Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, fer fögrum orðum um fyrirhugaðar framkvæmdir í Hamraborg, Kópavogi, í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að yfirhalning þar muni hafa góð áhrif á mannlíf og samgöngur, hann minnist þó lítið sem ekkert á kvartanir íbúa sem komu fram frétt í síðasta tölublaði DV.
Í frétt DV var fjallað um þessar fyrirhugaðu framkvæmdir í Hamraborg. Í fréttinni kom fram að margir væru ósáttir með þessar framkvæmdir. Íbúa segist óttast svefnleysi næstu árin og að óbúandi yrði í íbúð sinni, þar sem framkvæmdir yrðu við svefnherbergisgluggann hans.
„Þrjá metra frá svefnherbergisglugganum hjá íbúum í Fannborg 1, 3, 5 og 7 verður brotið niður 7 metra ofan í bergið – til að rýma fyrir tveggja hæða bílakjallara. Það verður óbúandi í þessum 90 íbúðum í allt að þau 7 ár sem áætlað er að verkið taki,“
Áhyggjur vegna áætlananna voru margþættari, til að mynda fjárhagslegar. Frekar má lesa um það í frétt DV.
Í pistli sínum bendir Ármann á marga kosti þessa nýja kjarna Hamraborgarinnar. Stefnt sé að því að byggja 550 íbúðir á svæðinu, sem muni vonandi skapa iðandi mannlíf. Þá tekur hann fram að með tilkomu Borgarlínu muni vera mun auðveldara að fara frá Hamraborg til Reykjavíkur.
„Áhersla verður á smærri íbúðir á þessum nýja uppbyggingarreit og stefnt er að því að fólk geti keypt íbúðir án bílastæðis. Þar með skapast möguleiki fyrir þá sem kjósa bíllausan lífsstíl að festa kaup á húsnæði á hagstæðara verði í hverfi sem er afar miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og ótrúlega vel tengt við stærstu vinnustaði landsins. Tilkoma borgarlínunnar mun bæta tengingar Hamraborgarinnar enn frekar þar sem tvær línur hennar munu liggja um Hamraborgina.
Sem dæmi má nefna að leiðin frá Hamraborg í Háskólann í Reykjavík verður sex mínútur og styttist um 11 mínútur þegar borgarlína yfir Fossvog verður tekin í notkun. Að sama skapi styttist ferðatími í Háskóla Íslands og Landspítalann en þessir vinnustaðir tilheyra fjölmennustu vinnustöðum landsins. Þá batna tengingar við miðbæ Reykjavíkur með öllum þeim stofnunum og þjónustu sem þar er að finna.“
Í lok pistils síns segir Ármann að eðlilega hafi þessar áætlanir skapað umræður. Hann segir að fólki sé annt um Hamraborg og hvetur áhugasama um að fylgjast með kynningarfundi um skipulagstillögurnar sem verður streymt í dag á vef Kópavogs.
„Skipulagstillögurnar hafa vakið verðskuldaða athygli. Áhugi íbúa í Kópavogi þýðir að fólki er annt um Hamraborgina og hvet ég áhugasama til þess að fylgjast með kynningarfundi um skipulagstillögurnar sem streymt verður í dag, fimmtudaginn 14. janúar, á vef Kópavogs. Á vefnum eru einnig ítarleg og vönduð gögn skipulagsins og þrívíddargögn sem gott er að skoða.
Í þróunarferli miðbæjarins hefur átt sér stað mikið samráð og hugmyndavinna. Lagðar voru fram tvær vinnslutillögur sem er einsdæmi eftir því sem ég best veit. Nú eru tillögurnar í kynningarferli deiliskipulags og því enn hægt að senda inn ábendingar.“