Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, fer hörðum orðum um nýtt myndband sem Samherji birti í gær, til höfuðs RÚV og rannsóknarblaðamanninum Helga Seljan. Myndbandið er nýtt innlegg í deilur um trúverðugleika gagna sem Helgi telfdi fram í Kastljóssþætti árið 2012, þar sem Samherji var vændur um að selja karfa á undirverði til dótturfyrirtækisins síns í Cuxhaven.
Sjá einnig: Samherji ekki af baki dottnir – Birta annað myndband og standa við ásakanir
Í myndbandinu er meðal annars gagnrýnt að Helgi hafi teflt fram gögnum í Excel-skjali frá Verðlagsstofu skiptaverðs og látið að því liggja að um frágengna skýrslu væri að ræða.
Svavar segir í harðorðum pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær:
„Nýjasta níð-heima-vídeó Samherja skrapar botn hins almenna velsæmis með alveg nýjum krafti.
Enginn er skrifaður fyrir bullinu, hvorki sem höfundur eða ritstjóri.
Það á að hræða fjölmiðla, blaða- og fréttamenn frá því að fjalla um myrkraverk Samherja.“
Svavar segir að engu máli skipti hvort skjalið sé kallað skýrsla, minnisblað eða Excel-skjal. Upplýsingarnar sem komi fram í skjalinu séu það sem skipti máli og Samherji hafi hvergi vefengt tölurnar sem Helgi setur fram í þættinum. Svavar er mjög harðorður um vinnubrögð Samherja í málinu: „Þarna er settur fram einhliða áróður af hendi launaðra málaliða um fullkomin aukaatriði í málinu.“
Pistilinn má lesa með því að smella á tengilinn hér að neðan: