Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2029. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið segir að í umsögninni komi fram að bæði kísilverinn hér á landi, við Helguvík og á Bakka, hafi nýlega stöðvað framleiðslu. Einnig hafi Rio Tinto í Straumsvík dregið mjög úr framleiðslu. Einnig hafa gagnaver dregið úr rafmagnskaupum um þriðjung. Samdráttur í orkukaupum nemur 1,5 teravattstundum á ári sem svarar til um 7,5% af árlegri vinnslugetu raforku hér á landi.
Í umsögn Bjarna kemur einnig fram að „ekki sé ólíklegt að álveri Rio Tinto verði lokað á næstunni“ sem myndi hafa í för með sér að 22% af þeirri raforku sem er hægt að vinna á landinu miðað við núverandi uppsett verð seljist ekki. Fréttablaðið segir að í umsögn Bjarna komi einnig fram að álmarkaðurinn sé erfiður um allan heim núna vegna mikillar uppbyggingar hans í Kína. Ekkert bendi til að sú staða breytist á næstunni. Hann segir einnig að áliðnaður á Vesturlöndum gæti hugsanlega lagst af ef staða álmarkaða lagast ekki á næstu árum. Þetta eigi hugsanlega við um álverin á Reyðarfirði og Grundartanga.
Umsögn Bjarna er tilkomin vegna fyrirætlana Landsnets um að fjárfesta í flutningskerfi raforku fyrir 90 milljarða á næstu tíu árum. Fréttablaðið hefur eftir honum að þetta myndi valda því að efnahagsreikningur Landsnets myndi um það bil tvöfaldast. Flutningskostnaður, sem viðskiptavinir Landsnets greiða, er aðallega ákvarðaður út frá eignastofni fyrirtækisins og því myndi flutningskostnaðurinn óumflýjanlega hækka.
„Sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk þegar kemur að raforkukostnaði og það er einsýnt að hækkandi flutningskostnaður myndi þýða minni kaup á raforku. Þá þarf Landsnet að hækka verðskrána sem myndi enn frekar draga úr eftirspurn. Þarna gæti myndast spírall sem ekki endaði vel,“
er haft eftir honum. Hann sagði einnig að fjárfestingaráætlun Landsnets byggist á forsendum um vöxt sem byggist ekki á veruleikanum eins og hann blasi nú við.