Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að þetta sé meðal þess sem komi fram í efnahagsgreiningu SA sem verður kynnt fyrir félagsmönnum í dag. Atkvæðagreiðsla um hvort segja eigi lífskjarasamningnum upp fer einnig fram í dag hjá SA.
Morgunblaðið segir að í kynningu SA komi fram að reiknað sé með að verðmætasköpun verði rúmlega 300 milljörðum króna minni á næsta ári en ráð var gert fyrir við undirritun samninga.
„Lítil sem engin innistæða er fyrir 45 milljarða króna launahækkunum við núverandi aðstæður,“
segir í kynningunni.
Alþýðusambandið hefur ekki viljað setjast við samningaborðið til að ræða nýjar útfærslur á boðuðum launahækkunum.
„Uppleggið í slíkum samræðum var alltaf að draga úr launakostnaði fyrirtækja með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir launafólk og við segjum að það skynsamlegasta sem hægt er að gera í þessu ástandi sé að láta kjarasamninga gilda og klippa þar með á alla óvissu. Óvissu sem myndi leiða til þess að launafólk héldi að sér höndum í neyslu. Þess vegna lítum við svo á að þetta sé það besta sem hægt er að gera fyrir íslenskt efnahagslíf. Að halda launahækkunum til streitu,“
hefur Morgunblaðið eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ. Hún sagði að fyrst og fremst sé um kreppuástand, tengt ferðaþjónustunni, að ræða. Margir hlutar atvinnulífsins standi vel. Halldór Benjamínsson, framkvæmdastjóri SA, telur þennan málflutning ekki standast:
„Þetta er algjör afflutningur málsins. Þau hafa meira að segja hafnað því að ræða sérstakar lausnir tengdar ferðaþjónustu.“