Eftir að samfélagsmiðillinn Twitter, ásamt fleirum, lokaði alfarið á Donald Trump Bandaríkjaforseta hófst líflega umræða um stöðu tjáningarfrelsisins og ritskoðunar í dag og sýnist þar hverjum sitt. Þessi umræða hefur ekki farið framhjá Íslendingum nema síður sé og hafa margir teflt fram sínum skoðunum undanfarna daga.
Ekki þarf að furða að einn þeirra sé þingmaðurinn Brynjar Níelsson sem er ávallt vís með að hafa skoðun á málunum.
„Fróðleg og upplýsandi umræða hefur orðið eftir að samfélagsmiðilinn Tvitter ákvað að loka fyrir aðgang forseta Bandaríkjanna. Umræðan hefur náð að draga skýrt fram tvískinnung og hræsni vinstri manna, og reyndar fleiri, þegar kemur að tjáningarfrelsi og eignarréttinum, sem eru hvort tveggja eru sennilega mikilvægustu mannréttindin í lýðræðissamfélagi,“ svo skrifar Brynjar á Facebook í dag.
Brynjar bendir á að þegar takmarka eigi tjáningarfrelsi hjá opnum miðlum þá þurfi það að byggja á almennum og hlutlægum forsendum.
„Þegar takmarka á tjáningarfrelsi hjá miðlum sem opnir eru fyrir alla þarf það að vera á almennum og hlutlægum forsendum, svo sem eins og hvatning til ofbeldis eða brota á lögum. Þau geta ekki frekar en önnur fyrirtæki ákveðið að hafa bara viðskipti við þá sem þeim eru þóknanlegir og vísað til eignarréttarins.“
Furðar Brynjar sig þó á því að sósíalistar styðji ákvörðun Twitter í þessu máli, þar sem Twitter hljóti að teljast til auðvaldsins sem sósíalistar séu jafnan andstæðir.
„Nú ber svo við að sósíalistar eru farnir að verja eignarrétt auðvaldsins sem ráði því hverjir geta talað um allan heim. Það hefði heyrst hljóð úr horni ef lokað hefði verið á tjáningarfrelsi þeirra sjálfra.
Þessi sjónarmið eru miklu hættulegri lýðræðinu en eitthvert flón sem situr í æðsta embætti tímabundið. Forsenda lýðræðis er tjáningarfrelsi fyrir alla. Þetta óþol fyrir skoðunum annarra er ríkt í mörgum, einkum þeim sem hæst tala nú um stundir um lýðræði og mannréttindi. Þetta er örugglega heimsmet í tvískinnungi og hræsni“