„Demókratarnir eru að reyna að stela Hvíta húsinu, þið megið ekki leyfa þeim það,“ sagði Trump við áhorfendur sínar í Georgíu í gær. Ummælin vöktu talsverða undan, enda snúast kosningarnar í dag um öldungadeildina, ekki Hvíta húsið. Þykja þau gefa það til kynna að Trump sé enn fastur í að verja sinn eigin heiður og halda í völdin sem fylgja forsetaembættinu.
Keppinautarnir í kosningunum eru annars vegar David Perdue (R), og Jon Ossoff (D), og hins vegar þeir Raphael Warnock (D) og Kelly Loeffler (R).
Repúblikaninn Perdue fékk örlítið fleiri atkvæði í fyrri umferð kosninganna en mótherji sinn, Demókratinn Ossoff. Hamagangurinn í forsetanum og atburðir síðustu vikna hafa hins vegar þótt gefa Ossoff byr í seglin og leiðir Demókratinn nú skoðanakannanir með um 2% mun. Hinar kosningarnar líta líka vel út fyrir Demókratana en Warnock, prestur í kirkju baptista í ríkinu, fékk umtalsvert fleiri atkvæði en mótherji sinn Kelly Loeffler í fyrstu umferðinni. Kelly Loeffler er einn efnaðasti þingmaður Bandaríkjanna.
Staðan í ríkinu þykir merkileg fyrir þær sakir að Georgía er sögulega eldrautt ríki. Þannig var til dæmis Biden fyrsti forsetaframbjóðandi Demókrata til að sigra þar síðan 1992 þegar suðurríkjamaðurinn Bill Clinton sigraði George H. W. Bush, sitjandi forseta. Búist er við met kosningaþátttöku, jafnvel hærri en sú þeirri sem raungerðist í nóvember í fyrra.
Ólíklegt er að úrslit liggi fyrir í kvöld sökum mikils fjölda utankjörfundaatkvæða, en samkvæmt kosningalöggjöf í Georgíu hefst talning þeirra atkvæða ekki fyrr en í dag og tekur talning þeirra umtalsvert meiri tíma en talning hefðbundinna atkvæða upp úr kjörkössum. Því má einnig vænta að fyrstu tölur verða Repúblikönum í hag en að niðurstaðan sveiflist svo til Demókrata eftir því sem líður á talninguna, enda eru umtalsvert fleiri Demókratar en Repúblikanar sem nýta sér möguleika á utankjörfundaratkvæðagreiðslu.