Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fram kemur að stærsti áhrifaþátturinn sé heimsfaraldur kórónuveirunnar sem hefur haft í för með sér minni útsvarstekjur, meiri útgjöld til velferðarmála og fjárfestingar til að skapa atvinnu.
Fulltrúar sveitarfélaganna funduðu með forsætisráðherra og sveitarstjórnarráðherra fyrir helgi þar sem farið var yfir stöðu mála. Stefnt er að því að funda aftur í næstu viku og að þá liggi fyrir svör um aðgerðir ríkisins. Á næsta ári verða framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skert um fjóra milljarða.
Morgunblaðið hefur eftir Aldísi að ríkið þurfi að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um samstöðu með sveitarfélögunum.