 11 daga. Nítján félaga minna fóru í meðferð á Sogni. Ég ákvað að fara ekki í meðferð en styðjast þess í stað við fundi AA samtakanna. Þar lá mín lausn, og hún hefur dugað óslitin í 40 áfengislaus ár.“
Óttast að Samfylkingin fremji ódæðisverk
Birgir segist vera lánsamur að hann hafi umgengist gott fólk sem hafi aldrei minnt hann á hve oft hann var sér til skammar þegar hann var drukkinn. „En það breytir ekki því að ég tek mjög nærri mér þegar væn manneskja hefur leitað sér lækningar, og sannanlega náð góðum bata, og bætt ráð sitt, er dæmd vanhæf og brottrekin með þeim rökum, að hún sé ekki traustsins verð vegna fyrri hegðunar í ölæði. Það finnst mér skelfilegt ódæðisverk gegn óvirkum alkohólistum,“ segir Birgir.
„Ég óttast að Samfylkingin fremji nú það ódæðisverki gegn óvirkum alkohólistum. Þar vil ég ekki vera. Því segi ég af mér, – og get ekki annað. Eðlilegt er að spurt sé, af hverju fer ég af vettvangi? Af hverju tek ég ekki slaginn? Því er til að svara, að ég hef ekkert dagskrárvald í málinu. Það hefur formaðurinn einn. Einnig er því til að svara, að þrátt fyrir að í uppstillingarnefnd sé heiðarlegt vel meinandi og gott fólk, þá finn ég mjög fyrir nöprum næðingi heiftar, sem ég ræð ekki við að stöðva. Ekki frekar en troða strigapoka upp í norðangáttina.“