Sex mánaða árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var afgreiddur í borgarráði í dag. Í tilkynningu frá Upplýsingadeild borgarinnar kemur fram að kórónuveirufaraldurinn hafi leitt til versnandi afkomu borgarinnar:
„Aðstæður sem skapast hafa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa leitt til þess að afkoma A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar verður lakari en fjárhagsáætlun 2020 gerði ráð fyrir. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft þau áhrif að tekjur hafa dregist saman en útgjöld aukist.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var því neikvæð um 3.111 mkr. Rekstrarniðurstaðan skýrist einkum af lægri skatttekjum og lægri tekjum af sölu byggingarréttar en áætlanir gerðu ráð fyrir.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir tekjusamdrátt vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í efnahagslífinu vega þyngst:
„Reykjavíkurborg sér nú skýr merki um heimsfaraldurinn í fjárhagsuppgjöri fyrstu sex mánaða. Þyngst vegur tekjusamdráttur vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í efnahagslífinu. Áberandi tekjufall er einnig hjá Strætó og Faxaflóahöfnum. Hins vegar hafa aukin útgjöld fylgt viðbrögðum við Covid-19. Rekstur málaflokka hefur að öðru leyti gengið vel. Niðurstöðurnar eru í ágætu samræmi við sviðsmyndir og spár fjármálasviðs borgarinnar frá því í vor og undirstrika að standa þarf með sveitarfélögum við núverandi aðstæður enda bera þau uppi lykil grunnþjónustu í samfélaginuþ“
Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 4.504 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir talsvert betri afkomu.
Í tilkynningunni segir enn fremur:
„Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 724.530 milljónir króna en heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 378.064 milljónir króna. Eigið fé var 346.466 milljónir króna. Þar af var hlutdeild meðeigenda 18.859 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 47,8% en var 49,9% um síðustu áramót.“
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, telur borgina vera ógjaldfæra og segir auknar lántökur upp á 11 milljarða vera sláandi. Bókun hennar í borgarráði um málið er eftirfarandi:
„Miklum áhyggjum er lýst yfir með fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Skuldir samstæðunnar aukast um rúma 33 milljarða á sl. 6 mánuðum og tekjur hafa dregist gríðarlega saman.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var neikvæð um 4,5 ma.kr. sem var 10,4 m.kr. verri niðurstaða en áætlað var og 8 milljarða tekjuauki sem reiknað var með er ekki að skila sér.Veikleiki í uppgjörsaðferðum Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústöðum (forðubókhald) birtist nú glöggt þegar þrengir að í samfélaginu og skilar sér með neikvæðum hætti í uppgjöri samstæðunnar. Froðuuppgjörsaðferð Félagsbústaða skilar nú einungis 79 milljónum vegna þess að fasteignamat hefur lítið hækkað. Álafleiðusamningar Orkuveitu Reykjavíkur leiða af sér 5,7 milljarða tekjutap.
Auknar lántökur upp á 11 milljarða umfram afborganir lána eru sláandi og ljóst að mikil þörf er á enn frekari lántökum. Sú staðreynd að veltufé frá rekstri er einungis 3,1% þegar æskilegt hlutfall er 9% eru hrikalegar fréttir.Þegar allar skuldbindingar Reykjavíkurborgar eru teknar saman þ.e. skuldbindingar vegna lífeyrisskuldbindinga og tekjuskattsskuldbindinga, langtímaskuldir og skammtímaskuldir, skuldar borgin 378 milljarða.Þessi skuldastaða er óbærileg og auðvelt að álykta að borgin er ógjaldfær.“