Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir óeirðirnar í Bandaríkjunum skiljanlegar, en þó ekki réttlætanlegar. Þetta kemur fram í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann ræðir óeirðirnar og orsakir þeirra.
Hann byrjar á að fjalla um mótmæli Black Lives Matter-hreyfingarinnar, sem voru hvað mest áberandi í sumar í kjölfar morðsins á George Floyd. Hann segir að þegar að lögregla eigi það reglulega til að drepa vini þína og félaga þá sé ekki eðlilegt að fólk bregðist við með mótmælum. Björn segir einnig skiljanlegt að fólk beiti ofbeldi í þessum aðstæðum, þó honum finnist það ekki réttlætanlegt. Hann lýsir síðan óeirðum vikunnar á svipaðan hátt.
„Hvernig myndir þú bregðast við ef lögreglan myrti reglulega vini þína, kunningja, félaga eða fólk sem þú samsamar þig við? Myndir þú bregðast við með mótmælum? Vonandi. Myndir þú bregðast við með ofbeldi? Líklega ekki. En við vitum alveg að einhver gætu gert það og við myndum jafnvel skilja af hverju. Skiljanlegt, en ekki réttlætanlegt.
Hvernig myndir þú bregðast við ef forsetinn þinn ræki upp neyðaróp um að verið væri að stela kosningum og grafa undan lýðræðinu? Myndir þú bregðast við með mótmælum? Vonandi. Myndir þú bregðast við með ofbeldi? Líklega ekki. En við vitum alveg að einhver gætu gert það og við myndum jafnvel skilja af hverju. Skiljanlegt, en ekki réttlætanlegt.“
Björn heldur því fram að hann muni aldrei réttlæta ofbeldi. Hann segir þó að í aðstæðum þar sem að leiðtogi líkt og Trump dreifi áróðri og ljúgi skapist ákveðnar aðstæður sem hafi hörmuleg áhrif. Björn segir að í nútímanum sé oft erfitt að greina á milli þess sem er satt og ósatt sérstaklega þegar maður trúi öllu sem einhver segi.
„Ég skil að fólki geti misboðið svo heiftarlega að það slær frá sér. Ég mun aldrei afsaka eða réttlæta slíkt en ég get sýnt því skilning. Þegar maður, sem á að heita leiðtogi, eyðir heilu og hálfu árunum í að dreifa áróðri og ljúga hefur það óhjákvæmilega áhrif. Í tilviki árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna hörmuleg áhrif.
Við búum nú í samfélagi þar sem það getur verið mjög erfitt að greina á milli þess hvað er satt og hvað er logið. Sérstaklega ef fólk er ekki tilbúið til þess að efast um það sem leiðtogi þess segir heldur tekur öllu sem kemur frá honum og hans flokksfélögum án gagnrýni, án efasemda. Hefðbundnar vísbendingar sem venjulega væri hægt að nota til þess að finna slíkan áróður og lygar virka ekki eins vel og áður. Þar á ég við fullyrðingar um að heilu miðlarnir séu falsmiðlar, að ekkert sem kemur frá þeim sé trúverðugt. Ef valdafólk nýtir slíkar merkimiðaaðferðir eigum við að bregðast við af mikilli varúð. Slíkar fullyrðingar hefðu áður merkt viðkomandi valdhafa sem lygara. Í dag eru hins vegar heilu miðlarnir tileinkaðir falsfréttum, áróðri og útúrsnúningum frá A til Ö.“
Að lokum segir Björn að það sé engin tilviljun að þessar aðstæður hafi skapast þegar fólk geti auðveldlega logið sér til framgangs. Því segir Björn að það sé mikilvægt að treysta á stofnanir lýðveldisins, en að fulltrúar þess verði einnig að standa við sitt. Lygin búi til gjá sem verði svo breið að fólk fari að slá frá sér.
„Það er engin tilviljun heldur. Ástæðan fyrir því að þetta er svona er af því að það er mögulegt og óprúttnir aðilar nýta sér það sjálfum sér til framgangs. Óhjákvæmilega falla einhverjir fyrir lyginni, verja hana og efla.
Þess vegna er traust á stofnunum lýðræðisins mikilvægt. Að það sé hægt að treysta því að þær stofnanir komi hreint og beint fram. Að það sé hægt að treysta því að þeir fulltrúar sem fara með lýðræðislegt vald fari vel með það. Að þeir fulltrúar axli ábyrgð ef þeir bregðast því valdi. Að þeir fulltrúar beiti ekki lygum og útúrsnúningum sjálfum sér til framdráttar. Því á meðan lygin er kannski augljós mörgum þá er hún heilög sannindi fyrir öðrum. Gagnvart leiðtoga sínum sjá þau ekkert illt, heyra ekkert illt og segja ekkert illt. Óhjákvæmileg afleiðing þess er gjá. Gjá sem getur orðið svo breið að fólki ofbýður svo mikið að lokum að það slær frá sér. Skiljanlegt, ekki réttlætanlegt.“