Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Alfa, sem rekur sjö milljarða króna framtakssjóð, hafi einnig skilað inn tilboði í pitsukeðjuna. Áður hefur verið skýrt frá því að fjárfestahópur undir forystu Birgis Þórs Bieltvedt hafi gert kauptilboð í reksturinn. Með Birgi, sem hefur tvisvar áður komið að kaupum á Domino‘s á Íslandi, í hóp eru Birgir Örn Birgisson, núverandi framkvæmdastjóri Domino‘s, og Skeljungur.
Markaðurinn segir að erlendir aðilar hafi einnig verið áhugasamir um fyrirtækið frá því að söluferlið hófst formlega í október. Það er Deloitte í Bretlandi sem hefur umsjón með sölunni.
Markaðurinn segir að stjórn Domino‘s í Bretlandi hafi ekki enn tekið ákvörðun um að hefja einkaviðræður á grundvelli skuldbindandi tilboðs við einhverja af þeim fjárfestum sem hafa skilað inn kauptilboði. Fyrirhugað er að fjárfestar eigi kynningarfund með forsvarsmönnum Domino‘s í Bandaríkjunum á næstunni en þeir þurfa að gefa samþykki fyrir sölu.
Domino‘s Pizza Group keypti rekstur Domino‘s á Íslandi í tvennu lagi 2016 og 2017 fyrir 8,4 milljarða króna. Markaðurinn segist hafa heimildir fyrir að kaupverðið fyrir allt hlutafé Domino‘s á Íslandi geti verið um tveir milljarðar króna að þessu sinni. Afkoma fyrirtækisins hefur versnað mjög á síðustu misserum vegna aukinnar samkeppni og hækkandi launakostnaðar.