Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og myndu 24% landsmanna kjósa hann ef gengið væri til kosninga í dag. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í dag.
Samfylkingin er næst á eftir Sjálfstæðisflokknum með 17% fylgi og er næst stærsti flokkur landsins. Þar á eftir koma Píratar og Vinstri grænir með um það bil 12% hvor og Viðreisn með 10%.
Fylgi Vinstri grænna lækkar áberandi mest
Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn mælast nokkuð jafnir, Framsókn með 8,3% og Miðflokkur með 9,1%.
Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkurinn ná inn manni á þing miðað við þessa könnun.
Niðurstöður könnunarinnar eru áþekkar niðurstöðum síðasta Þjóðarpúls og hafa sveiflurnar verið litlar. Könnunin var gerð 1. desember til 3. janúar. Svarhlutfall var 51,5% af 10.958 heildarúrtaksstærð, og nefndu 78,8% svarenda flokk. 9.3% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu.
Niðurstöðurnar má sjá hér að neðan, samaborið við fylgi hvers flokks fyrir sig í síðustu Alþingiskosningum 2017:
Sjálfstæðisflokkurinn: 23,7% (25,3%)
Vinstri grænir: 11,7% (16,9%)
Samfylkingin: 17,0% (12,1%)
Miðflokkurinn: 9,1% (10,9%)
Framsóknarflokkurinn: 8,3% (10,7%)
Píratar: 11,9% (9,2%)
Flokkur fólksins: 4,3% (6,9%)
Viðreisn: 10,0% (6,7%)