„Það var komið þó nokkuð líf í markaðinn og við vorum farin sjá fram á að eftir harkalegar hagræðingaraðgerðir gætum við rekið þrjú af hótelunum okkar í vetur og átt fyrir launum og kostnaði, og hugsanlega borgað af lánum.“
Hefur Markaður Fréttablaðsins eftir Kristófer Oliverssyni, formanni Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu og framkvæmdastjóra Center Hotels.
Haft er eftir honum að hertar aðgerðir á landamærunum gjörbreyti stöðunni og stjórnvöld þurfi að bregðast við. Annað hvort þurfi að hverfa frá hertum aðgerðum eða koma til móts við atvinnulífið með því að framlengja úrræði á borð við hlutabótaleiðina.
Aðspurður um hvort hann telji að mörg hótel muni nýta sér úrræðið í vetur sagði hann að það velti á hversu hart kröfuhafar gangi að skuldurum á næstu mánuðum og hverjar mótvægisaðgerðir stjórnvalda verða.
Runólfur Þór Sanders, sérfræðingur í endurskipulagningu fyrirtækja hjá Deloitte, sagði að tímabundinn greiðslufrestur á lánum, sem bankar og fjármálastofnanir hafa veitt mörgum fyrirtækjum frá í apríl renni út í lok september. Með þessu úrræði gátu fyrirtæki frestað greiðslum í allt að sex mánuði. Í september eða október muni koma í ljós hvort úrræðið um greiðsluskjól verði nýtt af mörgum.
„Margir hljóta að íhuga greiðsluskjól fyrir veturinn í ljósi þess að staða ferðaþjónustunnar er nánast óbreytt frá því í vor. Ef það verður ekki bóluefni í augsýn fyrir áramót, eða ef önnur úrræði, eins og greiðslufrestur hjá bönkum, verða ekki framlengd, þá ættu öll ferðaþjónustufyrirtæki að skoða þessa leið.“
Er haft eftir Runólfi.